Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stóru jólaverslunardagarnir valda seinkun hjá Póstinum

20.11.2019 - 16:16
Innlent · jól · Netverslun
Mynd með færslu
 Mynd: Íslandspóstur - postur.is
Tafir eru á útkeyrslu sendinga hjá Póstinum á höfuðborgarsvæðinu sem rekja má til mikils magns pakkasendinga sem streyma til Póstsins í aðdraganda jóla.

Brynjar Smári Rúnarsson, forstöðumaður markaðsdeildar Póstsins, segir að tafir sem þessar gerist einu sinni til tvisvar á ári.

„Við erum að sjá þetta gerast í kringum þessa stóru verslunardaga. Við erum mjög vel í stakk búin til þess að takast á við sveiflur, en auðvitað verðum við alltaf að hugsa um stóru myndina varðandi skipulagningu,“ segir Brynjar.

Dagur einhleypra, svartur föstudagur og netmánudagur eru útsöludagar sem tengjast hefðum í Kína og Bandaríkjunum. Fólk keppist þá við það víða um heim að gera góð kaup á netinu – og Íslendingar eru engin undantekning. Bögglarnir streyma nú til Póstsins eftir kaupgleði á degi einhleypra fyrir skömmu.

Helst pantanir innanlands sem valda seinkun

Brynjar segir að Pósturinn hafi fyrst farið að merkja aukið álag í kjölfar þessara daga fyrir þremur árum og að helst eru það sendingar innanlands sem valda seinkuninni.

„Sendingar sem eru að berast frá útlöndum, þær eru að berast á lengri tíma. Á meðan innlendingar sendingar eru allar að koma á sama tíma, mjög fljótt eftir þessa verslunardaga. Það er í rauninni ástæðan fyrir seinkuninni,“ segir hann.

Brynjar segist búast við því að sendingar verði komnar á áætlun í kvöld eða á morgun og að lítið sé hægt að gera annað en að bíða róleg eftir sendingunum. Það megi svo búast við seinkun á ný eftir svarta föstudaginn í lok nóvember og netmánudaginn í byrjun desember.

Uppfært 23:43 Brynjar vill bæta því við að fólk sem bíður spennt eftir senidngum getur haft samband við þjónustuver Póstsins, til dæmis gegnum Facebook, og þá verður reynt að finna lausn. Þá minnir hann á að fólk getur látið senda pakka í Póstbox Póstsins sem eru aðgengileg utan hefðbundins opnunartíma.