Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stofnar hljómsveitir heimilislausra út um allan heim

Mynd: Hulda Geirsdóttir / Aðsend

Stofnar hljómsveitir heimilislausra út um allan heim

10.03.2020 - 11:12

Höfundar

Sigrún Sævarsdóttir-Griffiths hefur verið búsett í Lundúnum um árabil og hefur meðal annars leitt meistaranám í hinum virta Guildhall-tónlistarskóla í rúman áratug. Nú hefur hún stofnað fyrirtækið Metamorphonics og vinnur að fjölbreyttum tónlistartengdum verkefnum, til dæmis að stofnun hljómsveita fólks sem hefur einhvern tímann verið heimilislaust.

Ásamt því að starfa við Guildhall-tónlistarskólann stofnaði Sigrún fyrirtækið Metamorphonics sem spratt úr verkefni sem hún fór af stað með við Guildhall. Þar stofnaði hún hljómsveitina The Messengers. Í henni eru nemar við skólann sem eiga það sameiginlegt að hafa einhvern tímann verið heimilislausir. En margir þeirra glíma enn við félags- og heilsufarsleg vandamál eftir að hafa búið á götunni. 

Upphaflega átti verkefnið einungis að standa yfir í þrjá daga en nú átta árum síðar er verkefnið enn að stækka og ekki sér fyrir endann á því. „Við fórum bara af stað með þriggja daga verkefni og sáum aldrei fram á að þetta yrði eitthvað annað en bara þetta þriggja daga verkefni. Einhvern veginn varð afraksturinn ofboðslega sterkur,“ segir Sigrún.

Áhorfendur séu ekki að klappa hljómsveitinni á bakið af vorkunn vegna reynslu liðsmanna af því að búa á götunni heldur eigi tónlist þeirra erindi við fólk og hafi sterkt listrænt gildi. „Eftir að hafa unnið með þessari hljómsveit í nokkur ár og séð líka hvað þetta var sterkt námsverkefni fyrir tónlistarnemendur í þessum virta skóla þá langaði mig til að láta verkefnið fara lengra og að fleiri fengu að njóta þess og ég fékk tækifæri til að stofna sambærilega hljómsveit í Los Angeles,“ segir Sigrún.

Sigrún stofnaði hljómsveitina Trailblazers í Los Angeles ásamt Thornton-tónlistarskólanum og Urban Voices Project-kórnum sem var stofnaður af heilsugæslu á Skid Row þar sem flest heimilislaust fólk býr. Í Los Angeles eru um 65.000 manns á götunni. „Ég hef aldrei á ævi minni séð annað eins, þar er örtröð á götum borgarinnar af fólki sem er á götunni. Þú labbar ekkert á gangstéttum, þar eru tjaldbúðirnar. Þetta er eins og að koma inn í flóttamannabúðir í einni af dýrustu og ríkustu borg Bandaríkjanna,“ segir Sigrún.

Verkefnið heldur áfram að stækka og nú hefur Sigrún stofnað sams konar hljómsveit í Leicester og í haust er komið að Íslandi. Sigrún hyggst starfa með Listaháskólanum, Sinfóníuhljómsveit Íslands, Reykjavíkurborg, starfsendurhæfingarstöðum og Hugarfari. Nú þegar er búið að bóka Norðurljósasal Hörpu fyrir tónleika íslensku sveitarinnar í maí á næsta ári.

Aðspurð segir Sigrún að bakgrunnur og hæfileikar fólks í hljómsveitunum séu misjafnir. „Það eru alveg ótrúlegir tónlistarmenn sem maður hittir með þessa sögu. Fólk með svo ofboðslega mikla tónlist í sér og hefur farið allt aðra leið heldur en nemendurnir sem hafa haft þau forréttindi að fá að mennta sig í tónlist. Fólk oft sem hefur lent á götunni hefur kannski ekki haft þau tækifæri.“

Engin inntökupróf séu í hljómsveitina. „Reglan mín er að ef viðkomandi þrífst í þessu umhverfi fær hann að vera með,“ segir Sigrún. Það sé taktlaust fólk í slagverksdeildinni og söngvarar sem halda engu lagi. Hún þurfi því að beita allri sinni útsjónarsemi til að allt komi heim og saman. 

Hægt er að kynna sér verkefnið betur hér.

Tengdar fréttir

Menningarefni

Pólskur kór söng íslenskt jólalag í Hallgrímskirkju

Tónlist

Íslenskur stúlknakór í myndbandi Fleet Foxes

Tónlist

Laglausir syngja í kór

Íslenskur kór söng fyrir veikan kórfélaga