Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stofnar lögregluráð undir forystu ríkislögreglustjóra

Mynd: Grímur Jón Sigurðarson / RÚV
Nýtt lögregluráð undir formennsku ríkislögreglustjóra tekur til starfa 1. janúar á næsta ári. Það er meginbreytingin sem felst í skipulagsbreytingum Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra sem hún kynnti í Ráðherrabústaðnum í dag.

Kjartan Þorkelsson, lögreglustjóri á Suðurlandi, verður settur ríkislögreglustjóri frá og með áramótum, þegar Haraldur Johannessen lætur af embætti eftir 22 ára starf. Hann hefur samið um starfslok við ráðherra og mun fyrst um sinn sinna að verkefnum tengdum lögreglunni í dómsmálaráðuneytinu.

Lögregluráð komi í veg fyrir tvíverknað

Lögregluráð verður formlegur samráðsvettvangur lögreglustjóra á Íslandi. Ríkislögreglustjóri verður formaður ráðsins og á styrkur þess að leiða til aukins samráðs milli embætta og betri nýtingar fjármagns lögreglunnar. Ráðið muni einnig verða til þess að lögreglan geti betur uppfyllt hlutverk sitt í samfélaginu.

Lögregluráð mun ekki fara með sjálfstætt lögregluvald eða taka stjórnvaldsákvarðanir. Ríkislögreglustjóri fer áfram með lögreglumál í umboði ráðherra og honum ber að hafa samráð við lögregluráð um allar veigamiklar ákvarðanir.

Starfið auglýst fljótlega

Áslaug Arna sagði í ræðu sinni að starf ríkislögreglustjóra verði auglýst til umsóknar mjög fljótlega. Kjartan hefur tjáð ráðherra að hann ætli ekki að sækja um starfið sem hann hefur verið skipaður í.

Núverandi skipan lögreglustjóraembætta á Íslandi er fimm ára gömul og Áslaug Arna segir þennan tímapunkt hafa verið heppilegan til þess að endurskoða skipulagið. Mikill styr hefur staðið um Harald í embætti ríkislögreglustjóra á undanförnum misserum og lögreglumenn og -stjórar lýst óánægju sinni með störf Haraldar.

Einkennið skortur á samráði

„Við höfum á undanförnum vikum skoðað kerfið í heild,“ sagði Áslaug Arna og segir markmiðið með breytingunum vera að lögreglan vinni betur saman sem heild. Hú sagði þau mál sem hafa ratað inn á borð hennar eiga það sameiginlegt að þau stafi af skorti á samráði milli lögreglustjóraembætta.

Áslaug Arna nefndi nokkra hluti sérstaklega í ávarpi sínu; Stór hluti verkefna lögreglunnar kallar á staðbundna stjórnun og úrlausn mála en sum mál þurfa að fá heildstæða skoðun sem ríkislögreglustjóri og lögregluráð getur sinnt. Ráðinu er ætlað að koma í veg fyrir tvíverknað og færa landlæg lögregluverkefni til einstakra lögregluliða.

Aðrar breytingar eru einnig til skoðunar að sögn ráðherra, eins og til dæmis tilfærsla á einstaka verkefnum og sameiningar lögreglustjóraembætta.