Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stúlkur með ADHD skaði sig en drengir rasi út

16.11.2019 - 19:26
Mynd: Grímur Jón Sigurðsson / RÚV
Jafnmargar stúlkur og drengir eru með ofvirkni og athyglisbrest en einkennin eru ólík, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar. Stúlkur lokast, skaða sig og leita í fíkniefni en drengir rasa út og sýna óþekkt. 

Heilsa, líðan og hegðun barna og ungmenna hefur verið rannsóknarefni vísindamanna síðastliðin tuttugu ár. Inga Dóra Sigfúsdóttir hefur ásamt fleiri vísindamönnum hefur unnið að þessum rannsóknum. Spurningakönnun er lögð fyrir nemendur í skólum.

„Meðal þess sem við mælum eru ADHD-einkenni. Þetta er svona skimunarkvarði sem við erum með í okkar rannsóknum,“ segir Inga Dóra.

Hún greindi frá rannsóknarniðurstöðum á fræðslufundi fyrir almenning á vegum Íslenskrar erfðagreiningar í dag. Um ellefu prósent drengja og stúlkna eru með ADHD samkvæmt spurningakönnum er engin munur á kynjunum þar. Inga Dóra segir að athyglisbrestur og ofvirkni lýsi sér hins vegar á ólíkan hátt hjá stúlkum og drengjum.

„Það er kynjamunur og hann kemur í raun og veru fram í því að einkennin birtast á ólíkan hátt. Þannig að stelpurnar segjast frekar vera gleymnar, þær eru utan við sig, þær eru þægar. Þetta lýsir sér öðru vísi. Strákarnir geta ekki setið kyrrir, þeir eru óþekkir, þeir eru meira truflandi, þeir eru talsvert líklegri til þess að segjast hafa fengið ADHD-greiningu og þeir eru mun líklegri til þess að taka lyf,“ segir Inga Dóra.

Bæði strákar og stelpur finna þó fyrir afleiðingum ADHD.

„Stelpurnar beina sínum áhrifum inn á við. Þær meiða sig, þær eru líklegri til þess að neyta vímuefna. Strákarnir eru óþekkir, þetta brýst meira út. Það kann að vera að það sé þess vegna sem stelpurnar eru mun ólíklegri til að fá greiningu, vera sendar í mat og fá lyf.

Þannig að þær fá síður aðstoð en strákarnir?

„Já, þær þurfa að mælast talsvert hærra á skimunarkvarðanum til þess að hafa verið greindar,“ segir Inga Dóra.