Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Strengdi 22 áramótaheit í fyrra

31.12.2019 - 15:01
Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Fjöldi Íslendinga strengir heit um hver áramót og lofar sjálfu sér því að gera betur á nýju ári. Heitstrengingar um áramót er ekki séríslensk hefð. Víða um heim allan þekkjast mismunandi áramótahefðir, meðal annars heitstrengingar. Áramót hafa ekki alltaf verið um mánaðamót desember og janúar.

„Við strengjum heit um áramót náttúrlega því þetta eru mjög stór tímamót,“ segir Dagrún Ósk Jónsdóttir, þjóðfræðingur. „Við erum að kveðja eitt ár og annað er að koma og þá liggur mjög vel við að setja sér ný markmið.“

Áramót á jóladag

Á Íslandi hefur nýtt ár byrjað 1. janúar síðan við siðaskiptin fyrir um 500 árum síðan. Áður fyrr voru áramót yfirleitt um jólin. Heitstengingar hafa þó ekki alltaf verið bundnar við áramótin. „Í fornsögunum eru nokkur dæmi um heitstrengingar sem voru gerðar í jólaveislum. Þá var það yfirleitt um fornsöguleg málefni; að maður ætlaði að vinna bardaga, konu eða land,“ segir Dagrún Ósk.

„Hér áður fyrr þá voru áramót Íslendinga á jóladag, alveg fram til siðaskiptanna. Svo verðum við ekkert mjög vör við þennan sið og það er ekki til mikið af heimildum fyrr en eftir 1900 þegar ungmennafélög fara að endurvekja þennan stig um að stíga á stokk og strengja heit. Það var ekkert endilega tengt áramótunum en nú erum við farin að gera þetta um áramótin.“

Og það þekkist víða að fólk strengi sér áramótaheit. „Það er mjög víða erlendis sem fólk strengir einhver svona áramótaheit og gerir einhver svona loforð fyrir nýja árið. Sumstaðar eru til mjög skemmtilegar hefðir, eins og til dæmis á Spáni. Þar þekkist það að fólk borði tólf vínber á miðnætti, eitt fyrir hvern mánuð sem á þá að bera með sér einhverja gæfu fyrir nýja árið,“ segir Dagrún Ósk.

Strengdi 22 áramótaheit

Spurð hvort hún ætli sjálf að strengja áramótaheit segist hún ætla að gera það. „Ég strengi alltaf fullt af áramótaheitum. Ég strengdi 22 áramótaheit í fyrra.“

Það er þó allur gangur á því hvort hún standi við þau öll, segir hún aðspurð hlæjandi.

 

birgirthh's picture
Birgir Þór Harðarson
Fréttastofa RÚV