Stórbruni í Stafangri - bílastæðahús að hrynja

07.01.2020 - 15:36
Erlent · Eldsvoði · Noregur · Evrópa
Mynd með færslu
 Mynd: NRK - Skjáskot
Flugumferð hefur verið stöðvuð um Solaflugvöll í Stafangri í Noregi vegna eldsvoða í bílastæðahúsi við völlinn. Einnig hefur Scandic hótel í nágrenninu verið rýmt. Að minnsta kosti tíu bílar standa í björtu báli að sögn fréttastofu norska ríkisútvarpsins.

Fjöldi slökkviliðsmanna hefur verið ræstur út til að berjast við eldinn. Haft er eftir slökkviliðsstjóranum í Stafangri að hann óttist að bílastæðahúsið sé að hrynja. Því hefur allur mannskapurinn verið kallaður út úr húsinu.

Svo virðist sem kviknað hafi í rafmagnsbíl í húsinu og eldurinn síðan breiðst yfir í fleiri bíla og loks í veggi og loft í húsinu sjálfu. Vindátt er óhagstæð og því leggur þykkan og dökkan reyk yfir flugvöllinn og hótelið. Hugsanlega þarf að rýma fleiri hús vegna reyksins. Erna Solberg forsætisráðherra ætlaði að fljúga frá Solaflugvelli til Óslóar síðdegis. Þess í stað fer hún með bíl til höfuðstaðarins.

Fréttin hefur verið uppfærð

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi