Stórt högg á þjóðarbúið

18.03.2020 - 17:00
Mynd: Arnar Páll Hauksson / Arnar Páll Hauksson
Aðalhagfræðingur Seðlabankans segir ljóst að það verður mikið áfall í efnahagsmálum hér á landi. Aðgerðir bankans sem kynntar voru í dag miði að því að milda þetta áfall. Hann segir að miðað við þróunina í Kína megi búast við að hér verði stórt högg á þjóðarbúið á fyrri hluta ársins.

Stýrivextir aldrei lægri

Peningastefnunefnd Seðlabankans ákvað öðru sinni á stuttum tíma að lækka stýrivexti um hálft prósentustig. Þeir eru nú komnir niður í 1,75% og hafa aldrei verið lægri. Þá ákvað fjármálastöðugleikanefnd bankans að aflétta 2% kröfu um sveiflujöfnunarauka fjármálafyrirtækja sem verður 0%. Sveiflujöfnunaraukinn verður óbreyttur næstu tvö ár. Þetta þýðir að í bönkunum skapast aukið svigrúm til nýrra útlána sem nemur 350 milljörðum eða um 12,5% af lánasafni bankanna.

Áfall í efnahagslífinu

En hvaða áhrif geta þessar ákvarðanir haft? Þórarinn G. Pétursson, aðalhagfræðingur Seðlabankans, segir að ljóst  að það verði mikið áfall í efnahagsmálum.

„Það sem þessar aðgerðir gera er að hjálpa til við að milda áfallið. Það mun ekki gera það að verkum að hér verði ekki erfiðleikar. Hjálpa heimilum og fyrirtækjum í gegnum þetta tímabundna ástand. Lækkun vaxta gerir það að verkum að til dæmis heimili og fyrirtæki með lán á breytilegum vöxtum munu eiga auðveldar með að standa undir greiðslubyrði af þessum lánum. Það verður auðveldara að endurfjármagna lán og ef einhverjir eru að fara að taka ný lán þá verða þau á hagstæðari kjörum en ella,“ segir Þórarinn.

Hjálpar heimilum og fyrirtækjum

Sveiflujöfunaraukinn lækkar úr 2% í 0%. Hann er krafa um eigið fé banka sem þeir þurfa að leggja til hliðar. 

„Það að lækka þessa kröfu gerir það að verkum að þeir eiga þá meira fé til þess að hjálpa heimilum og fyrirtækjum í útlánum. Allar þessar aðgerðir eru til að stuðla að því að milda áfallið. Gera fjármagnið ódýrara og gera heimilum og fyrirtækjum auðveldara að ná í það fjármagn sem þau þurfa,“ segir Þórarinn.

Staðan breytist dag frá degi

Það kom ítrekað fram á fundi Seðlabankans að mikil óvissa ríkir í efnahagsmálum og erfitt sé að spá um framhaldið. Þórarinn segir að matið á efnhagshorfunum sé að breytast frá degi til dags. Nýjar fréttir berist á hverjum degi. Landamæralokanir hafi mikil áhrif á flug og ferðaþjónustu. Hann segir að innlendu áhrifin séu töluverð. Samkomubann, að fólk sitji heima eða sé í einangrun. Það hafi í för með sér að fólk kaupi ekki ýmsa þjónustu og það bitni á fyrirtækjum sem veiti hana. Það hafi svo áhrif á fólk sem vinni hjá þessum fyrirtækjum og svo framvegis.

„Þannig að efnahagshorfurnar eru að breytast mjög mikið og til hins verra. Hve mikið er hins vegar óvíst. Matið á því getur breyst frá degi til dags. En það er allt útlit fyrir að hér verði efnahagssamdráttur í ár en ekki sæmilegur hagvöxtur eins og áður var talið,“ segir Þórarinn.

Hversu slæmt er ástandið nú þegar?

„Það er alveg ljóst að restin af fyrsta ársfjórðungi og þeim næsta verður mjög slæm. Við höfum hins vegar ekki mikið af föstum tölum til að byggja á en við sjáum til dæmis þróunina í Kína sem er aðeins á undan okkur í þessu. Þar hafa birst tölur sem benda til mjög mikils samdráttar í kjölfar dreifingar á veirunni og lokunar á svæðum. Miða við það megum við alveg eiga von á að hér verði stórt högg á þjóðarbúið á fyrri hluta ársins.“

-Sem kemur þá fram í auknu atvinnuleysi, auknum erfiðleikum fyrirtækja og jafnvel gjaldþrotum?

„Það getur gert það og það er þá hlutverk efnahagsstjórnunarinnar að draga eins mikið úr því og hægt er. En auðvitað verður ekki komið í veg fyrir að atvinnuleysi aukist og fyrirtæki hætti starfsemi en það er hægt að minnka það eins mikið og hægt er,“ segir Þórarinn.

 

arnarph's picture
Arnar Páll Hauksson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi