Stjörnur dýraríkisins á hverfanda hveli

28.11.2015 - 15:47
Mynd með færslu
 Mynd: Tambako The Jaguar - Flickr
Framtíð margra þekktustu spendýrategunda jarðar er ekki björt vegna síaukins átroðnings mannsins um allan heim. Meiriháttar útrýming gæti verið í aðsigi. Allir frændur mannsins af ætt mannapa eru í útrýmingarhættu, svo og tígrisdýr, nashyrningar, kameldýr, steypireyðar og fjölmargar aðrar tegundir. Fimmta hver spendýrategund í heiminum er komin á alþjóðlegan válista.

Óttast meiriháttar útrýmingu

Fjórir milljarðar tegunda lífvera hafa þróast á jörðinni á síðustu 3,5 milljörðum ára. Um 99% eru útdauðar. Fyrir 65 milljónum ára dóu 75% dýra- og plöntutegunda í heiminum út á tiltölulega skömmum tíma. Talið er að smástirni eða halastjarna hafi rekist á jörðina og þeytt upp gríðarmiklu ryki sem skyggði á sólarljósið með hörmulegum afleiðingum fyrir flestar lífverur. Meðal tegunda sem þá dóu út voru allar tegundir risaeðla, að forfeðrum fugla undanskildum.

Fimm sinnum í sögu jarðar hafa orðið slíkar hamfarir, af völdum árekstra úr geimnum, risaeldgosa, loftslagsbreytinga og annarra þátta, sem leitt hafa til útrýmingar meirihluta lífs á hnettinum. Nú óttast vísindamenn að sjötta fjöldaútrýmingin sé hafin. Ástæður hennar séu þó allt aðrar - maðurinn.

Anthony Barnosky, fornlíffræðingur við Kaliforníuháskóla, spáir því að eftir um 300 ár verði 75% allra spendýrategunda horfnar, það er að segja ef þær halda áfram að deyja út á sama hraða og nú, og ef allar tegundir sem nú eru á válista verða útdauðar eftir 100 ár.

Þessu valdi aukinn ágangur mannsins á kjörlendi lífvera, framkvæmdir sem skera í sundur náttúruleg heimkynni þeirra, veiðar, loftslagsbreytingar, mengun og útbreiðsla sjúkdóma og nýrra tegunda utan sinna náttúrulegu heimkynna. Barnosky áætlar að tegundir deyi nú út 1.000 sinnum hraðar en ef allt væri eðlilegt. Náttúruverndarsinnar óttast að allt að 30% allra tegunda gætu dáið út á næstu 40 árum.

Lífríki í kreppu

Alþjóðanáttúruverndarsamtökin, IUCN, segja að síversnandi ástand lífríkisins, þar sem æ fleiri tegundir deyja út, sýni að náttúran þoli ekki það sem mannkynið leggur á jörðina. Listi samtakanna yfir tegundir í hættu er stærsti upplýsingabanki um verndarstöðu lífvera í heiminum, og stjórnvöld og alþjóðastofnanir styðjast jafnan við hann í aðgerðum og lagasetningu. Listinn tekur til stöðu hverrar tegundar á heimsvísu. Tegundum á válista er raðað í þrjá áhættuflokka; teljast ýmist í yfirvofandi hættu, í útrýmingarhættu eða í bráðri útrýmingarhættu.

Nýlega voru nokkrar íslenskar fuglategundir settar á válistann, þar á meðal lundi, sem er algengasti fuglinn á Íslandi. Framtíðarhorfur margra fuglategunda eru ekki góðar, því talið er að nýjar tegundir gætu hópast inn á válistann á næstu árum.

Við dauða risaeðlanna varð til rými fyrir margbreytilega þróun spendýra. Nú er hins vegar verulega farið að halla undan fæti fyrir þennan flokk dýra, sem telur meðal annars stærstu dýr jarðar. Í dag finnast hátt í 5.500 tegundir spendýra á jörðinni. Rúmlega 20% þeirra, eða meira en 1.100 tegundir, eru á válista. Þar af teljast 447 beinlínis í útrýmingarhættu og 191 í bráðri útrýmingarhættu.

Fá landspendýr lifa villt á Íslandi og ekkert þeirra er á válista í dag. Öðru máli gildir um ýmsar hvalategundir í hafinu umhverfis Ísland, svo og fjölmörg önnur spendýr á láði og legi um allan heim. Meðal þeirra eru nánustu ættingjar mannsins af ætt mannapa, og fjöldi annarra spendýra sem hafa lengi verið nokkurs konar táknmyndir fjölbreytts lífríkis á jörðinni.

 

 

Afríkufíll

Þetta stærsta landdýr jarðar finnst nú í 37 löndum í Afríku, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Útbreiðslusvæði hans verður sífellt brotakenndara, þótt enn séu til víðfeðm samfelld landsvæði þar sem hann heldur sig. Ástand tegundarinnar er afar misjafnt eftir löndum. Þótt fílnum kunni að fara fækkandi sums staðar í álfunni fjölgar í stærstu stofnunum, í austur- og suðurhluta álfunnar. Þar eru tveir þriðju hlutar allra Afríkufíla og því fer fílum í raun fjölgandi. Samt telst tegundin í yfirvofandi hættu.

Veiðiþjófar hafa lengi sóst eftir fílabeini og kjöti af fílum. Ólöglegar fílaveiðar hafa jafnan verið helsta ástæðan fyrir hnignun tegundarinnar, en þótt veiðiþjófnaður hafi enn allnokkur áhrif á tilteknum svæðum, sérstaklega í Mið-Afríku, vegur útþensla mannabyggða og aukin landnýting nú þyngra.

 

Asíufíll

Asíufíllinn er nokkru minni en sá afríski og með áberandi smærri eyru og skögultennur. Einangraðir stofnar finnast í 13 löndum í Suður- og Suðaustur-Asíu. Áður fyrr náðu heimkynni tegundarinnar hins vegar allt frá Vestur-Asíu, austur um strönd Írans, til Suðaustur-Asíu og norður til Kína.

Útbreiðslusvæði Asíufílsins fyrr (bleikt) og nú (rautt).

 

Tegundin hefur talist í útrýmingarhættu frá árinu 1986, enda er áætlað að Asíufílum hafi fækkað um að minnsta kosti 50% á síðustu 60-75 árum. Vísindamenn byggja þetta á að kjörlendi fílsins hefur bæði minnkað og orðið lakara en áður. Mannfjölgun er helsta ógnin, enda lifir Asíufíllinn á þéttbýlasta svæði jarðar. Þeir þurfa mun stærra kjörlendi en flest önnur landdýr í Asíu og verða því fyrstir fyrir barðinu á sundrun og eyðileggingu kjörlendis.

Árekstrar milli manna og fíla verða sífellt algengari, þar sem fílarnir éta eða traðka niður uppskeru bænda. Hundruð manna og fíla deyja árlega í slíkum árekstrum. Veiðiþjófnaður ógnar líka Asíufílnum, þótt litlar upplýsingar séu til um hversu margir fílar eru drepnir á hverju ári.

 

Nashyrningar

Nashyrningar eru næststærsta landdýrið. Fimm nashyrningategundir eru til í heiminum, tvær í Afríku og þrjár í Suðaustur-Asíu. Þrjár tegundir eru í bráðri útrýmingarhættu. Þar á meðal er svarti nashyrningurinn, sem eins og sést á myndinni að ofan er reyndar ekki svartur, heldur grá- eða brúnleitur.

Svarti nashyrningurinn á heimkynni í suður- og austurhluta Afríku. Talið er að svörtum nashyrningum hafi fækkað um 97,6% frá 1960, aðallega vegna veiðiþjófnaðar, þótt tegundin hafi tekið aðeins við sér frá miðjum tíunda áratugnum, þegar aðeins rúmlega 2.400 dýr voru talin vera eftir. Veiðiþjófnaður er helsta ógn svarta nashyrningsins, en vopnuð átök í álfunni hafa einnig bitnað illa á dýrunum.

Hvítur nashyrningur.

 
Nú er svo komið að hin afríska tegundin, hvíti nashyrningurinn, er eina nashyrningstegundin sem er ekki á válista. Hún telst þó vera í nokkurri hættu. Önnur af tveimur undirtegundum hvíta nashyrningsins er í bráðri útrýmingarhættu.

 

Flóðhestur

Flóðhestur, sem er þriðja stærsta landdýrið, finnst víða um Afríku, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar. Þótt honum svipi til svína og fleiri klaufdýra er hann í raun skyldastur hvölum. Árið 1996 voru flóðhestastofnar taldir útbreiddir og ekki í hættu. Nú er hins vegar áætlað að á síðustu tíu árum hafi flóðhestum fækkað um 7-20%. Talið er líklegt að á um 30 árum fækki þeim um meira en 30%.

Rányrkja og minnkandi kjörlendi eru ástæður fækkunarinnar. Engar vísbendingar eru um að það dragi úr þessum ógnum á næstunni. Flóðhestar teljast því í yfirvofandi hættu.

Útbreiðslusvæði flóðhestsins fyrr (rautt) og nú (grænt).

 

 

Sebrahestar

Þrjár tegundir sebrahesta eiga heimkynni sín á afrískri grund: Greifasebri (á myndinni), sem er stærstur, telst vera í útrýmingarhættu, fjallasebri er í yfirvofandi hættu, en sléttusebri er ekki talinn vera í hættu.

Sléttusebrar voru taldir vera um 660 þúsund árið 2002. Þótt tegundin í heild sé ekki talin í hættu hafa minnkandi kjörlendi og ofveiðar orðið til þess að sléttusebrum hefur fækkað á sumum svæðum.

Talið er að greifasebrum hafi fækkað um meira en helming síðustu 18 ár, og að nú séu aðeins 750 fullorðin dýr eftir. Helstu hættur, sem steðja að tegundinni, eru vatnsskortur, minnkandi og versnandi kjörlendi vegna ofbeitar, samkeppni um auðlindir, veiðar og sjúkdómar. 

 

Ljón

Þótt konungur dýranna kunni að virðast ósnertanlegur er það alls ekki raunin. Áætlað er að ljónum hafi fækkað um 43% á árunum 1993-2014 og teljast þau því í yfirvofandi hættu. Helstu ástæður fækkunarinnar eru dráp til verndar mönnum og búpeningi, minnkandi kjörlendi og fækkun hjá þeim tegundum sem ljónin veiða sér til matar.

Ljón er nú aðeins að finna í Afríku, sunnan Sahara-eyðimerkurinnar, og á litlu, afmörkuðu svæði á Indlandi. Áður fundust þau mun víðar. Talið er að síðustu ljónin í Norður-Afríku hafi jafnvel lifað fram um 1940. Í Suðvestur-Asíu hurfu þau aðallega á síðustu 150 árum, en í Evrópu fyrir næstum 2.000 árum.

Útbreiðslusvæði ljónsins fyrr (rautt) og nú (blátt).

 

 

Tígrisdýr

Stærsta kattardýrið var eitt sinn á ferli víða um Asíu, frá Tyrklandi í vestri, yfir á austurströnd Rússlands. Á síðustu 100 árum hafa tígrísdýr aftur á móti horfið úr Suðvestur- og Mið-Asíu, af Jövu og Balí í Indónesíu og af stórum svæðum í Suðaustur- og Austur-Asíu. Núverandi kjörlendi þeirra er aðeins 6% af því sem áður var, og er talið hafa minnkað um langt yfir helming á 21 ári. Tígrisdýr teljast því í útrýmingarhættu.

Hnignunin heldur áfram og svo virðist sem tveir tilteknir stofnar hafi horfið á síðustu árum, annar í Laos og hinn í Taílandi. Árið 2006 var talið að stofnar, sem geta af sér afkvæmi, fyndust í 13 löndum, en nú eru þeir aðeins í átta ríkjum: Bangladess, Bútan, Indlandi, Indónesíu, Malasíu, Nepal, Taílandi og Rússlandi.

Veiðþjófnaður er helsta ógnin sem steðjar að tígrisdýrum, og hefur leitt til þess að tígrisdýr hafa nýverið horfið af stórum svæðum sem annars væru hentug búsvæði fyrir þau. Þá hafa aukin umsvif mannsins veruleg áhrif á kjörlendi tígrisdýra.

 

Blettatígur

Blettatígurinn hleypur hraðast allra landdýra, getur náð 110-120 km hraða á klukkustund. Talið er að eitt sinn hafi tegundin lifað á meira en 25 milljón ferkílómetra svæði í Afríku og Asíu, en nú hefur búsvæðið minnkað um 89% og telst blettatígurinn vera í yfirvofandi hættu.

Tegundin er sérstaklega viðkvæm fyrir því að tapa hluta af kjörlendi sínu, þar sem blettatígrar eru mjög dreifðir um heimkynni sín, og aldrei búa mikið fleiri en tveir einstaklingar á hverjum 100 ferkílómetrum. Strjálbýlið gerir það að verkum að blettatígurinn þarfnast mun stærri landsvæða til að þrífast en aðrar kjötætur.

Útbreiðslusvæði blettatígra fyrr og nú. Ljósasti liturinn sýnir fyrri heimkynni, en þeir dekkri núverandi heimkynni, eftir því hversu mörg dýr finnast á tilteknu svæði.

 

 

Hvítabjörn

Hvítabjörninn er eina landdýrið á þessum lista sem á það til að flækjast til Íslands. Tegundin lifir um ísilögð höf norðurskautssvæðisins. Hvítabirnir sem hafa aðgang að hafís allt árið geta veitt sér til matar árið um kring. Á svæðum þar sem ísinn bráðnar alveg á sumrin neyðast þeir hins vegar til að verja nokkrum mánuðum á landi, þar sem þeir fasta yfirleitt og lifa á fituforða vetrarins, þar til sjóinn leggur á ný.

Heimkynni hvítabjarna eru í Kanada og Alaska, á Grænlandi, í Noregi og Rússlandi og á Svalbarða og Jan Mayen. Í Kanada finnast þeir allt suður að ströndum Nýfundnalands, sem er á svipaðri breiddargráðu og norðurströnd Frakklands.

Spá um þykkt hafíssins á norðurslóðum 2050, í samanburði við árið 1950. Mynd: NOAA 

 

Hvítabjörninn þarf að horfast í augu við ýmsar ógnir sem gætu haft áhrif á tegundina í framtíðinni. Alvarlegust er bráðnandi hafís af völdum loftslagsbreytinga. Ísinn hefur hingað til bráðnað hraðar en spár hafa gert ráð fyrir. Áframhaldandi hlýnun á eftir að auka óvissu og ógna alvarlega velferð tiltekinna stofna hvítabjarnarins. Tegundin telst því vera í yfirvofandi hættu.

 

Pandabjörn

Drekinn hefur löngum verið þjóðartákn Kína, og var til að mynda á fyrsta kínverska þjóðfánanum. Utan landsteinanna hefur pandabjörninn að nokkru leyti tekið við þessu hlutverki, enda hefur umheimurinn lengi verið áhugasamur um verndun þessa sjaldgæfa og sérkennilega bjarndýrs.

Núverandi heimkynni pandabjarnar takmarkast við sex einangraða fjallgarða í þremur héruðum í Kína. Björninn lifir í 1200-4100 metra hæð yfir sjávarmáli. Verulegar loftslagsbreytingar og mörg þúsund ára jarðrækt og veiðar hröktu tegundina upp af láglendinu.

Útbreiðslusvæði pandabjarna í Kína.

 

Talið er að innan við 2.500 fullorðnir pandabirnir lifi villtir í náttúrunni. Pöndum hefur almennt fækkað, að minnsta kosti þar til nýlega, en vonir eru bundnar við að þróunin hafi nú snúist við. Það er þó enn óvíst. Pandabjörninn er því talinn vera í útrýmingarhættu.

 

Steypireyður

Steypireyðurin finnst um öll heimshöfin, nema í Norður-Íshafi. Hún er um 30 metra löng og vegur meira en 180 tonn, og er stærsta dýrategund sem vitað er til að hafi lifað á jörðinni. Til samanburðar er áætlað að sú risaeðlutegund sem er talin hafa verið þyngst, finngálkn, hafi vegið innan við 60 tonn. Talið er að með veiðum hafi verið gengið á steypireyðarstofnana sem nemur 70-90% á rúmlega 90 árum. Tegundin er því talin í útrýmingarhættu.

Ástandið er verst í suðurhöfum, þar sem stærsti stofninn lifði áður en hvalveiðar hófust. Þar hefur steypireyði fækkað um 97% á rúmlega 90 árum og telst undirtegundin sem þar lifir í bráðri útrýmingarhættu. Talið er að yfir 200 þúsund dýr hafi verið þar áður en rányrkjan hófst. Fæst hafi dýrin orðið innan við 400 á áttunda áratugnum, en hafi síðan fjölgað í um 2.000 dýr.

Ofveiðar voru mesta ógn steypireyða áður fyrr. Veiðar hófust í Norður-Atlantshafi 1868 og breiddust til annarra svæða um 1900, eftir að harkalega hafði verið gengið á stofnana í Norður-Atlantshafi, þar á meðal við Íslandsstrendur. Talið er að í Norður-Atlantshafi, líkt og í suðurhöfum, hafi steypireyðum fækkað niður í nokkur hundruð þegar ástandið var verst.

Steypireyður hefur verið alfriðuð síðan 1966, en ólöglegar veiðar Sovétmanna stóðu til 1972. Síðustu skráðu veiðar voru undan Spánarströndum 1978.

Steypireyður í samanburði við manneskju.

 

 

Langreyður

Áður en nútíma hvalveiðar hófust, seint á 19. öld, var langreyður, líkt og steypireyður, að mestu laus við veiðar manna því of erfitt var að fanga hana. Gengið var á tegundina með hvalveiðum á 20. öld, en hún hefur verið friðuð í Norður-Kyrrahafi frá 1975 og í Norður-Atlantshafi frá 1990, ef frumbyggjaveiðar við Grænland eru undanskildar.

Íslendingar hófu aftur umdeildar veiðar í atvinnuskyni 2006, í trássi við alþjóðlegt hvalveiðibann. Japanar hófu veiðar í tilraunaskyni í Suðurhöfum 2005. Talið er að langreyðum í heiminum hafi fækkað um meira en 70% á árunum 1929-2007, en fari nú líklega fjölgandi vegna lítilla veiða. Tegundin telst þó í útrýmingarhættu.

 

Búrhvalur

Hvalveiðar í atvinnuskyni hafa verið helsta ógnin við búrhvalinn, líkt og við steypireyðina og langreyðina. Takmarkaðar upplýsingar eru til um fjölda búrhvala í gegnum tíðina, en talið er fullvíst að þeim hafi fækkað í heimshöfunum á síðustu rúmlega 80 árum. Tegundin telst í yfirvofandi hættu.

Einhverjir tugir búrhvala hafa verið veiddir á litlum bátum við strendur Indónesíu síðustu áratugi, þótt engar veiðar hafi farið fram á allra síðustu árum. Japanar veiða tíu búrhvali á ári. Ýmsir aðrir þættir ógna búrhvölum, til dæmis eiga þeir til að festast í veiðarfærum skipa, sem hefur verið sérstakt vandamál í Miðjarðarhafi.

 

Kameldýr

Núlifandi úlfaldar skiptast í tvær tegundir; drómedara, sem hafa einn hnúð á baki, og kameldýr, sem hafa tvo hnúða. Langflest dýrin eru höfð sem húsdýr. Einu villtu úlfaldarnir í heiminum í dag eru hjarðir kameldýra í Góbí- og Taklamakan-eyðimörkunum í Mongólíu og Kína. Tegundin telst í bráðri útrýmingarhættu.

Veiðimenn sækja að tegundinni, aðallega vegna þess að dýrin keppa um vatn og beitarland við kameldýr sem eru alin af mönnum, en sportveiði tíðkast einnig. Námugröftur og iðnaðaruppbygging gætu ennfremur skaðað kínverska stofninn, svo og kynblöndun við kameldýr sem eru alin af mönnum, og aukin samkeppni við manninn. Þá hafa þurrkar valdið því að úlfar sækja í auknum mæli í kameldýrin.

Árið 2004 voru um 600 kameldýr eftir í Kína og 350 í Mongólíu, og fór fækkandi. Til samanburðar voru 650 dýr í Mongólíu árið 1985. Óttast er að kameldýrum fækki um að minnsta kosti 84% á næstu 45-50 árum.

 

Lemúrar

Stór hluti þeirra um það bil 100 lemúrategunda, sem finnast á eynni Madagaskar í Indlandshafi, telst annað hvort í útrýmingarhættu eða bráðri útrýmingarhættu. Lemúrar komu til eyjarinnar fyrir 62-65 milljónum ára. Til marks um fjölbreytni lemúra vegur smæsta tegundin aðeins 30 grömm, en tegund, sem talið er að hafi dáið út fyrir ekki nema rúmlega 2.000 árum, var á stærð við fullvaxna karlgórillu.

Útbreiðsla lemúrategunda á Madagaskar.

 

Þekktasta lemúrategundin er líklega lemur catta, sem á íslensku hefur verið kallaður hringrófulemúr eða kattalemúr. Þótt tegundin sé sveigjanleg og finnist á stóru svæði er hún afar dreifð og mismunandi heimkynni hennar eru einangruð hvert frá öðru. Talið er að kattalemúrum kunni að fækka um 50% eða meira á tæplega 40 ára tímabili. Ástæðurnar eru minnkandi og versnandi kjörlendi og ofveiði.

Kattalemúrinn er þekktur fyrir óvenju langa og skrautlega rófu.

 

 

Órangútanar

Sex dýrategundir af ætt mannapa lifa nú á jörðinni, fyrir utan manninn. Allar eru í útrýmingarhættu. Fjórar þeirra, tvær górillutegundir og tvær simpansategundir, búa í Afríku. Hinar tvær eru Borneó-órangútaninn og Súmötru-órangútaninn sem eru kenndir við asísku eyjarnar sem eru heimkynni þeirra.

Útbreiðsla órangútana á eyjunum Súmötru og Borneó í Suðaustur-Asíu.

 
Órangútanar eru meðal greindustu prímatanna. Þeir verja tíma sínum að mestu í trjám og eru ekki eins félagslyndir og aðrir mannapar.

Eyjan Borneó skiptist milli þriggja ríkja: Indónesíu, Malasíu og Brúnei. Heimkynni Borneó-órangútansins eru á malasíska og indónesíska hluta eyjarinnar. Áætlað er að á milli 45 þúsund og 69 þúsund apar búi á eyjunni. Þeim hefur fækkað um vel yfir 50% síðustu 60 ár.

Búist er við að þeim haldi áfram að fækka með sama hraða, og eru þeir taldir í útrýmingarhættuAðalástæðan er eyðing skóga, bæði af völdum aukinnar landnýtingar og skógarelda. Meirihluti þeirra sem eftir eru í náttúrunni býr utan verndarsvæða, í skógum sem eru annað hvort hagnýttir til timburframleiðslu eða sem verið er að ryðja fyrir landbúnað. Þar að auki stafar Borneó-órangútaninum ógn af veiðiþjófum og mönnum sem selja þá sem gæludýr.

Súmötru-órangútaninn er mun sjaldgæfari. Áætlað er að um 7.300 dýr búi á norðurhluta indónesísku eyjarinnar sem tegundin er kennd við, en áður fyrr fundust órangútanar víðar um eyna. Áætlað er að öpunum hafi fækkað um meira en 80% á síðustu 75 árum. Ekkert lát er á fækkuninni, enda er skógunum mjög ógnað. Líkt og á Borneó búa flestir órangútanar utan verndarsvæða. Tegundin er talin vera í bráðri útrýmingarhættu.

Skógarhögg, bæði löglegt og ólöglegt, ógnar Súmötru-órangútaninum. Það gerir líka sala á skóglendi, í því skyni að ryðja skóginn fyrir landbúnað eða koma upp plantekrum til pálmaolíuframleiðslu. Vegir skera ennfremur í sundur heimkynni apanna. Að auki er Súmötru-órangútönum rænt og þeir seldir sem gæludýr. 

 

Górillur

Górillur greinast í tvær tegundir, austurgórillu og vesturgórillu. Austurgórillan finnst í Rúanda, Úganda og austurhluta Austur-Kongó. Vesturgórillan lifir í Kamerún, Mið-Afríkulýðveldinu, Miðbaugs-Gíneu, Gabon, Nígeríu, Vestur-Kongó og Cabinda-héraði, sem tilheyrir Angóla, en einnig mögulega í Austur-Kongó.

Útbreiðslusvæði vesturgórilla og austurgórilla í Afríku.

 

 

Austurgórillan hefur orðið fyrir alvarlegum áhrifum af umsvifum manna. Tegundin er veidd, meira nú en áður, í stríðshrjáðum austurhluta Austur-Kongó. Kjörlendi apanna er jafnframt eyðilagt og skemmt með námugreftri og landbúnaði. Áætlað er að austurgórillum hafi fækkað verulega síðustu 20-30 ár, og óttast er að fækkunin haldi áfram næstu áratugi. Tegundin telst því vera í útrýmingarhættu.

Vesturgórillan er enn verr stödd og telst vera í bráðri útrýmingarhættu. Vesturgórillum hefur fækkað um meira en 80% á tæplega 70 árum. Þetta orsakast af óvenju miklum veiðum og dauða af völdum sjúkdóma. Veiðþjófnaður er alvarlegt vandamál á flestum verndarsvæðum, og næstum helmingurinn af verndarsvæðum hefur orðið illa fyrir barðinu á ebólu. Górillur fjölga sér ákaflega hægt, og bjartsýnustu útreikningar gera ráð fyrir að 75 ár tæki fyrir tegundina að ná sér, ef sóknin gegn henni yrði stöðvuð. Talið er að mun fyrr, hugsanlega eftir 20-30 ár, verði minnkandi og versnandi kjörlendi, af völdum landbúnaðar, timburframleiðslu, námuvinnslu og mögulega loftslagsbreytinga, orðið meiriháttar ógn fyrir apana.

 

Simpansar

Þótt 4-7 milljónir ára séu síðan menn og simpansar greindust frá sameiginlegum forfeðrum sínum er erfðaefni þessara nánustu ættingja okkar enn í dag vel yfir 90% það sama og mannsins. Simpansar greinast í tvær tegundir, simpansa og bónóbó-simpansa. Heimkynni þeirra eru í rúmlega 20 Afríkulöndum sem liggja nærri miðbaug, en bónóbó-simpansinn finnst þó aðeins í Austur-Kongó.

Úbreiðslusvæði simpansa (gult, grænt, fjólublátt og blátt) og bónóbó-simpansa (rautt) í Afríku.

 
Tegundin simpansi er bæði algengust og útbreiddust allra mannapa. Talið er að innan hennar séu á bilinu 170-300 þúsund dýr, og margir stofnar búa á verndarsvæðum. Samt telst simpansinn í útrýmingarhættu. Talið er að öpunum hafi fækkað verulega á síðustu 20-30 árum, og búist er við að fækkunin haldi áfram næstu áratugi. Ástæðurnar eru mikill veiðiþjófnaður, og eyðilegging og skemmdir á náttúrulegum heimkynnum vegna aukinna umsvifa mannsins. Talið er að meira en 80% af skógum Mið- og Vestur-Afríku séu horfnir. Búist er við að hröð mannfjölgun í álfunni valdi því að skógar verði áfram ruddir í stórum stíl og þeim breytt í ræktarland. Skógarhögg, olíu- og gasvinnsla og smitsjúkdómar ógna einnig tilveru simpansans.

Staða bónóbó-simpansans er um flest svipuð og sömu hættur steðja að mestu að honum. Pólitískur óstöðugleiki í Austur-Kongó bætir ekki úr skák. Tegundin er því einnig talin í útrýmingarhættu.

Veiðiþjófar sækja hart að báðum tegundum. Simpansar eru ýmist veiddir vegna kjötsins, í lækningaskyni eða til verndar ræktarlandi. Veiðar í vísindaskyni eru enn leyfðar í sumum ríkjum, þar á meðal Gíneu. Loks er simpönsum rænt frá heimkynnum sínum og þeir seldir sem gæludýr. Ef simpansaungi er fangaður bendir það yfirleitt til að móðirin, og jafnvel fleiri úr samfélagi simpansans, hafi verið drepin.

 

Ekki öll sagan sögð

Þessar dýrategundir eru aðeins brot af þeim fjölda sem á undir högg að sækja um allan heim. Til dæmis teljast jagúar og hlébarði í nokkurri hættu og þótt gíraffar teljist ekki í hættu eru vísbendingar um að þeim hafi fækkað og talið að sumir gíraffastofnar í norðurhluta Afríku geti verið í hættu. Ástæðurnar eru kunnuglegar: veiðiþjófnaður, versnandi ástand náttúrulegra heimkynna og vopnuð átök. Þá eru takmarkaðar upplýsingar til um ástand sumra dýrategunda, eins og háhyrninga. Einnig eru fjölmargar minna þekktar spendýrategundir í útrýmingarhættu eða bráðri útrýmingarhættu. Þá eru ótaldar allar aðrar tegundir lífvera, á borð við skriðdýr, fiska og fugla, skordýr, blóm og trjátegundir.

 

Fábreyttari veröld

Í langri sögu lífs á jörðinni hafa nýjar tegundir jafnan þróast og komið í staðinn fyrir þær sem deyja út. Útrýming lífvera af mannavöldum er hins vegar svo hröð að þróunin heldur ekki í við hana. Hröð hnignun í fjölbreytileika lífs á jörðinni gæti orðið einkenni okkar tíma, og heimurinn sem komandi kynslóðir búa í orðið mun fábreyttari fyrir vikið. Hraður uppgangur mannsins gæti því orðið einar mestu hörmungar á plánetunni í tugi milljóna ára. Þá eru ótaldar ómældar þjáningar hvers og eins dýrs sem verður fyrir barðinu á eyðileggingunni.

tryggvia's picture
Tryggvi Aðalbjörnsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi