Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Streitubíó með Adam Sandler

Mynd: Netflix / Netflix

Streitubíó með Adam Sandler

16.02.2020 - 16:03

Höfundar

Kvikmyndin Uncut Gems með Adam Sandler í aðalhlutverki minnir áhorfendur á að hann getur verið fantagóður leikari segir Gunnar Theodór Eggertsson gagnrýnandi. Myndin er hrá, sveitt og ofbeldisfull hugleiðing um græðgi og peninga, sem sýnir á sér óvæntar hliðar.

Gunnar Theodór Eggertsson skrifar:

Óslípaðir eðalsteinar, eða Uncut Gems, er nýjasta mynd Safdie bræðra, sem vöktu töluverða athygli fyrir kvikmyndina Good Times árið 2017. Hér segir frá skartgripasalanum og spilafíklinum Howard Ratner, leikinn af Adam Sandler, og vandræðum hans við að komast upp úr skuldum, en hver einasta ákvörðun sem hann tekur hefur afdrifaríkar afleiðingar í för með sér, og hvert skref fram á við virðist jafnframt færa hann þrjú skref afturábak – engu að síður er hann knúinn áfram af sjúklegu sjálfsöryggi sem virðist haldast í hendur við fíknina hans og gengur sífellt lengra til að bjarga eigin skinni. Í upphafi myndar sjáum við verkamenn í Eþíópíu grafa upp óslípaðan eðalstein og því næst kemur í ljós að Ratner hefur lagt allt undir til að kaupa þann stein til New York í von um að selja hann fyrir himinháar upphæðir. Þegar steinninn kemur loks í búðina til hans reynist lausnin því miður ekki svo einföld.

Vissulega er gaman að fá svona ferska og áhugaverða mynd beint heim í stofu, fyrir þá sem búa að Netflix áskrift, en að sama skapi ákveðinn missir að sjá hana ekki í kvikmyndasal, því ég held að Uncut Gems græði á því að áhorfandinn sé lokaður inni og bundinn í sætið, – þetta er mynd sem þarf að sjá í einni bunu og án þess að taka hlé, því andrúmsloftið kæfir mann sífellt meira eftir því sem á líður og áhorfendur sogast ofan í hringiðuna með aðalpersónunni.

Ég hef heyrt kvikmyndagerð Safdie-bræðra lýst sem „streitubíói“ og sú lýsing hentar Uncut Gems afar vel, því hún er stressandi spennumynd. Stílbrögðin sækja í hráleika áttunda áratugarins, persónur tala hver ofan í aðra, myndatakan er náin og dálítið sveitt, ofbeldið raunsæislegt og farið sparlega með það. En myndin er líka hugleiðing um græðgi og peninga og sýnir á sér óvæntar hliðar, til dæmis með listrænni sviðsetningu á baksögu gimsteinsins sem ævafornum hluta af veraldarsögunni. Tónlistin er líka óvenjuleg og ljær myndinni ákveðna dýpt, en á bak við hana stendur raftónlistarmaðurinn Daniel Lopatin, betur þekktur sem Oneothrix Point Never. Hrár og lifandi kvikmyndastíllinn minnir að vissu leyti á heimildamynd og því tengdu má nefna að tveir menn leika sjálfa sig í myndinni, annars vegar söngvarinn The Weeknd í litlu hlutverki, og hins vegar körfuboltaleikmaðurinn Kevin Garnett í veigamiklu hlutverki sem viðskiptavinur Ratners sem verður heltekinn af gimsteininum og vill ólmur eignast hann. Af öðrum leikurum má nefna rapparann Lakeith Stanfield sem einn af starfsmönnum Ratners og Idinu Menzel í hlutverki eiginkonu hans, auk nýliðans Juliu Fox sem leikur ástkonu Ratners sem er honum til trausts og taks í öllu brjálæðinu.

En fyrir miðju er auðvitað Howard Ratner sjálfur og ég er ekki frá því að hann sé í hverri einustu senu í myndinni, enda fylgjum við honum og erfiðleikum hans út í gegn. Ratner er eftirminnileg og vel skrifuð persóna sem heldur í raun myndinni uppi. Hann vill geðjast öllum og virðist trúa því innilega að hann geti komist upp með allt og hvað sem er. Bjartsýnin er leiðarljósið hjá honum, jafnvel þegar allt virðist ætla að brotna niður, og það er erfitt að hrífast ekki með. Adam Sandler hefur vakið mikla athygli fyrir frammistöðu sína sem Howard Ratner og margir voru hissa að hann hafi ekki fengið Óskarstilnefningu – en hann fékk hins vegar verðlaun fyrir besta leik karla í aðalhlutverki hjá Independent Spirit verðlaununum sem eru vanalega haldin daginn fyrir Óskarinn til að fagna óháðri kvikmyndagerð. Og hann á vissulega allt hrós skilið, því Sandler gerir gráðuga spila og spennufíkilinn bæði líflegan og sympatískan, og það er auðvelt að gleyma því að Sandler er fantagóður leikari – þau sem muna eftir honum í Punch-Drunk Love eftir Paul Thomas Anderson ættu að vita hvers lags dramatík býr í honum, þegar hann nær að rífa sig upp úr lélegu grínmyndunum.

 

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Hugljúfar og áhættulitlar yngismeyjar

Kvikmyndir

Brýtur sjónarhorn feðraveldisins á bak aftur

Kvikmyndir

Ljóðræn fegurð en langdregin og endaslepp

Kvikmyndir

Vítahringur ofbeldis sem erfist milli kynslóða