Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stoltenberg skýrslan markaði tímamót

Mynd: EPA / EPA
Skýrsla og tillögur Thorvalds Stoltenbergs, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, um norræna samvinnu markaði tímamót í norrænni samvinnu þegar hún var kynnt fyrir tíu árum. Fram að því hafði samstarf ríkjanna á sviði varnar- og öryggismála verið mjög takmarkað. Utanríkismálastofnanir Norðurlandanna kynntu fyrir helgi úttekt á Stoltenberg-skýrslunni og þýðingu hennar.

Víðtækt samstarf en ekki í utanríkismálum

Formlegt samstarf norrænu ríkjanna fimm hófst á sjötta áratug síðustu aldar og náði til margra sviða þjóðlífsins. Utanríkis-öryggis- og varnarmál voru þó undanskilin á meðan á kalda stríðinu stóð, enda staða ríkjanna fimm afar ólík, Danmörk, Ísland og Noregur hluti Atlantshafsbandalagsins en Finnland og Svíþjóð hlutlaus ríki og samband Finnlands við risaveldið Sovétríkin í austri mjög viðkvæmt.

Ný hugsun við breyttar aðstæður

Aðstæður í alþjóðamálum voru allt aðrar þegar Torvald Stoltenberg, fyrrverandi utanríkisráðherra Noregs, fékk það verkefni að gera tillögur um norrænt samstarf í öryggis- og varnarmálum. Stoltenberg skilaði tillögum í þrettán liðum, og sagði er skýrslan var kynnt meðal annars að almennt væri litið svo á að Norðurlönd yrðu stöðugt mikilvægari í landfræðilegum, pólitískum og hernaðarlegum skilningi. Það væri ekki síst vegna loftslagsbreytinga, bráðnun íss á Norðurskautinu kalli á sameiginleg viðbrögð ríkjanna. 

„En hvað snertir ísinn á norðurslóðum þá hef ég lagt til að við lítum til þess möguleika að sinna gæslu á hafinu á þessum slóðum því engin norrænna þjóða ræður við verkið ein," sagði Thorvald Stoltenberg í Viðtalinu á RÚV í júní 2009.

Norrænt loftrýmiseftirlit yfir Íslandi

Össur Skarphéðinsson, þáverandi utanríkisráðherra Íslands, veitti Stoltenberg-skýrslunni viðtöku fyrir hönd utanríkisráðherra Norðurlandanna á aukafundi þeirra í Ósló í febrúar 2009. Hann vakti athygli á tillögu Stoltenbergs um norrænt loftrýmiseftirlit yfir Íslandi. Össur sagði að í skýrslunni væri einnig lagt til að norrænu þjóðirnar efli samstarfið í utanríkismálum. „Það kæmi sér vel fyrir smáþjóðina Íslendinga. Litla Ísland hefði þá sendiráð um víða veröld." Báðar þessar tillögur hafa komist til framkvæmda, enn er unnið að nokkrum tillagna Stoltenbergs.

Hafði mikla þýðingu fyrir Ísland

Pia Hanson, forstöðumaður Utanríkismálastofnunar Háskóla Íslands, segir að skýrslan hafi haft gríðarlega mikla þýðingu fyrir Ísland. Henni hafi verið vel tekið, hún hafi komið þegar Íslendingar voru að enduskoða sín öryggismál eftir að Bandaríkjamenn hurfu á brott með varnarliðið 2006. Þá hafi skapast visst tómarúm og Íslendingar, rétt eftir hrun, hafi allt í einu þurft að standa á eigin fótum og móta eigin öryggismálastefnu.

Umræðan breyttist með skýrslu Stoltenbergs

Ulf Sverdrup, forstjóri norsku utanríkismálastofnunarinnar NUPI, segir að skýrslan hafi opnað augu fólks fyrir því að samstarf í utanríkis- öryggis- og varnarmálum væri mögulegt. Sverdrup segir að þannig hafi Stoltenberg breytt umræðunni, þó að tillögurnar hafi ekki allar komist til framkvæmda sé samstarfið nú miklu nánara sem og strategísk hugsun um utanríkismál.

Þrjár sérlega vel heppnaðar tillögur

Sverdrup segir að þrjár tillögur Stoltenbers hafi heppnast sérlega vel. Sameiginlegar netvarnir, loftrýmiseftirlit yfir Íslandi og samstarf utanríkisráðuneyta og sendiráða ríkjanna. Pia Hanson er sammála Ulf Sverdrup um að skýrsla Stoltenbergs hafi opnað nýja hugsun um samstarf í öryggis- og varnarmálum.

Aðrar áherslur ef sambærileg skýrsla yrði gerð nú

Hraðar breytingar hafa verið á sviði utanríkis- og öryggismála á undanförnum árum og sífellt þörf fyrir endurmat á stöðunni. Pia telur að Stoltenberg skýrslan hafi staðist tímans tönn en verið að skrifa skýrsluna í dag yrði ef til vill aðrar áherslur upp á borðinu, meiri áhersla yrði á loftslagsmál og málefni norðurslóða. Pia segir að visst ákall sé á að ný skýrsla sé gerð.

Aukinn þungi á norrænt samstarf

Pia segir að sjá megi á mörgum sviðum að aukinn þungi sé að færast í norrænt samstarf og ef litið sé fram á veginn verði vonandi gerð ný úttekt sem menn fái að „hugsa út fyrir boxið" eins og Stoltenberg gerði á sínum tíma. Það væri mjög gott framlag fyrir umræðuna núna.

 

 

bogia's picture
Bogi Ágústsson
Fréttastofa RÚV