Starfsemi Bandaríkjahers hér á landi byggist á tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951, seinni tíma viðaukum og samkomulagi. Sú yfirlýsing nær utan um reglubundna viðveru Bandaríkjahers hér á landi. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Spegilsins segir að unnið sé að útfærslum á henni, svo sem hvað varðar aðstöðu og endurbætur á mannvirkjum á öryggissvæði Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli, til dæmis á flugskýli þess en það þarf að rúma nýjustu gerð kafbátaleitarflugvéla, Poseidon 8 vélar. Þá gæti þurft að sinna viðhaldi á annarri aðstöðu á svæðinu. Á síðasta ári var undirrituð sameiginleg yfirlýsing þar sem samstarfið var skilgreint nánar og mið tekið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í öryggisumhverfinu á síðustu árum. Í henni er meðal annars formfest aukin viðvera Bandaríkja hers hér á landi, einkum í tengslum við loftrýmisgæslu og kafbátaeftirlit, þá heita ríkin því að samskipti þeirra á sviði varnarmála verði áfram öflug og segjast stefna að því að viðhalda traustu fyrirkomulagi þar sem upplýsingar berast tímanlega og með skilvirkum hætti þegar neyðarástand ríkir.
Segir mikinn mun á 122 daga viðveru og herstöð
Samkvæmt utanríkisráðuneytinu eiga sér ekki stað viðræður um annað fyrirkomulag, svo sem að herstöðin verði opnuð á ný og bandarískir hermenn hafi hér fasta viðveru allt árið.
„Það mun ekkert breytast að við erum herlaus þjóð.“
Reglubundin viðvera Bandaríkjahers er metin nægjanleg, og þjóna varnarhagsmunum Íslands, Bandaríkjanna og NATÓ. Viðvera Bandaríkjahers gæti þó aukist enn frekar, öryggishorfur í Evrópu og á Norður-Atlantshafi ráða þar miklu um. En hvar liggja mörkin á milli þess að hér séu hermenn með viðveru að jafnaði þriðja hvern dag og þess að hér sé herstöð, eru þau skýr?
„Það er mjög mikill munur þar á, eins og menn sjá þegar menn fara um svæðið. Sú viðvera sem hér er nú út af þessari gæslu er ekki í neinu samræmi við það ef við værum hér með herstöð á Miðnesheiði eins og við vorum með hér áður,“ segir Guðlaugur.
En finnst honum viðveran vera of mikil eða ekki nógu mikil?
„Ég treysti fullkomlega okkar samstarfsríkjum og þeim sem þar stýra málum til þess að meta hvað er hóflegt í því. Það er auðvitað ekkert markmið að hafa þetta of mikið. Þetta snýr bara að því að fylgjast með þessum málum eins og Atlantshafsbandalagið gerir, ekki bara hér í Norður-Atlantshafinu heldur á öllu sínu svæði.“
Samstarf sé lykilatriði þegar kemur að því að verjast hinum ýmsu ógnum.
Málaflokkurinn verður fyrirferðarmeiri
Varnarmálin hafa verið að verða fyrirferðarmeiri hér undanfarin ár, í fyrrahaust var sett á fót þjóðaröryggisráð sem í sitja forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra, ráðuneytisstjórar í ráðuneytum þeirra, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar, fulltrúi Landsbjargar og tveir þingmenn. Ráðið var skipað á grundvelli þjóðaröryggisstefnu, sem samþykkt var vorið 2016, sú fyrsta í lýðveldissögunni. Þar er talað um aðildina að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamning Íslands við Bandaríkin sem lykilstoð í vörnum Íslands. Fram kemur að áfram verði unnið að því að þróa samstarfið við Bandaríkin og að stefnt sé að því að þróa frekar samvinnu við nágrannaríki. Stefnan kveður á um að tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki, búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þar er fjallað um margt fleira, svo sem að almannavarna og öryggismálastefna skuli heyra undir þjóðaröryggisstefnu, og að tekið verði á ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, farsóttum, matvælaöryggi, netöryggi, hryðjuverkum og ógnum við fjármálaöryggi. Þá segir að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum.
Ítarlega verður fjallað um aukin umsvif Bandaríkjahers við Ísland í fréttaskýringaþættinum Kveik, annað kvöld.