Sunna Ástþórsdóttir skrifar:
Þegar ég geng inn í rýmið smýgur rafmagnað andrúmsloft inn í allar frumur líkamans. Hér er þrúgandi þögn, ég finn skrýtna sápulykt og skynja að eitthvað er að fara að gerast, en ég er ekki alveg viss hvað. Það er svo sem ekki mikið að sjá hér á þessum stað, sem minnir helst á anddyri hótels eða fundarherbergi. Hér er þögn og að mestu leyti hreint. Það er reyndar hringlaga blettur, líklega eftir kaffibolla, á yfirborði skápsins meðfram veggnum. Þar hefur líka einhver gleymt lyklunum sínum.
Allt í einu byrjar eitthvað að rísa upp úr skápnum, mér sýnist þetta vera flatskjár. Svartur flöturinn birtist smám saman, hækkar og hækkar, þangað til… nei, ég verð eiginlega að stoppa hér.
Í rauninni veit ég ekki alveg hvað ég get eða vil gefa upp um myndlistarsýninguna sem ég ætla að fjalla um, og er reyndar þegar byrjuð að lýsa. Þetta er sýning sem er sveipuð dulúð og blekkingu, fyllir gesti eftirvæntingu, spennu og jafnvel kvíða og býður upp á óvænta atburðarás. Hversu mikið get ég eiginlega sagt, án þess að segja of mikið? Er ég kannski þegar búin að því?
Sýningin ber hinn ljóðræna titil Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, eða Vanishing Crowd á ensku og er eftir myndlistarmanninn Unu Björgu Magnúsdóttur en Aldís Snorradóttir er sýningarstjóri. Sýningin opnaði í D-sal í Hafnarhúsinu, í Listasafni Reykjavíkur 16. janúar og stendur fram í miðjan mars.
Í aðfaraorðum sýningarinnar kemur fram að Una Björg fær titillinn að láni frá einni þekktustu sjónhverfingu hins heimsþekkta töframanns David Copperfield, þar sem hann lét hóp fólks hverfa og birtast á ný á allt öðrum stað. Þetta er töfrabragð sem var fastur liður í sýningum hans í Las Vegas um langt skeið og þótti svo raunverulegt, að fólk kepptist við að giska á hvernig hann fór eiginlega að þessu. Leyndarmálið var vel geymt, þangað til Copperfield neyddist til að gefa það upp í frægum réttarhöldum, sem ég ætla nú ekki að fara nánar út í hér. Niðurstaðan varð hins vegar sú að þessi ákveðna sjónhverfing á ekki lengur upp á borð í töfrasýningum hans – Hulunni hefur verið svipt af gjörningnum, og áhorfendur geta ekki lengur freistast til þess að trúa á sjónarspilið.
Kannski er það þess vegna sem ég hika örlítið við að segja of mikið um sýningu Unu Bjargar, þótt ég endi nú líklega á að gera það samt. Sannarlega er enginn látinn hverfa í sýningarrýminu, að minnsta kosti ekki bókstaflega, en þó, beitir Una Björg ýmsum brögðum. Hún nýtir sér meðal annars lykt, áferð, endurtekningu og gildishlaðin efni á slunginn en sparlegan hátt, til þess að skapa plastaðan og sviðsettan heim.
Og við sýningargestir göngum beinustu leið inn í hann.