Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnvalda að ákveða viðbrögð við aflskorti

13.07.2019 - 21:32
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Stjórnvöld þurfa að ákveða hvernig bregðast eigi við mögulegum aflskorti á Íslandi árið 2022. Ef ekki verður dregið úr rafmagnsnotkun eða meira framleitt af því, gæti þurft að skammta hér raforku innan þriggja ára. Þetta segir forstjóri Landsnets.

Langstærsti hluti raforku á Íslandi fer til stóriðju, eða um 83%. Fram kemur í nýrri skýrslu Landsnets að raforkunotkun muni aukast meira á næstu þremur árum en áður var reiknað með, aðallega vegna aukinnar notkunar hjá gagnaverum. Því þurfi að auka raforkuframleiðslu, eða minnka álag.

Gæti þurft að draga úr notkun eða nota olíurafstöðvar

Guðmundur Ingi Ásmundsson, forstjóri Landsnets, segir líkur á tímabundnum aflskorti, en það sé háð afköstum í raforkuframleiðslu. „Í verstu árunum þá kæmi til þess að það þyrfti að taka ákvarðanir og draga úr notkun ef að við erum ekki komin með aukaafl inn í kerfið,“ segir Guðmundur Ingi. „Nú það er líka möguleiki að nota varastöðvarnar, sem reyndar eru olíustöðvar, til þess að fylla í holurnar.“

Guðmundur Ingi segir ekkert hæft í því að Landsnet haldi uppi áróðri til þess að fá leyfi til þess að virkja meira. „Lögum samkvæmt þá er Landsneti ekki heimilt að hafa skoðun á því hverjir eru að framleiða né hverjir eru að nota, þannig að okkar fyrirtæki er fyrst og fremst að benda á staðreyndir, en ekki með áróður fyrir virkjunum eða notkun.“

Það sé stjórnvalda að ákveða hvernig brugðist verður við. „Nú er á vegum stjórnvalda verið að vinna að stefnumörkun í orkumálum og án efa verður þessi stefna lykillinn að því hvaða leið við förum,“ segir Guðmundur Ingi.

Lagaleg óvissa um forgang almennra notenda 

En ganga almennir notendur ekki fyrir ef kemur til aflskorts og grípa þarf til rafmagnsskömmtunar? „Ég held að allt skynsamt fólk vilji hafa það þannig en það sem við erum að benda á er að það er ákveðin lagaleg óvissa um það mál.“ Sú lagalega óvissa væri úr sögunni ef þriðju orkupakkinn yrði samþykktur. Guðmundur Ingi bendir á að eins væri hægt að bregðast við þessu með íslenskri löggjöf. „Neytendavernd hér á landi er kannski ekki eins og hún á að vera og við höfum í raun og veru bent á þetta alveg frá 2005, þegar fyrirtækið var stofnað, að það þyrfti að bæta úr íslenskri löggjöf. Og það er mjög mikilvægt að það sé gert vegna þess að það er engin skynsemi að þetta komi niður á almennum neytendum.“

 

alma's picture
Alma Ómarsdóttir
Fréttastofa RÚV