Stöðugur stuðningur allt kjörtímabilið

Mynd: RÚV / RÚV
Guðni Th. Jóhannesson ætlar að bjóða sig fram til endurkjörs í embætti forseta Íslands. Þetta tilkynnti hann í nýársávarpi sínu í dag. Hann segir að bregðast þurfi við loftlagsvánni og að tími gegndarlausrar neyslu sé liðinn.

„Kæru landsmenn. Senn líður að lokum þessa kjörtímabils míns í embætti forseta Íslands. Rúmlega þrjú ár eru að baki, viðburðarík og minnisstæð. Hvað tekur við? Því ræður auðna en segja má tímabært og tilhlýðilegt að lýsa því nú yfir að ég hyggst gefa kost á mér til frekari setu hér á Bessastöðum,“ sagði forsetinn í nýársávarpi sínu.

Guðni var kjörinn forseti í júní 2016 og lýkur kjörtímabili hans þann 1. ágúst. Hann hefur verið svo til óumdeildur í embætti og hefur ánægja með hans störf mælst á bilinu 77 til 85 prósent stærstan hluta kjörtímabils. Næstu forsetakosningar verða haldnar 27. júní - að því gefnu að mótframboð berist. Ef það gerist ekki verður Guðni kjörinn forseti án atkvæðagreiðslu.

 Loftlagsmálin hafa verið áberandi í hátíðarávörpum ráðamanna og töluðu forsætisráðherra og biskup Íslands báðar um að bregðast þurfi við loftslagsvánni. Það gerði forsetinn líka.

 „Einhugur um næstu skref er ekki í augsýn á alþjóðavettvangi en þetta er ljóst: Gegndarlaus nýting og neysla er gervilausn hins liðna, ofgnótt hér og skortur þar er vandi okkar daga og ný hugsun er nauðsynlegt ákall nýrra tíma.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi