Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stúlkan var orðin köld og hrakin en líður nú vel

15.01.2020 - 11:06
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Unglingsstúlkan sem lenti í snjóflóðinu á Flateyri í nótt sefur. Læknir á sjúkrahúsinu á Ísafirði segir að henni líði vel. Stúlkan var föst í flóðinu í rúman hálftíma og var orðin köld og þrekuð. Hjúkrunarfræðingur á Flateyri brást hárrétt við og kom í hana hita. 

 

Líðanin góð miðað við í hverju hún lenti

Varðskipið flutti svo stúlkuna og aðstandendur hennar til Ísafjarðar í morgun. Örn Erlendur Ingason, læknir á sjúkrahúsinu á Ísafirði segir að líðan stúlkunnar, sem er á fimmtánda ári, sé góð. „Hún er hérna inniliggjandi á sjúkrahúsinu með móður sinni. Henni líður vel miðað við í hverju hún lenti.“

Reyndur hjúkrunarfræðingur brást hratt við

Meiddist hún eitthvað eða ofkældist hún? „Já hún var ansi köld og þrekuð þegar hún náðist út úr skaflinum. Það fylltist hjá henni herbergið af snjó, mjög þykkum snjó, svona steypu. Það voru víst mjög snör handtök við að moka hana út, móðir hennar vissi nákvæmlega hvar hún var og svo fékk hún aðhlynningu hjá fólkinu á staðnum. Það er hjúkrunarfræðingur sem býr á Flateyri, mjög reynd, og hún kom hita í hana. Það voru snör viðbrögð.“

Mæðgurnar hvílast

Þurftu systkini stúlkunnar og móðir hennar líka aðhlynningu? „Já, það er nú bara áfall náttúrulega að lenda í svona, þau hafa fengið þannig aðhlynningu. Móðir hennar er hérna hjá henni á stofu, þær eru báðar sofandi eins og er,“ Segir Örn Erlendur. 

Sjúkrahúsið í viðbragðsstöðu

Fjórir heilbrigðisstarfsmenn fóru með varðskipinu til Flateyrar í morgun, þeir sinna þar áfallahjálp í dag. Örn segir flestar götur á Ísafirði lokaðar, bæði leiðina inn í Hnífsdal og Skutulsfjarðarbraut. Að vísu sé búið að ryðja en hætta á snjóflóðum. „Það er hægt samt að færa alla sem eru bráðveikir og slasaðir til sjúkrahússins, við erum náttúrulega bara í viðbragðsstöðu hérna.“

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV