Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Stór silungur og urriðinn fullur af hornsíli“

09.03.2020 - 14:03
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Ágúst Ólafsson
Veiði í gegnum ís á Mývatni hefur farið hægt af stað. Aðstæður þar eru erfiðar, mjög þykkur ís og snjóþungt. Stór silungur, fullur af hornsíli, er uppistaðan í veiðinni sem bendir til þess að smásilungur í vatninu eigi erfitt uppdráttar.

Vetarveiðin í Mývatni hefst jafnan 1. mars þegar landeigendur leggja net í gegnum göt á ísnum. Veiðin hefur gengið misvel, að sögn Helga Héðinssonar, bónda á Geiteyjarströnd og aðstæðurnar erfiðar.

Þykkur ís og snjóþungt á vatninu

„Veturinn hefur verið harður og ísinn þar af leiðandi þykkur og aðstæðurnar býsna þungar til þess að bera sig um á honum,“ segir hann. „Þetta fer þokkalega af stað. Þetta er ekki alveg jafn sprækt og síðustu 2-3 ár, en þó alveg þokkalegt.“

Mikið af hornsíli, strekur urriði og stór bleikja

Og það sem einkenni veiðina núna sé mjög stór silungur og urriði fullur af hornsíli. „Þannig að það er ýmsilegt sem bendir til að við séum að færast á stað í þessarri líftímakúrfu sem einkennist af miklum hornsílum, sterkum urriðastofni og stórri bleikju.“

Smásilungurinn ekki að skila sér

Og í ljósi þess hve mikið hefur verið af hrygningasilungi síðustu ár geti þetta bent til þess að afkoma seiða og silungs á fyrstu árum sé ekki góð. Smásilungurinn sé því ekki að skila sér. „Og hvað veldur er milljón dollara spurning. Það hefur enginn beinlínis svarið við því. En það er hörku samkeppni um fæðuna í vatninu,“ segir Helgi.

Áfram veitt næsta sumar

Sumarveiði í Mývatni var leyfð í fyrra í fyrsta sinn í mörg ár, eftir stífa friðun. „Við samþykktum í fyrra nýtingaráætlun til tveggja ára og mér finnst ekki neitt sem gefur tilefni til að breyta út af því. Sem þýðir að við munum veiða í sumar, reyndar í mjög litlu magni. En samt nóg til að menn fái í matinn.“