Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Strangar sóttvarnarkröfur stokka upp starfsemina

24.03.2020 - 21:42
Mynd: Elsa María Guðlaugs Drífudót / RÚV
Fyrirtæki sem fá undanþágu frá samkomubanni þurfa að standast strangar sóttvarnarkröfur. Framkvæmdastjóri fiskvinnslu í Grundarfirði segir að starfsemi fyrirtækisins hafi verið umturnað.

Þau fyrirtæki sem fá undanþágu teljast kerfislega og efnahagslega mikilvæg. Fjöldi beiðna liggur ekki fyrir en komið hefur fram að flestum þeirra var hafnað. Svör bárust seint í gær, áður en bannið tók gildi.

Víðir Reynisson yfirlögregluþjónn Ríkislögreglustjóra sagði á blaðamannafundi Almannavarna í dag að strangar reglur fylgja undanþágunum.

„Þau þurfa að uppfylla ströng skilyrði til þess að halda áfram starfsemi með aðskilnaði starfsmanna, varnarbúnaði, aðskilnaði á búningsklefum, kaffistofum, snyrtingum og öðru slíku.“

Meðal þeirra fyrirtækja sem eru undanþegin eru þau sem starfa í matvælaframleiðslu; sjávarútvegi og landbúnaði. Þá fá fyrirtæki í álframleiðslu einnig undanþágu.

Fiskvinnslufyrirtækið G.Run í Grundarfirði er eitt þeirra sem fengu undanþágu. Guðmundur Smári Guðmundsson, framkvæmdastjóri segir að fyrirtækið sá ekki fram á að geta haldið áfram starfsemi öðrum kosti.

„Það var bara hrollur í okkur. Eins og þetta leit út þangað til bara í gærkvöldi var ekkert annað í stöðunni annað en að hætta og stoppa, kalla skipin inn og hætta framleiðslu,“ segir hann.

Líkt og fleiri fyrirtæki hefur G.Run skipulagt aðskilnað starfsfólks með aðgreindum inngöngum, kaffiaðstöðu og uppstokkun á vinnuaðstöðu. Það mun þurfa að ganga lengra í þeim efnum til þess að uppfylla skilyrðin.

Húsnæði fiskvinnslunnar hefur verið lokað fyrir utanaðkomandi og starfsfólk fengið tilmæli um að takmarka samneyti við aðra utan vinnu.

„Lífið er bara vinnan og heimilið. Þannig þarftu að lifa þessa dagana, læra það og kunna það. Það er bara bannað að vera mikið á randi.“

Starfsemin hefur umturnast, dregið hefur verið úr framleiðslu og ekki unnt að horfa til lengri tíma.

„Við erum búin að gera áætlun fyrir næstu viku og það þykir okkur bara langur tími í augnablikinu.“