Storkar örlögunum við brún Skógafoss

10.09.2019 - 11:03
Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Á síðunni Bakland ferðaþjónustunnar á Facebook furðar fólk sig á fífldirfsku erlends ferðamanns sem vaðið hefur út að Skógafossi og stendur við fossbrúnina á stuttbuxum einum fata. Mynd af atvikinu hefur vakið mikla athygli. Landvörður á svæðinu segir lítið hægt að gera til að sporna gegn framferði sem þessu, en það heyri sem betur fer til undantekninga.

Ferðamaðurinn Nora McMahon birti myndirnar upphaflega á Instagram og á síðunni Iceland Q&A á Facebook. Undir myndirnar skrifar Nora:„Asnaskapur á hæsta stigi. Ég hélt að ég yrði vitni að dauða áhrifavaldsbjána. Við erum að ala af okkur kynslóð sjálfhverfra sem gera hvað sem fyrir „læk.“

 

Fossinn er í Skógá við Skóga í Rangárþingi eystra. Skógafoss er um 25 metra breiður og rúmir 60 metrar að hæð. Aníta Björk Jóhannsdóttir Randíardóttir, landvörður í Dyrhólaey og Skógafossi, segir engin skilti beinlínis vara fólk við að fara í fossinn. Hann sé þó afgirtur og víða séu viðvörunarskilti sem vísa fólki frá því að ganga á gróðrinum umhverfis fossinn. Girðingar voru settar við fossinn fyrir tveimur árum til að sporna gegn átroðningi ferðafólks. Tvær gönguleiðir eru að fossinum, önnur með hlíðinni austan megin og hin eftir eyrum árinnar vestan við fossinn. 

Aníta segist aldrei hafa séð neinn standa við fossbrúnina áður og segir það alls ekki algengt að ferðamenn vaði í fossinn. 

„Við höfum aldrei fengið neitt slíkt á okkar borð en fólk er alltaf að fara út fyrir merkingar og girðingar og við grípum fólk við það margoft á dag en aldrei eitthvað líkt þessu. Þetta er svolítið ýkt og er náttúrulega bara stórhættulegt,“ segir Aníta. 

Lítið sé hægt að gera til að sporna gegn því að fólk brjóti reglur við ferðamannastaði, annað en að setja upp skilti sem vari fólk við. Landverðir hafi ekki leyfi til að sekta fyrir brot á reglum. „Ég held að við séum búin að gera það sem við getum í merkingum og öðru og það eru bara alltaf einhverjir sem brjóta af sér.“

solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi