Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stóra augnablikið

Mynd: Listasafn Reykjavíkur / Listasafn Reykjavíkur

Stóra augnablikið

24.02.2020 - 14:44

Höfundar

„Þegar hlutirnir eru settir fram á ákveðinn hátt, í fastar stellingar og samhengi öðlast þeir aukið vægi. Við byrjum að bera hærri væntingar til þeirra og þar með skapast meiri hætta á að við verðum fyrir vonbrigðum,“ segir Sunna Ástþórsdóttir myndlistarrýnir Víðsjár. Hún segir sýningu Unu Bjargar Magnúsdóttur í Listasafni Reykjavíkur, Mannfjöldi hverfur sporlaust, fanga þessa spennu og leika sér með hugmyndir um virði, fegurð og glópagull.

Sunna Ástþórsdóttir skrifar:

Þegar ég geng inn í rýmið smýgur rafmagnað andrúmsloft inn í allar frumur líkamans. Hér er þrúgandi þögn, ég finn skrýtna sápulykt og skynja að eitthvað er að fara að gerast, en ég er ekki alveg viss hvað. Það er svo sem ekki mikið að sjá hér á þessum stað, sem minnir helst á anddyri hótels eða fundarherbergi. Hér er þögn og að mestu leyti hreint. Það er reyndar hringlaga blettur, líklega eftir kaffibolla, á yfirborði skápsins meðfram veggnum. Þar hefur líka einhver gleymt lyklunum sínum.

Allt í einu byrjar eitthvað að rísa upp úr skápnum, mér sýnist þetta vera flatskjár. Svartur flöturinn birtist smám saman, hækkar og hækkar, þangað til… nei, ég verð eiginlega að stoppa hér.

Í rauninni veit ég ekki alveg hvað ég get eða vil gefa upp um myndlistarsýninguna sem ég ætla að fjalla um, og er reyndar þegar byrjuð að lýsa. Þetta er sýning sem er sveipuð dulúð og blekkingu, fyllir gesti eftirvæntingu, spennu og jafnvel kvíða og býður upp á óvænta atburðarás. Hversu mikið get ég eiginlega sagt, án þess að segja of mikið? Er ég kannski þegar búin að því?

Sýningin ber hinn ljóðræna titil Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund, eða Vanishing Crowd á ensku og er eftir myndlistarmanninn Unu Björgu Magnúsdóttur en Aldís Snorradóttir er sýningarstjóri. Sýningin opnaði í D-sal í Hafnarhúsinu, í Listasafni Reykjavíkur 16. janúar og stendur fram í miðjan mars.

Í aðfaraorðum sýningarinnar kemur fram að Una Björg fær titillinn að láni frá einni þekktustu sjónhverfingu hins heimsþekkta töframanns David Copperfield, þar sem hann lét hóp fólks hverfa og birtast á ný á allt öðrum stað. Þetta er töfrabragð sem var fastur liður í sýningum hans í Las Vegas um langt skeið og þótti svo raunverulegt, að fólk kepptist við að giska á hvernig hann fór eiginlega að þessu. Leyndarmálið var vel geymt, þangað til Copperfield neyddist til að gefa það upp í frægum réttarhöldum, sem ég ætla nú ekki að fara nánar út í hér. Niðurstaðan varð hins vegar sú að þessi ákveðna sjónhverfing á ekki lengur upp á borð í töfrasýningum hans – Hulunni hefur verið svipt af gjörningnum, og áhorfendur geta ekki lengur freistast til þess að trúa á sjónarspilið.

Kannski er það þess vegna sem ég hika örlítið við að segja of mikið um sýningu Unu Bjargar, þótt ég endi nú líklega á að gera það samt. Sannarlega er enginn látinn hverfa í sýningarrýminu, að minnsta kosti ekki bókstaflega, en þó, beitir Una Björg ýmsum brögðum. Hún nýtir sér meðal annars lykt, áferð, endurtekningu og gildishlaðin efni á slunginn en sparlegan hátt, til þess að skapa plastaðan og sviðsettan heim.

Og við sýningargestir göngum beinustu leið inn í hann.

Mynd með færslu
 Mynd: Listasafn Reykjavíkur

Við fyrstu sýn tekur á móti okkur nánast tómt rými, innréttað á látlausan og jafnvel tilkomulítinn hátt. Það tekur okkur þó ekki meira en nokkrar sekúndur að átta okkur á því að allt sem er þarna inni er ekkert annað en tilbúningur. Myndin sem hangir uppi á vegg í gylltum ramma, ljós viðarskápurinn sem er svo langur að það virðist sem hann ætli í gegnum vegginn, lyklarnir og kaffibletturinn á borði skápsins. Hvítu rimlagardínurnar sem hanga á hógværan hátt í gluggunum. Þessir hlutir, og uppröðun þeirra, gefa ýmislegt í skyn, en við snertingu reynist tréverkið sleipt og plastkennt og lyklarnir eru víst bara tvívíð eftirlíking, flöt og ódýr, prentuð beint á viðar-munstraða límfilmuna sem hefur verið klesst á yfirborð skápsins. Samt höldum við áfram, lengra inn í herbergið og tökum spennt á móti framhaldinu. Við áttum okkur vel á sjónhverfingunni, og gefum okkur henni á vald.

Það er gaman, og ónotalegt í senn, að ímynda sér að þessi framreiddi gerviheimur sé hluti af raunveruleikanum.

Mér finnst alltaf spennandi, og mikilvægt, að heimsækja sýningar í D-sal Hafnarhússins. Þar fá aðeins að sýna listamenn sem aldrei hafa haldið einkasýningu í opinberu safni áður, og þar af leiðandi eru það oft ungir eða nýlega útskrifaðir listamenn sem sýna í þessum sal. Þótt að Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund sé fyrsta einkasýning Unu Bjargar í safni, hefur hún verið virkur þátttakandi í íslenskri listasenu síðustu ár, tekið þátt í ýmsum sýningum, hér heima og erlendis, og stjórnað og átt frumkvæði að tilraunakenndum myndlistarverkefnum. Þegar ég var að undirbúa þennan pistil, rakst ég á gamalt viðtal við Unu Björg, þar sem hún spjallar við Ríkisútvarpið um sýningu sem þá var í gangi í listamannarekna sýningarrýminu Kling & Bang. Í viðtalinu sagði hún hlustendum sögu sem henni var minnisstæð þá og ég giska á að hafi einnig haft áhrif við gerð sýningarinnar í Hafnarhúsinu. Sagan fjallaði um prakkarasnáðann Denna dæmalausa, og skapvonda nágranna hans, herra Wilson, sem hafði eytt miklum tíma og orku síðustu áratugi í að hugsa um eitt ansi sérstakt blóm í garðinum sínum. Það blómstraði aðeins á fjörutíu ára fresti, og þá í örskamma stund. Skiljanlega beið herra Wilson í eftirvæntingu eftir að sjá afrakstur þessarar áralöngu og vandasömu vinnu og þó það fylgi ekki sögunni hvað í rauninni kom upp á, tókst Denna með ærslafullum, en vel ætluðum uppátækjum að gera stóra augnablik Wilsons að engu – á endanum missti greyið alveg af því að sjá plöntuna í fullum blóma.

Þegar hlutirnir eru settir fram á ákveðinn hátt, í fastar stellingar og samhengi öðlast þeir aukið vægi. Við byrjum að bera hærri væntingar til þeirra og þar með skapast meiri hætta á að við verðum fyrir vonbrigðum. Sýning Unu Bjargar fangar þessa spennu og leikur sér með hugmyndir okkar um virði, fegurð og glópagull. Innsetningin tifar á hárfínan máta fram og til baka, á mörkum eftirvæntingar og vonbrigða, fölsunar og sannleika. Á milli glæsts veruleika og grárrar slikju meðalmennskunnar. Mannfjöldi hverfur sporlaust um stund er staður í biðstöðu, hvorki fundaraðstaða né móttökusalur, raunveruleiki né töfrar.

Þar sem spenna og eftirvænting eru bráðsmitandi tilfinningar, virkar sýningin best í mannmergð. Eftir að hafa staðið inni í rýminu í dálitla stund, byrjar dularfullt andrúmsloftið að stigmagnast á ný. Gesti fer að gruna að það hljóti að vera eitthvað meira á seyði og upp úr skápnum rís á tignarlegan hátt heljarinnar, en þó ekkert sérstaklega stór, flatskjár. Gestir gleyma stund og stað og á meðan á þessu ferli stendur segir vanalega enginn neitt. Það virðist skipta miklu máli að fá með sér það sem gerist næst – hvort sem það tekur fjórar mínútur eða fjörutíu ár. En það sem á skjánum birtist, ætla ég að leyfa hlustendum sjálfum að sjá með eigin augum, halda blekkingarleiknum áfram um stund og eiga við sjálfa sig hvort stóra augnablikið standist væntingar.