Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stór farþegaskip í þokunni: Óljóst hvað má hér

Mynd: Wikimedia commons / Wikimedia commons
Það hefur orðið sprenging í komum svokallaðra leiðangursskipa, þau eru minni en hefðbundin skemmtiferðaskip, gera út á það að kanna framandi slóðir og fræða farþega um náttúru og menningu norðurslóða. Þessi skip hafa viðkomu víðar en stærstu skemmtiferðaskipin, geta siglt inn á þrönga firði og hleypt farþegum í land á afskekktum svæðum. Það er engin tilkynningarskylda, ekkert eftirlit með því hvar þau taka land og regluverkið óskýrt. Jökulfirðir eru vinsælir, Vigur sömuleiðis. 

Aðskilja skipverja og göngugarpa

Skip hafa komið í Reykjafjörð síðastliðin þrjú ár, öll frá sama fyrirtæki. Steinunn Ragnarsdóttir rekur þar ferðaþjónustu. Hún segir að fleiri fyrirtæki hafi haft samband, eftir að það spurðist út að þau tækju á móti skipum en að þau hafi ekki viljað fara of hratt af stað. Skipin koma í apríl og maí. Steinunn vill ekki að skipatraffíkin blandist gönguhópatraffíkinni á sumrin, þeir sem komi í júlí til að ganga í kyrrðinni yrði líklega bylt við, sæu þeir stórt skemmtiferðaskip og tugi, upp í hundrað farþega að spígspora um. Þetta eru ekki mörg skip, í ár voru þau fimm og í þrjú skipti var veður nógu skaplegt til að hægt væri að senda farþega í land á sódíökum. Þeir ganga um, fá sér kaffi og sumir fá sér sundsprett í lauginni. Hún segir þetta innspýtingu fyrir ferðaþjónustuna í firðinum, þau rukki töluvert fyrir, og hún hefur ekki áhyggjur af neikvæðum umhverfisáhrifum, bendir á að það komi ekki allir farþegarnir í land í einu, skipin liggi við akkeri og svo séu hópar að koma allan daginn. 

Mynd með færslu
 Mynd:
Sumir skella sér í laugina í Reykjafirði.

Mikill áhugi á Íslandi

Frigg Jörgensen, fer fyrir hagsmunasamtökum fyrirtækja sem bjóða upp á leiðangurssiglingar um Norðurslóðir, AECO.  Það er vöxtur í leiðangurssiglingum, það er leitað að nýjum viðkomustöðum og Frigg segir mikinn áhuga á Íslandi, við getum laðað fleiri slík skip hingað og það séu tækifæri um allt land, bæði á óbyggðum svæðum og í minni þéttbýlisstöðum, til að byggja upp þjónustu í kringum leiðangursskip. 

Rannsókn AECO-samtakannna á efnahagslegum áhrifum ferðamanna sem komu í höfn á Svalbarða, sýndu að farþegar leiðangursskipa skildu að meðaltali fimm sinnum meira eftir sig en farþegar stóru skemmtiferðaskipanna. Þetta á við um Svalbarða, þar sem eru búðir, ferðaþjónustufyrirtæki, þjónusta. Ferðamennirnir skilja kannski ekki jafn mikið eftir sig á eyðifjörðum, sérstaklega ekki ef landeigendur rukka ekki fyrir komuna en Frigg segir að í þessu felist tækifæri til að byggja upp þjónustu á afskekktum stöðum. 

epa03160347 A picture made available on 26 March 2012 shows a general view with Plataafjellet and Hjortfjellet mountains in the background, Longyearbyen, Svalbard, 07 March 2012.  EPA/Roald, Berit NORWAY OUT
Longyearbyen á Svalbarða er að öllu jöfnu ekki þekktur fyrir hlýindi.  Mynd: EPA - SCANPIX NORWAY
Longyearbyen.
Mynd með færslu
 Mynd: Arnhildur Hálfdánardóttir
Frigg Jörgensen kom hingað á þing Hringborðs norðurslóða.

Skipaflotinn sem kemur breyttur

Skemmtiferðaskipunum sem hringsóla um landið fjölgar ár frá ári. Það hefur ekki farið fram hjá neinum en minna hefur verið fjallað um hvernig samsetning flotans sem sækir Ísland heim hefur breyst á allra síðustu árum. Þórný Barðadóttir, sérfræðingur hjá Rannsóknamiðstöð ferðamála á Akureyri, hefur skoðað þessa þróun. „Þessi leiðangursskip eru í raun ekki ný af nálinni en það er gríðarleg fjölgun, maður sér að þar liggur áhuginn. Það er gríðarleg sprenging í því á allra síðustu árum. Ef við skoðum tölur yfir fjölda skemmtiferðaskipa annars vegar og skipafarþega hins vegar, bara síðustu fimm ár, þá sjáum við að aukningin í skipakomum er í rauninni meiri en farþegatölurnar gefa til kynna sem þýðir að skipin minnka. Ísland er hluti af þessari arktísku viðkomuleið, þessum hringsiglingum skipa sem fara kannski til Grænlands, Svalbarða, Íslands, jafnvel Norður-Noreg og Færeyjar. Þetta er allt hluti af sama mengi og bara aukinni ferðamennsku.“

Mynd með færslu
 Mynd: Þórný Barðadóttir
Þórný tók þessa mynd af fjórum skemmtiferðaskipum á Pollinum við Akureyri.

Þrátt fyrir aukna umferð við Svalbarða og uppbyggingu á Franz-Jósefslandi- afskekktum, rússneskum eyjaklasa, telur Þórný engar líkur á því að skipin fari að sniðganga Ísland. Allt útlit sé fyrir að skipakomum hingað fjölgi áfram hratt næstu ár.

Sjá einnig: Kuldinn eitt það allra heitasta í dag

Hafnarkomur þrefaldast - hraðari vöxtur en gert ráð fyrir

Hér áður fyrr létu skipin nægja að koma við í stærstu höfnum, í Reykjavík, á Akureyri, á Ísafirði. Nú hafa skemmtiferðaskip viðkomu í tæplega tuttugu höfnum umhverfis landið og sums staðar senda þau farþega í land þó engar séu hafnirnar. Landhelgisgæslan heldur utan um hafnarkomur skipanna, það er öll þau skipti sem skemmtiferða- eða leiðangursskip leggjast að íslenskri bryggju. Árið 2011 gerðist það 258 sinnum. Í fyrra voru hafnarkomurnar orðnar rúmelga þrefalt fleiri - 824 sinnum lögðust skemmtiferðaskip að íslenskri bryggju. Hvert skip kemur víðar við og vöxturinn er að sögn upplýsingafulltrúa Landhelgisgæslunnar, hraðari en gert var ráð fyrir. 

Mynd með færslu
 Mynd: Þórný Barðadóttir
Tvö leiðangursskip við bryggju á Húsavík. Mynd: Þórný Barðadóttir.

Last chance 

Norðrið heillar, óspillt svæði. „Bara ef maður skoðar auglýsingar frá þessum fyrirtækjum, þá er gert svolítið út á þetta, last chance visit og svona hefur sterka tengingu við norðurslóðirnar,“ segir Þórný.  

Þetta er mikil náttúruupplifun, farþegar geta skoðað lítt snortin svæði og hátt í norðri, steina, fugla, flóru. Þar sem skipin sigla alveg að ísjaðrinum, geta þeir komist í návígi við hvítabirni og önnur villt dýr. Sums staðar hafa farþegarnir týnt rusl og samtök þeirra sem reka leiðangursskip á Norðurslóðum brýna fyrir farþegum að ganga vel um - en komur stórra skipa á afskekkt svæði hafa líka sætt gagnrýni. 

Ekki bara stærðarmunur

Leiðangursskipin eru alla jafna minni en skemmtiferðaskip, til Húsavíkur og Siglufjarðar koma leiðangursskip með frá 50 farþegum upp í 800, stærstu skemmtiferðaskipin taka nokkur þúsund farþega.

Þórný segir skemmtiferðaskipin skemmtigarð út af fyrir sig, mikið lagt upp úr afþreyingu. Leiðangursskipin geri út á út á að vera fræðsluskip, fyrirlesarar frá Akureyri fari til dæmis um borð í þessi skip til að fræða farþega um svæðið og náttúruna. Hún segir líka mun á áherslum farþega. , farþegar stóru skipanna leggi áherslu á að koma til ákveðinna staða, þá hafi til dæmis alltaf dreymt um að koma til Íslands. Farþegar leiðangursskipanna leggi aftur á móti mesta áherslu á ævintýrið sem felst í siglingunni sjálfri.

Leiðangursskip úti fyrir Hornströndum
 Mynd: ruv
Leiðangursskip við Ísland.

Auknar tekjur en líka flækjur

Pétur Ólafsson, stjórnarformaður hagsmunasamtaka þeirra sem þjónusta skemmtiferðaskip, Cruise Iceland, segir þróunina hafa orðið til þess að fleiri hafnarsjóðir og sveitarfélög fái tekjur af skipunum, þetta geti verið mikil innspýting fyrir minni sveitarfélög úti á landi. Færst hafi í aukana að skip dvelji lengi við Ísland og þá skipti máli að finna fleiri staði til að kanna. 

Leiðangursskipin opna á ný tækifæri í ferðaþjónustu. Það eru tekjur af þjónustu við skip og áhafnir þeirra, af því að sjá um kost, vatn og fleira en regluverkið var kannski ekki alveg tilbúið fyrir innreið þeirra. Þau sigla þar í gegnum göt. Skipin komast inn á þrönga firði, komast nær landi en stóru skemmtiferðaskipin og geta hleypt farþegum í land á litlum hraðbátum, svokölluðum sódíökum. Þeir geta þá skoðað svæði sem á landi eru jafnvel ekki aðgengileg öðrum en fótgangandi. Það er ekkert eftirlit með því hvar skipin fara í land og regluverkið hefur verið óljóst, viðmælendur Spegilsins tala um frumskóg. 

Hagsmunaaðilar áhyggjufullir

Þórný á Rannsóknarmiðstöð ferðamála tók viðtöl við þá sem þjónusta skemmtiferðaskip hérárið 2017. „Þá komu í ljós miklar áhyggjur af þessu á sama tíma og þeir sjá helstu möguleikana tengjast þessum komum, þetta eru viðráðanlegar stærðir fyrir ferðaþjónustuna á Íslandi en það kemur líka fram mikil óvissa í kringum hvað má. Sumt land er í einkaeigu og annað ekki, hvers er þá að setja reglurnar er í raun óljóst.“ 

Reglur um Hornstrandir og unnið að reglum um Látrabjarg

Mynd með færslu
 Mynd: Náttúrufræðistofnun Íslands - Facebook
Friðlandið á Hornströndum

Sums staðar eru reglur en víðast hvar ekki og þá veltur það hvað má á afstöðu landeigenda á hverjum stað. Sjónarmið um almannarétt og náttúruvernd takast líka á. Í ágúst í fyrra fóru um 200 farþegar af skemmtiferðaskipinu Le Boreal í land í friðlandinu á Hornströndum. Og í fullum rétti, enda ekkert bann við slíku á þeim tíma. Kristín Ósk Jónasdóttir, sérfræðingur hjá Umhverfisstofnun og landvörður, sagðist hafa áhyggjur af því að svona landtökur færðust í aukana yrði ekkert að gert - að það hefði neikvæð áhrif á náttúruna að fá þarna svona stóra hópa. Í febrúar tók gildi ný stjórnar- og verndaráætlun fyrir friðlandið. Þar var brugðist við komum skemmtiferða- og leiðangursskipa með því að banna landtöku báta með fleiri en fimmtíu um borð. Þá var óskað eftir því að Landhelgisgæslan uppfærði siglingakort þannig að skip héldu sig alltaf í meira en 115 metra fjarlægð frá sjófuglabyggðum, umhverfisstofnun mælist til þess að þau haldi sig í kílómetersfjarlægð. Þetta gildir um Hornstrandir og unnið er að því að setja reglur um siglingar við Látrabjarg.

Minnisblað og óvissa um kafbátaferðir

Í sumar gáfu Umhverfisstofnun, Samgöngustofa og Landhelgisgæslan svo út leiðbeiningabækling fyrir stjórnendur farþegaskipa. þar kemur meðal annars fram að landtaka sé óheimil á Surtsey, Eldey og Melrakkaey og háð leyfi landeiganda á Skrúði. Þá eru víða takmarkanir á landtöku á varptíma fugla. Brýnt er fyrir skipstjórnendum að fá samþykki hjá landeiganda ef fara á yfir ræktað land eða ef fara á með hóp ferðamanna um eignarlönd í byggð eða annars staðar þar sem þeir gætu valdið ónæði. Frá því tilmælin voru gefin út hefur umhverfisstofnun fengið margar fyrirspurnir frá rekstraraðilum skipanna um hvað megi og hvað ekki og það hefur verið fátt um svör nema hvað varðar Hornstrandir. Nýlega komu fyrirspurnir um hvort senda mætti út á smákafbátum og það var sama sagan. Þetta heyrir undir nokkur ráðuneyti, í júní sendi Umhverfisstofnun þeim bréf með viðbótartillögum og ósk um að farið yrði í stefnumótun og settar reglur þar sem þær vantar, ekki hefur borist svar. Þetta er nýr veruleiki. Lilja Ólafsdóttir, lögfræðingur hjá Umhverfisstofnun, segir einu reglurnar sem til eru í dag að finna í náttúruverndarlögum þar sem fjallað er um almannarétt. „Þar kemur fram að eigendur lands geta takmarkað för um ræktarland og takmarkað dvöl í afgirtu landi, að öðru leyti er ekkert mikið til af reglum.“ 

Geta lítið sagt rekstraraðilum

Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia commons
Ferðamenn á sódíökum.

Eftir að skipum var bannað að fara með farþega í land á Hornströndum hafa fyrirtækin spurt um önnur svæði, hvort það megi fara í land þar eða nálægt ströndum. Stofnunin hefur lítið getað sagt þeim annað en hvaða almennu reglur gilda um fuglavernd, vernd bjarg- og strandfugla, og bent á hvar náttúran er viðkvæm, það er ekki hægt að banna skipunum neitt.

„Það þarf að skoða það áður en aðrir ákveða það fyrir okkur hvar þessir bátar mega leggja að sérstaklega þegar þeir eru með svona mikið af farþegum í hvert skipti.“ 

Lilja segir að það ætti að vera hægt að banna landtökur út frá öryggissjónarmiðum, en vegna almannaréttarins sé óljóst hvort hægt sé að banna þær út frá umhverfissjónarmiðum. Að vísu geti Umhverfisstofnun samkvæmt 25. grein náttúruverndarlaga lokað svæðum í tvær vikur, telji stofnunin verulega hættu á tjóni af völdum ágangs, að höfðu samráði við eigendur og hagsmunaaðila. Það má framlengja lokunina ef nauðsyn krefur aðf enginni staðfestingu ráðherra. 

Smábátar utan radars

Það að fá hundrað manns í land á svæðum þar sem eru ekki innviðir getur að mati Umhverfisstofnunar haft neikvæð umhverfisáhrif en það getur líka verið öryggismál. Snemma í sumar var skemmtiferðaskip inni á Vopnafirði, það sendi fólk út á hraðbátum til að skoða fugla en svo skall á þoka, og til að móðurskipið sæi bátana kveiktu stýrimenn þeirra á sendum, hefðu þeir ekki gert það hefði Landhelgisgæslan ekki vitað að þarna væri fjöldi fólks siglandi á smábátum.

Tilkynningarskylda æskileg að mati LHG

Ásgrímur L. Ásgrímsson, framkvæmdastjóri aðgerðarsviðs Landhelgisgæslunnar segir að það væri æskilegt, öryggisins vegna, að skipin tilkynntu gæslunni um það, hygðust þau sigla inn á firði í þeim tilgangi að komast nálægt ströndinni eða senda farþega í land. Nú tilkynni þau ekki um ferðir sínar enda ekki skylt að gera það samkvæmt lögum. Þau þurfa einungis að tilkynna sig þegar þau koma fyrst til hafnar en þurfa einnig að tilkynna sig inn á aðrar hafnir og fá tollafgreiðslu. Ásgrímur segir það skjóta skökku við að skip þurfi að tilkynna sig áður en þau koma að höfn en geti svo sent báta og fólk í land utan hafna án þess að gera nokkrum viðvart. Landhelgisgæslan sér ferðir skipanna í ferilvöktunarkerfum en gæslan sér ekki athafnir þeirra, hvort þau senda fólk út á báta eða í land nema í þeim tilvikum þegar bátarnir sjálfir eru með senda og detta inn á vöktunarkerfið. Hann segir áhafnir skipanna vant því að ferja fólk í land, þetta sé gert á Grænlandi, Svalbarða og víðar, bátarnir séu góðir og öryggisreglur virtar en áhafnirnar gjörþekki ekki íslenskar aðstæður og því ákjósanlegt að gæslan fái veður af athöfnum þeirra og geti frekar brugðist við, komi eitthvað upp á.

Þjónustufyrirtækið veit hvar er farið í land

Skipamiðlunin Gára þjónustar farþegaskipin í öllum höfnum, þetta er dótturfyrirtæki Eimskips og TVG-Zimsen. Íris Jóhannsdóttir, verkefnastjóri hjá Gáru, segir mikla eftirspurn frá rekstraraðilum skipanna, þau vilji komast eitthvert þar sem ekki eru önnur skip fyrir, og séu tilbúin að borga vel. Hún segist hafa fulla yfirsýn yfir hvar þau fari í land á sódíökum, eftir að bannið var sett á Hornströndum njóti Flatey í Breiðafirði, Vigur, Reykjafjörður, Bakkagerði í Hólmavík, Arnarstapi, Hrísey og Grímsey mestra vinsælda. Landhelgisgæslan sem fylgist með ferðum skemmtiferðaskipa hér við land, nefnir einnig Jökulfirði. 

Íris segir reglurnar hafa verið óljósar í upphafi en nú sé unnið að því með AECO, Umhverfisstofnun og fleiri stofnunum að skerpa á leikreglum hér. Farþegar fari hvergi í land nema með leyfi landeigenda og að alltaf taki einhver á móti þeim í landi. Gára hafi fylgt reglunum eftir, skipin leggi sig fram við að fara að þeim allar uppákomur hafi reynst á misskilningi byggðar. 

Styðja svartolíubann og vilja ganga vel um

Frigg Jörgensen segir að AECO-samtökin hafi stýrt ferðum leiðangursskipa um norðurslóðir um margra ára skeið, þau hafi gefið út leiðbeiningar um umgengni á norðurslóðum og vilji tryggja að reksturinn sé í sátt við náttúruna, dýralíf og íbúa á hverjum stað. Samtökin styðji svartolíubann á Norðurslóðum og Frigg segir skipin sem heyra undir samtökin ekki nota svartolíu. Hún segir rekstraraðila virða lög og reglur á hverjum stað en samtökin hafa líka sett viðmið. Á óbyggðum svæðum mega ekki fara fleiri en hundrað farþegar í land í einu. 

Mynd með færslu
 Mynd: Halla Ólafsdóttir - RÚV
Skipin senda farþega á land utan hafnar í Flatey.

Fjörutíu norðurslóðaskip í smíðum

Frigg segir að áfram verði vöxtur. Hugsanlega þurfi að skýra regluverkið, það þurfi að ná utan um málaflokkinn svo hægt verði að tryggja að þróunin verði í þágu íbúa. Hún ráðleggur stjórnvöldum að vinna með fyrirtækjunum og landeigendum og sveitarfélögunum, finna góðar leiðir til að stýra ferðaþjónustunni. Leiðir sem henta bæði íbúum og ferðaþjónustunni.

Pétur hjá Cruise Iceland segir mikið af skipum í smíðum í heiminum, 115 hafi verið pöntuð, þar af hátt í 40 rammgerð leiðangursskip sem ætluð eru til heimskautasiglinga. Um 20% nýju skipanna verða að hans sögn knúin gasi, sem mengar minna en olía, en það virðist vera lengra í að skipin verði rafknúin - það er þó einhver þróun - þannig hefur blendingsskip Hurtigruten siglt hingað, og kemur aftur á næsta ári.