Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stuðningsfulltrúinn sýknaður

30.07.2018 - 10:10
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Freyr Arnarson
Maður sem ákærður var fyrir kynferðisbrot gegn fjórum börnum og einum pilti var sýknaður í dómi sem kveðinn var upp í Héraðsdómi Reykjaness í morgun. Maðurinn starfaði sem stuðningsfulltrúi hjá Barnavernd Reykjavíkur en þau atvik sem hann var ákærður fyrir tengdust ekki þeim störfum.

Verjandi mannsins vildi ekki tjá sig um niðurstöðuna þegar fréttastofa ræddi við hann rétt eftir að dómur var kveðinn upp.

Ákæran var í þrettán liðum og samkvæmt henni voru brotaþolarnir fimm. Maðurinn var sýknaður af öllum ákæruliðum. Sakarkostnaður var 25 milljónir króna og verður hann allur greiddur úr ríkissjóði.

Dómur Héraðsdóms Reykjaness hefur ekki verið birtur. Fjarlægja þarf persónugreinanlegar upplýsingar úr dómnum áður en birta má dóminn, svo sem um þá sem maðurinn var ákærður fyrir að brjóta á, en sýknaður af.

Lögregla rannsakaði átta mál þar sem maðurinn var grunaður um brot gegn börnum og einhverfum pilti. Rannsókn lögreglu á sjö fyrstu málunum lauk með því að maðurinn var ákærður vegna fjögurra þeirra. Um það leyti sem fyrstu málin voru send frá lögreglu til saksóknara bættist áttunda málið við.

Maðurinn var handtekinn og settur í gæsluvarðhald seinni hluta janúarmánaðar. Seinna kom í ljós að kæra á hendur manninum barst lögreglu í ágúst og að maðurinn hafði verið yfirheyrður hjá lögreglu í desember. Þrátt fyrir það var barnaverndaryfirvöldum ekki gerð grein fyrir kæru á hendur manninum fyrr en hann var handtekinn. Maðurinn hafði áður verið kærður til lögreglu árið 2013 og Barnavernd Reykjavíkur hafði verið gert viðvart um manninn mörgum árum fyrr. Þrátt fyrir það starfaði maðurinn áfram og ótruflað með börnum.

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hélt blaðamannafund í febrúar þar sem farið var yfir verklag lögreglu að lokinni innri athugun lögreglunnar. Þar sagði lögreglustjóri að ábyrgð stjórnenda hefði verið óljós í upphafi en síðar hafi verið brugðist hratt og vel við þegar í ljós kom hvers eðlis var. Hún sagði þá að styrkja þyrfti stjórn kynferðisbrotadeildar lögreglunnar og endurmeta vinnulag. Fram kom á fundinum að lögreglumaður sem fór með málið í desember taldi að búið væri að tilkynna barnaverndaryfirvöldum um málið.

Uppfært: Fréttin hefur verið uppfærð og fjöldi þeirra sem maðurinn var ákærður fyrir að brjóta gegn hefur verið leiðréttur.