Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

„Stjórnvöld geta ekki níðst á borgurum“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Tryggingastofnun ríkisins þarf að greiða fjölda ellilífeyrisþega samtals um fimm milljarða íslenskra króna. Hæstiréttur hafnaði í dag beiðni stofnunarinnar um leyfi til að áfrýja dómi Landsréttar. Formaður flokks fólksins, sem rak málið gegn Tryggingastofnun, er í skýjunum með niðurstöðuna. Forstjóri Tryggingastofnunar segir að niðurstaðan komi velstæðum ellilífeyrisþegum best.

Landsréttur komst í maí að þeirri niðurstöðu að Tryggingarstofnun hefði verið óheimilt að skerða bætur sem ellilífeyrisþegar fengu í janúar og febrúarmánuði árið 2017 afturvirkt og nú er ljóst að sá dómur stendur.

„Margir spyrja og átta sig ekki alveg á því hvað dómurinn þýðir, hann þýðir einfaldlega að allir þeir sem fengið hafa greitt úr lífeyrissjóði og um leið frá Tryggingastofnun og verið skertir, þeir fá þessa mánuði, janúar og febrúar 2017, bætta núna með vöxtum frá 1. janúar 2017,“ segir Inga Sæland, formaður Flokks fólksins. 

Mistök við lagabreytingu

Upphaf málsins má rekja til þess þegar breytingar á almannatryggingalögum tóku gildi í byrjun árs 2017. Í febrúarbyrjun kom í ljós að þingmenn höfðu fyrir mistök fellt brott ákvæði um að skerða mætti lífeyri eldri borgara vegna greiðslna úr lífeyrissjóðum. Þá hafði Tryggingastofnun greitt út lífeyri fyrir fyrstu tvo mánuði ársins í samræmi við fyrri heimild til skerðinga.  Lögunum var svo breytt afturvirkt til að heimila skerðinguna. Heildarskerðingin hjá öllum ellilífeyrisþegum landsins þessa tvo mánuði nam um fimm milljörðum króna.

Móður Ingu teflt fram

Flokkur fólksins var ekki sáttur við þennan ráðahag og réðst í málarekstur. „Við þurftum að finna kandídat til að tefla fram og það lendir á móður minni, Sigríði Sæland, hún er tæplega 82 ára gömul og gaman fyrir hana að taka þátt í þessu þó hún segði að hún vildi ekkert af þessu vita. Hún er valin fyrir hvað hún er greiðslulág og við gátum því sótt um gjafsókn,“ segir Inga. 

Dómurinn renni stoðum undir réttarríkið

Tryggingarstofnun var sýknuð fyrir héraðsdómi sem taldi hana hafa haft heimild til að leiðrétta mistökin afturvirkt en Landsréttur sneri þeim dómi við. Komst að þeirri niðurstöðu að Tryggingastofnun hefði enga heimild haft til að skerða réttindin lífeyrisþega með afturvirkri og íþyngjandi löggjöf. Ellilífeyrisþegar hafi átt kröfu til að fá lífeyrinn óskertan og kröfuréttur þeirra njóti verndar eignarréttarákvæðis stjórnarskrárinnar.  Inga segir dóm Landsréttar renna sterkum stoðum undir réttarríkið. „Hann hafnar því alfarið að stjórnvöld geti níðst á borgurum með afturvirkum, íþyngjandi hætti eins og átti að gera í þessu tilviki.“

Hæstiréttur hafnaði svo í dag beiðni Tryggingarstofnun um áfrýjunarleyfi. Inga Sæland er hæstánægð með þá niðurstöðu. „Þetta eru uppundir fimm milljarða króna fyrir utan vexti sem eru engir smáaurar og sýnir þá hversu gríðarlegar skerðingar er verið að leggja á fólkið í landinu til að halda þjóðarskútunni á floti.“ 

„Kannski hefði verið betra að fá efnisdóm“

Mynd með færslu
 Mynd: ruv
Sigríður Lillý Baldursdóttir.

„Það eru dómstólarnir sem kveða upp sína dóma, ef til vill hefði verið betra að fá efnisdóm frá Hæstarétti en þetta var niðurstaðan og þá vinnum við samkvæmt henni,“ segir Sigríður Lillý Baldursdóttir, forstjóri Tryggingastofnunar.

Kemur þeim sem mest fá best

Hún segir að niðurstaðan komi þeim lífeyrisþegum sem fengu mest úr lífeyrissjóðum best, sumir eigi von á yfir fjögur hundruð þúsund króna endurgreiðslu samtals fyrir báða mánuðina. „Þeir sem ekkert fá vegna þessa dóms eru þeir sem eru með lífeyrisgreiðslur undir 25 þúsund krónum.“ 

Ætti að geta gengið  hratt

Inga sér enga ástæðu til þess að bíða með endurgreiðslurnar. Ekki liggur fyrir áætlun hjá Tryggingarstofnun um hvernig staðið skuli að endurgreiðslum. Sigríður segir að það ætti ekki að taka langan tíma, líklega einhverja mánuði. Verkefnið ætti ekki að vera mjög flókið. Fjármagnið, fimm milljarðar, fáist með aukafjárveitingu frá ríkinu. „Réttindi lífeyrisþeganna verða greidd út, óháð því hvað  er á fjárlögum það verður þá aukafjárveitingum veitt til þess.“

Leiðrétting: Áður mátti lesa úr fréttinni að Tryggingastofnun hefði haldið áfram fyrra verklagi eftir að mistökin uppgötvuðust. Svo er ekki. Mistökin uppgötvuðust að sögn forstjóra stofnunarinnar eftir að Tryggingastofnun hafði í tvígang greitt út ellilífeyri en hann er greiddur í upphafi hvers mánaðar.