
Niðurstaðan þýðir að Sósíalistar bæta við sig 20 þingsætum, fá 106 þingmenn í stað 86. Það dugar þó ekki til að ná meirihluta á hinu 230 manna þingi Portúgals. Sósíalistar reiddu sig á stuðning tveggja minni flokka á vinstri vængnum á nýliðnu kjörtímabili og talið er líklegt að sú verði aftur raunin nú.
Annar smáflokkanna nægir til að mynda meirihluta
Hvort Costa láti sér nægja að starfa með öðrum þeirra á þó eftir að koma í ljós, en það er vissulega möguleiki í stöðunni því Vinstri blokkin fékk tæp 10 prósent atkvæða og 19 menn kjörna, og Kommúnistar 6,5 prósent atkvæða og 12 þingmenn. Catarina Martins, leiðtogi Vinstri blokkarinnar, hefur þegar lýst yfir vilja til áframhaldandi samstarfs.
Sósíaldemókratar fara úr 86 þingmönnum í 77 og stærsti hægri flokkur landsins, Þjóðarflokkur kristilegra demókrata, galt afhroð í kosningunum, fékk aðeins fimm menn kjörna en var með 18. Þessir tveir flokkar buðu fram sameiginlegan lista í kosningunum 2015 en hvor í sínu lagi í þetta sinn.
Úrslit portúgölsku þingkosninganna 2019
- Sósíalistar 36,65% 106 þingmenn (voru 86)
- Sósíaldemókratar 27,9% 77 þingmenn (voru 89)
- Vinstri blokkin 9,67% 19 þingmenn (óbreytt)
- Kommúnistar & Græningjar 6,46% 12 þingmenn (voru 17)
- Þjóðarflokkurinn/Kristilegir demókratar 4,25% 5 þingmenn (voru 18)
- PAN - dýra- og náttúruverndarflokkur 3,28% 1 þingmaður (óbreytt)
- CHEGA - flokkur þjóðernissinna 1,3% 1 þingmaður (nýr flokkur)
- Frjálslyndir 1,29% 1 þingmaður (nýr flokkur)
- LIVRE, sósíalískur umhverfisflokkur 1,09% 1 þingmaður (nýr á þingi)