Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stofna átakshóp til að glíma við vanda bráðadeildar LSH

16.01.2020 - 19:00
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Átakshópur verður skipaður til að finna lausnir á brýnum vanda bráðamóttökunnar og hrinda þeim í framkvæmd. Þetta er sameiginleg niðurstaða fundar heilbrigðisráðherra, landlæknis og forstjóra Landspítalans sem haldinn var í heilbrigðisráðuneytinu í dag. Greint er frá niðurstöðunni í tilkynningu á vef ráðuneytisins. 

Á fundinum var fjallað um aðstæður á bráðamóttöku Landspítalans, vandamálin sem þar er helst við að etja og aðgerðir til að leysa vandann til skemmri og lengri tíma. Landlæknir afhenti heilbrigðisráðherra í gær minnisblað varðandi stöðuna á bráðamóttöku Landspítala og var efni þess kynnt fyrir forstjóra sjúkrahússins og þeim stjórnendum sjúkrahússins sem sátu fundinn í dag auk hans.

Í minnisblaði landlæknis segir að þrátt fyrir fjölda aðgerða sem gripið hafi verið til af hálfu heilbrigðisráðuneytisins og Landspítalans hafi staðan á bráðamóttökunni ekki batnað. Allt of margir sjúklingar bíði þar eftir innlögn á deildir spítalans. Telur embættið meginvandann vera skort á hjúkrunarrýmum og vöntun á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum á legudeildum spítalans. Alls eru nú 40 rúm lokuð á bráðalegudeildum spítalans vegna skorts á hjúkrunarfræðingum og sjúkraliðum en voru 35 fyrir ári.

Í minnisblaðið beinir embætti landlæknis fimm tillögum til heilbrigðisráðherra varðandi bráðamóttöku Landspítalans. 

Hér má sjá minnisblaðið.