Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stjórnvöld treg og ferlið tímafrekt

09.10.2019 - 12:18
Mynd með færslu
 Mynd: Skjámynd - Alþingi
Upplýsingagjöf stjórnvalda til almennings er verulega ábótavant og langt frá þeim viðmiðum sem gilda annars staðar á Norðurlöndum, að mati umboðsmanns Alþingis sem veltir fyrir sér hvort núverandi kerfi sé komið á endastöð. Borið hefur á því að opinberir aðilar skýla sér á bakvið ný persónuverndarlög til að láta upplýsingar ekki af hendi.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, kynnti ársskýrslu embættisins fyrir stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd Alþingis í morgun. Þar var meðal annars rætt um tregðu stjórnvalda til að veita upplýsingar og hversu langan tíma það tekur að fá þær.

„Ég finn fyrir, þó svo að menn séu að reyna að gera ákveðnar úrbætur með nýjum upplýsingalögum að þá held ég að við þurfum að skoða það hvort að kerfið sem við höfum byggt upp sé rétt. Ég hef í því sambandi sagt að ég velti því fyrir mér hvort að tilvist þessarar úrskurðarnefndar sé kannski rótin að því hversu illa okkur hefur gengið hér á landi í samanburði við ýmis nágrannalönd okkar að virkja þennan upplýsingarétt almennings, þá meðal annars líka fjölmiðla. Það er að segja, málin taka alltof, alltof langan tíma og hafa bara glatað upplýsingagildi sínu þegar loksins kemur einhver niðurstaða,“ segir Tryggvi

Skortir verulega á þekkingu

Að mati umboðsmanns skortir verulega þekkingu innan stjórnkerfisins, ekki bara á upplýsingalögum heldur í hvaða farveg mál eiga að fara þannig að leyst sé úr þeim samkvæmt lögum.

Í skýrslunni er tekið dæmi af opinberum starfsmanni sem kvartaði til umboðsmanns eftir að honum var synjaður aðgangur að gögnum frá fjármála- og efnahagsráðuneytinu. Þrátt fyrir ítrekaðar fyrirspurnir umboðsmanns gat ráðuneytið ekki svarað því á hvaða lagagrundvelli beiðninni var synjað. „Ég held að fyrst og fremst þurfum við að taka þessa ákvarðanatöku til stofnanana og búa þeim þá þekkingu til þess að leysa úr þeim, það eigi bara að vera algjört undantekning ef mál fara í þessa úrskurðarnefnd eða ráðuneytin leysi sjálf úr því á grundvelli kæra.“

Skýla sér á bakvið persónuverndarlög

Tryggvi segir að annars staðar á Norðurlöndum sé miklu meiri vitund um þessar reglur og meiri vilji til að veita upplýsingar. Þá sé sá tími sem úrskurðarnefnd um upplýsingamál gefur sér til að veita upplýsingar langtum meiri en gengur og gerist annars staðar á Norðurlöndum. Þá hefur borið á því að stjórnvöld skýli sé á bak við ný persónuverndarlög þegar þau synja aðgangi að upplýsingum, án þess að nokkur fótur sé fyrir því. „Já, það er nú kannski þetta íslenska að þegar nýjar lagareglur koma til að þá fá þær ósjálfrátt víðtækara gildi en þær hafa í raun. Það er þá ákveðin afsökun án þess að menn hafa kynnt sér í raun hvaða þýðingu þær hafa.“

 

Magnús Geir Eyjólfsson