Daniel Johnston gerði lengst af út frá Austin í Texas þar sem hann var þátttakandi í gróskumikilli jaðarrokksenu níunda áratugarins. Hann dreifði heimagerðum snældum með tónlist sinni á götum úti og vakti athygli fyrir sérstakan og óútreiknanlegan persónuleika.
Kasetturnar innihéldu hráar heimaupptökur með einföldum skemmtaraleik, grípandi melódíum sem sungnar voru af hjartablæðandi innlifun, textum sem eru eins og bestu naívu listaverkin - á sama tíma barnsleg og djúpvitur - en umfjöllunarefnið var oftar en ekki geðveiki og óendurgoldin ást. Hann var gríðarlega atorkusamur og gaf út mikið af tónlist, lággæða upptökur sem hafa síðan öðlast goðsagnakenndan sess í rokksögunni.
Kasetturnar gengu manna á millum en þegar stærsta rokkstjarna tíunda áratugarins, Kurt Cobain úr hljómsveitinni Nirvana, hampaði Johnston og klæddist bol merktum honum svo mánuðum skipti, dreifðist hróður hans víðar um heim.
Daniel Johnston er einn virtasti lagasmiður indítónlistarheimsins og hafa listamenn og hljómsveitir á borð við Beck, Tom Waits, Bright Eyes, Sonic Youth, Lana Del Rey - og að ógleymdum Kurt Cobain - gert ábreiður af lögum hans eða talið hann til áhrifavalda sinna.
Johnston var alla tíð einrænn og glímdi við þráhyggjuhugsun, en um stormasama baráttu hans við geðhvörf og geðklofa er fjallað í heimildarmyndinni The Devil and Daniel Johnston frá árinu 2005.
Í júní 2013 kom Johnston til Íslands og lék á tónleikum í Fríkirkjunni. Það var Ágúst Már Garðarsson, matreiðslumaður, sem sá um skipulagninguna, en hann er mikill aðdáandi og finnur fyrir sterki tengingu við Daniel Johnston enda hefur hann sjálfur tekist á við geðsjúkdóma - og séð vini falla fyrir þeim.