Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stolnir bílar til sölu á Íslandi

06.01.2016 - 18:41
Grunur leikur á að danskur svikari hafi selt sjö stolna bíla til Íslands. Danskir sjónvarpsmenn röktu slóð bílanna hingað til lands. Runólfur Ólafsson, framkvæmdastjóri Félag íslenskra bifreiðaeigenda segir að það sé 7 bílum of mikið.

Neytendaþátturinn Kontant í danska ríkissjónvarpinu sýnir á morgun þátt þar sem rakin er svikaferill Karstens Meyerdahls sem átt hefur í viðskiptum með notaða bíla. Dönsku sjónvarpsmennirnir höfðu samband við Félag íslenskra bifreiðaeigenda og báðu þá um aðstoð við að afla gagna um stolin ökutæki, Mercedes Sprinter sendiferðabíl og Porsche Boxter, sem þeir höfðu rakið til Íslands.

Runólfur Ólafsson segir að þegar sjónvarpsmennirnir hafi farið að skoða málið hafi komið í ljós að um mun fleiri bíla væri að ræða. 
„Eftir því sem við fengum síðast að frétta frá Dönunum þá geta þetta verið um 7 bílar verið fluttir inn með þessum hætti til landsins.“

Mercedes Sprinter sendiferðabíllinn var skráður á Íslandi í september 2014. Hann var þá eign danska kaupleigufyrirtækisins M&M Leasing en fyrirtæki Meyerdahls, Eleka Group, var með hann á kaupleigu en það kom ekki í veg fyrir að hann seldi hann íslensku fyrirtæki.

„Miðað við þau gögn sem við höfum undir höndum þá mátti þetta fólk sem keypti þessa bíla ekki ætla annað en þetta væru bílar keyptir á eðlilegum forsendum.“

Sendiferðabíllinn fékkst skráður á Íslandi að því er virðist með því að framvísa upprunalegum þýskum skráningarskjölum frá fyrsta eiganda bílsins. Núverandi eigandi bílsins er sendibílstjóri sem hafði ekki hugmynd um sögu hans fyrr en nýlega. Runólfur segir að íslensk skráningaryfirvöld séu í samskiptum við aðila innan Interpol varðandi svona mál.

„Þannig að það er ýmislegt gert til að þess að koma í veg fyrir að þetta gerist en ef þetta eru 7 bílar þá eru þetta 7 bílum of margir bílar.“
 

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV