Akademía skynjunarinnar stendur fyrir sýningunni Umhverfing III, sem teygir sig yfir allt Snæfellsnesið og er umfangsmesta sýning sem sett hefur verið upp á Íslandi, að minnsta kosti landfræðilega. Akademían samanstendur af þeim Önnu Eyjólfsdóttur, Þórdísi Öldu Sigurðardóttur og Ragnhildi Stefánsdóttur en rúmlega 70 listamenn eiga verk á sýningunni. Listamennirnir eiga allir rætur að rekja til Snæfellsness með einum eða öðrum hætti. Verkin eru meðal annars eftir nokkra af okkar fremstu og þekktustu myndlistamönnum; Erró sem auðvitað ólst upp á Snæfellsnesi, Sigurð Kristján Guðmundsson, Rúrí og Diether Roth sem hefur djúp tengsl við Snæfellsnesið. Á meðan Dieter lifði átti hann bústað á Hellnum og var svo annt um sveitina að hann var jarðsettur þar.
Þetta er þriðja sýning sinnar tegundar sem Akademían stendur fyrir, sú fyrsta var í Skagafirði en önnur á Fljótsdalshéraði. Hugmyndin á bak við sýningaröðina að fá listamenn sem hafa einhver tengsl eða tengingu við þennan tiltekna landshluta til að sýna list sína. Verkin eru sýnd í samkomusölum, á víðavangi, kaffihúsum, bæjarskrifstofum, hótelum og víðar.
Megas útvarpað frá gömlu mastri
Sýningin teygir sig svo langt að það er jafnvel hæpið að ná að skoða hana alla á einum degi, segir Jón Proppé listfræðingur sem var með leiðsögn um sýninguna um helgina. Leiðsögnin tók tvo og hálfan tíma, en náði samt aðeins yfir hluta af sýningunni. Tengivagninn á Rás 1 sótti Jón heim og fékk hann til að segja frá sýningunni. „Þetta er eins og fjársjóðsleit stundum,“ segir Jón og glottir.
Verkin eru fjölbreytt og af öllum toga, málverk, skúlptúrar, innsetningar í náttúrunni og jafnvel útvarpsverk. „Frá gömlu mastri sem stendur við Öxl er hægt að hlusta á skáldsögu sem Megas skrifaði um fjöldamorðingjann Axlar-Björn, út frá sögunni um hann. Það er hægt að hlýða á flutning Megasar í nokkurra kílómetra radíus þannig að þegar keyrt er eftir Snæfellsnesi sunnanverðu má stilla á 105.1 og heyra óminn af þessari hryllingssögu frá sextándu öld.“
Við Búðarkot má einnig finna tvívíðan skúlptúr eftir Æsu Dórótheu, í fjörunni eru skúlptúrar eftir Guðrúnu Veru Hjartardóttur sem eru faldir á milli stokka og steina svo það getur verið erfitt að greina á milli grjótsins og skúlptúranna.