Athugið þessi frétt er meira en 9 ára gömul.

Stórhættulegt hnúajárn meðal vopna Outlaws

06.06.2013 - 17:57
Mynd með færslu
 Mynd:
Glæpagengi á Íslandi hafa vígbúist í auknum mæli síðustu tvö ár að mati lögreglu. Veiðirifflar, kindabyssur og hnúajárn, alsett hnífum, er meðal vopna sem lögregla lagði nýverið hald á í húsleitum hjá mönnum tengdum Outlaws.

Þróunin kemur lögreglu ekki á óvart, en hún varaði við henni þegar gengjanna varð fyrst vart hér á landi. Á blaðamannafundi í dag sýndi lögregla vopn sem fundust við húsleit  hjá mönnum sem tengjast Outlaws. Meðal vopna eru rifflar, haglabyssur, kindabyssur og hnúajárn, alsett hnífum. 

Fjórir menn sem tengjast Outlaws sitja í gæsluvarðhaldi til mánudags vegna árásar og innbrots í Grafarvogi nýlega þar sem þeir komust yfir flest skotvopnin. Fjórmenningarnir kefluðu húsráðanda og rændu skotvopnum sem geymd voru á heimilinu í samræmi við lög og reglur. Lögregla segir komu alþjóðlegra gengja til Íslands hafa hleypt meiri hörku í undirheimana.

Karl Steinar segir hrakspár lögreglu því miður hafa ræst. „Því miður er þetta enn ein vísbendingin um það sem við vöruðum við með mjög alvarlegum hætti í ársbyrjun 2011 að myndi mjög líklega fylgja vélhjólagengjunum. Í dag sjáum við að þetta hefur breytt undirheimunum töluvert og gert þá alvarlegri,“ segir hann.

„Okkur finnst þetta hafa breyst í þá veru. Það er algengara að við séum að finna einmitt skotvopn og sérstök barefli með ýmsum hætti. Það virðist vera þessi tilhneiging að safna að sér vopnum,“ segir Karl Steinar.