Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Strætó á landsbyggðinni færist til Vegagerðarinnar

30.12.2019 - 06:37
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Um áramótin tekur Vegagerðin við öllum landsbyggðarleiðum Strætó. Sveitarfélögin vildu ekki halda rekstrinum áfram þar sem tap hefur verið á þessum leiðum. Fyrir ári síðan tók Vegagerðin við ábyrgð á leiðum um Suðurnes.

Sagt er frá þessu í Fréttablaðinu í dag. Búist er við því að Vegagerðin bjóði leiðirnar út á næsta ári en óvíst er hvort samstarfið við Strætó haldi áfram.

Hingað til hafa landshlutasamtök sveitarfélaganna séð um leiðirnar og greitt verktökum fyrir og Strætó bs. þjónustaði landshlutasamtökin. Landshlutasamtökin vildu hvorki halda rekstrinum áfram ein né stofna sérstakt félag með Vegagerðinni. Nú tekur því Vegagerðin við hlutverki allra landshlutasamtakanna.

Um er að ræða leiðir frá Reykjavík til Hafnar í Hornafirði, Akureyrar, Egilsstaða, Snæfellsness og Hólmavíkur. Vagnarnir eru oft mjög illa nýttir, sérstaklega á Vesturlandi og Vestfjörðum. Fyrir tæpu ári tók Vegagerðin yfir leiðina frá Reykjavík til Keflavíkurflugvallar og leiðir á Suðurnesjum af Sambandi sveitarfélaga á Suðurnesjum.

Jóhannes Rúnarsson, framkvæmdastjóri Strætó, segir að hlutverk Strætó sé óbreytt og hann hafi fullvissu um að svo verði út næsta ár. Því til stuðnings vísar hann til stefnu ríkisins í almenningssamgöngum, Ferðumst saman, sem gefin var út í febrúar á síðasta ári. Segir hann verða unnið eftir henni á næsta ári.