Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stofna málsvarnasjóð gegn smálánum

07.02.2020 - 11:02
Mynd með færslu
Drífa Snædal, forseti ASÍ, og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna. Mynd: Aðsend mynd
Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtök Íslands tóku í morgun höndum saman um að berjast gegn smálánastarfsemi. Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að smálánin séu samfélagsmein og að viðskiptamódel fyrirtækjanna gangi út á að níðast á þeim sem standa höllum fæti.

Drífa og Breki Karlsson, formaður Neytendasamtakanna, skrifuðu í dag undir samkomulag um aðgerðir gegn smálánastarfsemi. Meðal markmiða er að stofna samtök gegn smálánastarfsemi og stofna málsvarnasjóð fyrir þá sem hafa ofgreitt ólögleg lán. Auk þess stefna félögin að því að kortleggja hvaða fyrirtæki þjónusta smálánafyrirtæki svo hægt sé að upplýsa almenning um hvaða fyrirtæki það eru og þrýsta á stjórnvöld að aðstoða fólk og beita sér markvisst gegn smálánastarfsemi. Neytendasamtökin og Alþýðusambandið auglýsa jafnframt eftir fyrirtækjum, félagasamtökum og einstaklingum til að taka þátt í baráttunni gegn smálánum.

Glæpastarfsemi sem bitnar á félagsmönnum

„Ástæðan fyrir því að ASÍ leggst á árarnar með Neytendasamtökunum núna er að við höfum orðið þess vör að þessi glæpastarfsemi, sem ég vil kalla sem er starfsemi smálánafyrirtækja, hefur töluverð áhrif á okkar félagsmenn,“ segir Drífa. „Bæði er það þannig að þeir sem eru veikir fyrir eða blankir freistast til að taka þessi lán og lenda þá oft á tíðum í vítahring. Foreldrar eru í þeirri aðstöðu að þurfa að aðstoða börnin sín sem hafa lent í þessu. Við sjáum að fólk er að fara mjög illa út úr þessum viðskiptum.“

Drífa segir ASÍ því telja þess virði að leggjast á sveifar með Neytendasamtökunum sem hafa staðið í þessari baráttu hingað til. „Og síðan leggjum við til fjármagn til þess að aðstoða fólk sem hefur lent í klónum á smálánafyrirtækjum og eru nánast ekki fjár síns ráðandi sjálf lengur af því að smálánafyrirtækin ganga mjög hart fram í rukkunum.“

Skaðvaldur á samfélaginu

Drífa segir að augum verði einnig beint að fyrirtækjum sem aðstoða smálánafyrirtækin við milligöngu og innheimtu smálána eða jafnvel með því að setja fólk á vanskilaskrá. Þetta séu fyrirtæki sem vilji gæta að virðingu sinni.

„Þetta er, eins og ég sé þetta, skaðvaldur á samfélaginu, þetta er samfélagsmein,“ segir Drífa. „Auðvitað getur fólk lent í því um stundarsakir að þurfa að fá fyrirgreiðslu. Hins vegar gengur þetta viðskiptamódel, þessi rekstur, út á það að níðast á þeim sem höllum fæti standa, annað hvort vegna fíknar eða vegna fjárhagsörðugleika. Hvernig sem þeir eru til komnir. Þannig að það er samfélagsleg aðgerð að uppræta þessi fyrirtæki.“