Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stöðugildum fækkað um 14 hjá Eimskip og TVG-Zimsen

18.02.2020 - 13:18
Mynd með færslu
 Mynd: Eimskip
Stöðugildum hjá Eimskip og dótturfélagi þess, TVG-Zimsen, verður fækkað um 14 í kjölfar skipulagsbreytinga sem taka gildi í dag. Að sögn Eddu Rutar Björnsdóttur, markaðs- og samskiptastjóra, verður stöðugildunum fækkað með þeim hætti að ekki verður ráðið í störf fólks sem er að fara á eftirlaun, tímabundnar ráðningar verða ekki framlengdar, auk þess sem nokkrum er sagt upp störfum.

Meðal skipulagsbreytinga hjá Eimskip í dag eru þær að Björn Einarsson verður framkvæmdastjóri á nýju samþættu Sölu og viðskiptastýringarsviði. Sviðinu tilheyra viðskiptaeiningarnar innflutningur og útflutningur sem áður tilheyrðu Sölusviði og flutningsmiðlunin TVG-Zimsen sem er dótturfélag Eimskips.

Í tilkynningu fyrirtækisins til Kauphallar Íslands segir að samhliða þessum breytingum hafi verið komist að samkomulagi við Matthías Matthíasson, sem verið hefur framkvæmdastjóri sölusviðs, um að láta af störfum og eru honum færðar þakkir fyrir sín störf í tilkynningunni. 

Markmið breytinganna er að einfalda skipulag og ná fram samþættingu í þjónustuframboði og vörumerkjum félagsins, áframhaldandi hagræðing ásamt því að efla enn frekar sókn með heildar lausnir fyrir markaðinn, að því er segir í tilkynningu til Kauphallarinnar.

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir