Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stofnanir ættu sjálfar að tilkynna til barnaverndar

29.11.2019 - 08:42
Mynd með færslu
 Mynd: Matthew Henry - Creative Commons
Ráðalausir foreldar hafa fengið ábendingar frá starfsfólki stofnana um að tilkynna sjálfa sig til barnaverndar. Forstöðumaður barnaverndar spyr hvers vegna stofnanir tilkynni málin ekki sjálf. Unnið er að því að gera tilkynningar til barnaverndar á Akureyri rafrænar.

Dæmi eru um að stofnanir ráðleggi úrræðalausum foreldrum að tilkynna sjálfa sig til barnaverndar til að fá aðstoð vegna barna sinna. Vilborg Þórarinsdóttir, forstöðumaður barnaverndar á Akureyri og Eyjafirði, segir að í fáeinum tilvikum hringi foreldrar eða nánustu aðstandendur með þau skilaboð að þau þurfi að verða barnaverndarmál til þess að fá stuðning eða þjónustu. 

Vilborg segir að það sé reyndar ekki rétt en í þessum tilvikum séu aðstandendur komnir á einhvers konar endapunkt varðandi þjónustu annars staðar og barnavernd búi yfir fleiri úrræðum en aðrir.

Stofnanir ættu frekar að tilkynna

Vilborg segir að það skjóti skökku við að stofnanir ráðleggi foreldrum að tilkynna sig sjálfa vegna þess að börn þeirra fái ekki þá þjónustu sem þau þurfa. „Af hverju er stofnunin þá ekki búin að tilkynna sjálf og taka það af foreldrum að þurfa að vera að hringja hérna inn“ segir Vilborg.

Tilkynningaskylda stofnana er rík og ætti að vera öllum ljós. Vilborg segir að það megi líka líta svo á að það sé skylda foreldra að tilkynna um bagalegt eða óviðunandi ástand á heimili.

Hún segir að á hverju ári komi fjöldi tilkynninga frá stofnunum svo að hræðsla stofnana við að tilkynna sé ólíkleg ástæða. Hugsanlega þurfi að opna umræðuna meira og gera upplýsingar aðgengilegri. 

Auðveldara aðgengi á nýju ári

Akureyrabær vinnur nú að því að rafvæða verklag við tilkynningar. Á nýju ári verður hægt að nálgast meiri upplýsingar á vef sveitarfélagsins ásamt því að hægt verður að senda tilkynningar rafrænt. Vilborg segir að það geri öllum auðveldara fyrir, hvort heldur er stofnunum eða einstaklingum sem vilja koma tilkynningu á framfæri.
 

 

Úlla Árdal
Fréttastofa RÚV