Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stóraukin viðvera hermanna við Ísland

Mynd: Heather Deviney / Heather Deviney
Umsvif kafbátaleitarsveita aðildarríkja Atlantshafsbandalagsins, einkum Bandaríkjahers, við Ísland hafa stóraukist síðastliðin fjögur ár. Það sem af er þessu ári hafa bandarískir hermenn, sem sinna kafbátaleit, dvalið á öryggissvæðinu á Keflavíkurflugvelli í samtals 122 daga, allt að 300 saman í senn. Stjórnvöld segja þó engin áform um að koma hér upp herstöð á nýjan leik. 

Árið 2014 breyttist allt, Rússar hertóku og innlimuðu Krímskaga í Rússland, hliðstæður atburður hefur ekki átt sér stað í Evrópu frá lokum síðari heimstyrjaldar. Spennan milli Rússa og Vesturlanda náði nýjum hæðum og síðan þá hafa ríki Atlantshafsbandalagsins, þar með talið Ísland, verið að auka framlög til öryggis- og varnarmála og styrkja varnarviðbúnað í Evrópu. Rússar hafa að sama skapi aukið fjárframlög til hersins. Þeir hafa verið að endurnýja sinn herafla og lagt sérstaka áherslu á kafbáta með langdrægar eldflaugar. 

Kafbátarnir sigla norður Kólaflóa og út á Barentshaf en norðurfloti Rússa er með aðsetur í Severomorsk, nærri Múrmansk.

Aukin umferð í kringum Ísland

Umferð rússneskra kjarnorkukafbáta í grennd við Ísland hefur aukist og bátarnir eru öflugri en áður.

„Það er fullyrt af þeim sem þekkja til og hefur komið fram í opinberri umræðu að þetta eru jafnvel meiri umsvif en voru á dögum Kalda stríðsins.  Við erum  alls ekki á þeim stað eins og þá, við erum ekki að skilgreina Rússa sem óvinaþjóð, þetta er ekki í samræmi við það sem var á dögum Kalda stríðsins, en það breytir því ekki að þessi aukna umferð kallar á eftirlit og þess vegna hafa aðildarþjóðir Atlantshafsbandalagsins og Atlandshafsbandalagið lagt aukna áherslu á þetta svæði,“

segir Guðlaugur Þór Þórðarson, starfandi utanríkisráðherra. Kafbátanna hefur orðið vart undan ströndum Skotlands og Skandinavíuríkja og aðgengi þeirra að samskiptaæðum heimsins, djúpsjávarköplum sem nær öll alþjóðleg internetumferð fer um, vekur ugg. Guðlaugur segist  ekki vita hvort rússneskir kafbátar hafi komið nálægt Íslandsströndum eða inn á firði. Stjórnvöld eru þó upplýst um aðgerðir að einhverju leyti enda Ísland aðildarríki NATÓ. Þá fara fram reglulegar viðræður milli hátt settra fulltrúa varnarmálaráðuneytis Bandaríkjanna og utanríkisráðuneytis Íslands.

Rykið dustað af GIUK-hliðinu

Mynd með færslu
 Mynd: Forgotten waters

Vesturveldin telja brýnt að styrkja varnir og efla eftirlit með umsvifum Rússa í Norður-Atlantshafi, þau horfa sérstaklega til GIUK-hliðsins svokallaða, hafsvæðisins á milli Grænlands, Íslands, Færeyja og Bretlands. Um það þurfa kafbátar Rússa að fara vilji þeir fara sunnar í Atlantshafið. GIUK-hliðið var þekkt hernaðarhugtak á tímum Kalda stríðsins en hefur rykfallið nokkuð síðastliðin ár. Fyrir nokkrum árum var kafbátaumferðin um svæðið nær engin. Bandaríkjamenn hafa nú áttað sig á að þekking þeirra á svæðinu í kringum GIUK-hliðið hefur minnkað. Í raun virðist sem aðildarríki NATÓ hafi sofnað aðeins á verðinum, vaknað svo upp við vondan draum, aukin umsvif háþróaðra rússneskra kafbáta í grennd við GIUK-hliðið og þá staðreynd að innviði og þekkingu skortir af þeirra hálfu, þau fóru því að sinna vöktun þessa svæðis betur og þess sér stað hér á landi. 

Starfsemin hér er að sögn utanríkisráðuneytisins einkum tvenns konar, loftrýmiseftirlit, sem hefur farið fram frá árinu 2008 og kafbátaeftirlit sem færst hefur verulega í aukana frá 2014. Viðvera starfsmanna bandaríkjahers vegna loftrýmiseftirlits hefur lítið breyst síðastliðin ár. Þeir koma þrisvar á ári og dvelja um mánuð í senn. Liðsaflinn telur frá 70 upp í 250 manns, þeir dvelja á öryggissvæði Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli, í raðhúsum sem áður tilheyrðu herstöðvarsamfélaginu. Það eru þarna um 200 íbúðir.

Mynd með færslu
 Mynd: Heather Deviney
Hér gista hermennirnir.

Viðvera kafbátaleitarsveita, sem einnig dvelja á öryggissvæðinu, er ófyrirsjáanlegri, ræðst af fyrirliggjandi verkefnum á hverjum tíma, á þessu ári hafa kafbátaleitarsveitir dvalið hér í 122 daga, það samsvarar því að það sé einhver að leita að kafbátum við landið þriðja hvern dag. Viðveran hefur aukist jafnt og þétt síðastliðin fjögur ár. Þannig voru sveitir hér við kafbátaleit í 21 dag árið 2014, árið 2015 voru dagarnir 51, árið 2016 77 og í ár, 122 sem fyrr segir, eða tæplega sexfalt fleiri en árið 2014. Fjöldi þeirra sem kemur hingað til að sinna eftirliti með kafbátum er mjög breytilegur, frá 10 manns upp í 300. Það kemur fyrir að of þröngt verði á þingi á öryggissvæðinu, þá þurfa einhverjir að gista á hótelum í Keflavík. 

 

Þjónustan sem Ísland er skuldbundið til að veita hermönnum á vegum aðildarríkja NATÓ sem hér sinna eftirliti kallast gistiríkisstuðningur. Hún felst til dæmis í því að útvega gistingu og þjónusta flugvélar og þyrlur. Minna þarf að þjónusta kafbátaleitarmenn en þá sem sinna loftrýmiseftirlitinu. 

Tvíhliða varnarsamningur með viðaukum

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Eggert Þór Jónsson - RÚV

Starfsemi Bandaríkjahers hér á landi byggist á tvíhliða varnarsamningi Íslands og Bandaríkjanna frá árinu 1951, seinni tíma viðaukum og samkomulagi. Sú yfirlýsing nær utan um reglubundna viðveru Bandaríkjahers hér á landi. Í svari utanríkisráðuneytisins við fyrirspurn Spegilsins segir að unnið sé að útfærslum á henni, svo sem hvað varðar aðstöðu og endurbætur á mannvirkjum á öryggissvæði Atlantshafsbandalagsins á Keflavíkurflugvelli, til dæmis á flugskýli þess en það þarf að rúma nýjustu gerð kafbátaleitarflugvéla, Poseidon 8 vélar. Þá gæti þurft að sinna viðhaldi á annarri aðstöðu á svæðinu. Á síðasta ári var undirrituð sameiginleg yfirlýsing þar sem samstarfið var skilgreint nánar og mið tekið af þeirri þróun sem átt hefur sér stað í öryggisumhverfinu á síðustu árum. Í henni er meðal annars formfest aukin viðvera Bandaríkja hers hér á landi, einkum í tengslum við loftrýmisgæslu og kafbátaeftirlit, þá heita ríkin því að samskipti þeirra á sviði varnarmála verði áfram öflug og segjast stefna að því að viðhalda traustu fyrirkomulagi þar sem upplýsingar berast tímanlega og með skilvirkum hætti þegar neyðarástand ríkir.

Segir mikinn mun á 122 daga viðveru og herstöð

Samkvæmt utanríkisráðuneytinu eiga sér ekki stað viðræður um annað fyrirkomulag, svo sem að herstöðin verði opnuð á ný og bandarískir hermenn hafi hér fasta viðveru allt árið.

„Það mun ekkert breytast að við erum herlaus þjóð.“

Reglubundin viðvera Bandaríkjahers er metin nægjanleg, og þjóna varnarhagsmunum Íslands, Bandaríkjanna og NATÓ. Viðvera Bandaríkjahers gæti þó aukist enn frekar, öryggishorfur í Evrópu og á Norður-Atlantshafi ráða þar miklu um. En hvar liggja mörkin á milli þess að hér séu hermenn með viðveru að jafnaði þriðja hvern dag og þess að hér sé herstöð, eru þau skýr? 

„Það er mjög mikill munur þar á, eins og menn sjá þegar menn fara um svæðið. Sú viðvera sem hér er nú út af þessari gæslu er ekki í neinu samræmi við það ef við værum hér með herstöð á Miðnesheiði eins og við vorum með hér áður,“ segir Guðlaugur. 

En finnst honum viðveran vera of mikil eða ekki nógu mikil? 

„Ég treysti fullkomlega okkar samstarfsríkjum og þeim sem þar stýra málum til þess að meta hvað er hóflegt í því. Það er auðvitað ekkert markmið að hafa þetta of mikið. Þetta snýr bara að því að fylgjast með þessum málum eins og Atlantshafsbandalagið gerir, ekki bara hér í Norður-Atlantshafinu heldur á öllu sínu svæði.“

Samstarf sé lykilatriði þegar kemur að því að verjast hinum ýmsu ógnum. 

Málaflokkurinn verður fyrirferðarmeiri

Varnarmálin hafa verið að verða fyrirferðarmeiri hér undanfarin ár, í fyrrahaust var sett á fót þjóðaröryggisráð sem í sitja forsætisráðherra, utanríkisráðherra og dómsmálaráðherra, ráðuneytisstjórar í ráðuneytum þeirra, ríkislögreglustjóri, forstjóri Landhelgisgæslunnar, fulltrúi Landsbjargar og tveir þingmenn. Ráðið var skipað á grundvelli  þjóðaröryggisstefnu, sem samþykkt var vorið 2016, sú fyrsta í lýðveldissögunni. Þar er talað um aðildina að Atlantshafsbandalaginu og tvíhliða varnarsamning Íslands við Bandaríkin sem lykilstoð í vörnum Íslands. Fram kemur að áfram verði unnið að því að þróa samstarfið við Bandaríkin og að stefnt sé að því að þróa frekar samvinnu við nágrannaríki. Stefnan kveður á um að tryggt verði að í landinu séu til staðar varnarmannvirki,  búnaður, geta og sérfræðiþekking til að mæta þeim áskorunum sem Ísland stendur frammi fyrir í öryggis og varnarmálum og til að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar Íslands. Þar er fjallað um margt fleira, svo sem að almannavarna og öryggismálastefna skuli heyra undir þjóðaröryggisstefnu, og að tekið verði á ógnum sem tengjast loftslagsbreytingum, farsóttum, matvælaöryggi, netöryggi, hryðjuverkum og ógnum við fjármálaöryggi. Þá segir að Ísland og íslensk landhelgi sé friðlýst fyrir kjarnavopnum. 

Ítarlega verður fjallað um aukin umsvif Bandaríkjahers við Ísland í fréttaskýringaþættinum Kveik, annað kvöld.