Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Stofnæðum lokað vegna heimsóknar Pence

03.09.2019 - 18:09
Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson - RÚV
Helstu stofnæðum höfuðborgarinnar verður lokað á morgun vegna heimsóknar Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna. Einhverjum götum verður lokað strax í fyrramálið og það mun síðan aukast þegar líður á daginn. Þessum aðgerðum ætti síðan að ljúka síðdegis á morgun. Þetta segir Ásgeir Þór Ásgeirsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn, í samtali við fréttastofu.

Gríðarleg öryggisgæsla er í kringum heimsókn bandaríska varaforsetans og íbúar höfuðborgarsvæðisins gætu átt í erfiðleikum með að komast til vinnu og leiðar sinnar. Ásgeir segir að lögreglan verði með víðtækar lokanir sem afmarkist af Borgartúni, Sæbraut, Kringlumýrarbraut og Snorrabraut.

Ásgeir segir þetta mikið inngrip í umferðina og nefnir sem dæmi að Sæbraut verði lokað í báðar áttar á einhverjum tímapunkti. Pence tekur þátt í málþingi í Höfða á morgun og verður Borgartúni lokað alveg í átta klukkustundir.

Mikill fjöldi lögreglumanna tekur þátt í þessu verkefni og segir Ásgeir að Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu muni gera fátt annað en þetta á morgun. Margir hafi verið kallaðir út á aukavakt og vöktum annarra lögreglumanna hefur verið breytt. „Við þurfum að taka mið af þeim öryggisviðmiðum sem ríkislögreglustjóri hefur samþykkt.“

Þá mega vegfarendur eiga von á því að götum verði lokað þegar varaforsetinn er á ferðinni en Ásgeir vildi ekki fara nákvæmlega út í það hvernig þessu yrði háttað þegar hann keyrði eftir Reykjanesbrautinni. „Þetta er mjög stór lögregluaðgerð, jafnvel á landsvísu.“ 

Mynd með færslu
 Mynd: Grafík/Birgir Þór - RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV