Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stjórnsýslukæra því læknir fær ekki samning

13.05.2018 - 19:16
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Íslenskur læknir í Bandaríkjunum hefur lagt fram stjórnsýslukæru því hann fær ekki samning við Sjúkratryggingar, þó svo að skortur sé á læknum í hans sérgrein. Umsókn var hafnað á grundvelli ákvörðunar ráðherra um að loka fyrir að fleiri læknar fái aðild að rammasamningi Sjúkrtryggingar. Læknirinn segir sjúklingum mismunað og formaður Læknafélags Reykjavíkur segir ástandið alvarlegt.

Anna Björnsdóttir lauk sérfræðinámi í Parkinsons-sjúkdómum í Bandaríkjum í fyrra og vinnur á Duke háskólasjúkrahúsinu í Norður-Karólínu, og hafa henni verið boðnar góðar stöður á nokkrum öðrum sjúkrahúsum þar í landi. Hún hefur alltaf viljað koma heim eftir nám, og þegar hún sótti um sérfræðinámið skrifaði landlæknir bréf til bandarískra heilbrigðisyfirvalda um að mikil þörf væri fyrir lækna með þessa sérhæfingu. Hún lagði inn umsókn hjá Sjúkratryggingum um að opna stofu, það er aðild að rammasamningi Sjúkratrygginga Íslands. 

„Henni var hafnað á þeim forsendum um að það væri tilskipun frá ráðherra, að ekki væru fleiri læknar teknir inn á samninginn. En eins og reglur gera ráð fyrir þá á slík umsókn að fara fyrir nefnd þar sem metin er hæfni og þörf, en það var ekki gert,“ segir Anna. Hún hefur búið í Bandaríkjunum í sex ár. 

Í janúar sendi hún stjórnsýslukæru til velferðarráðuneytisins, vegna ákvörðunar Sjúkratrygginga. Hún segir að sjúklingum með Parkinsons og hreyfiraskanir sé best sinnt utan sjúkrahúsa; á stofum eða göngudeildum. Fyrir fimmtán árum hafi níu taugalæknar verið með stofu, nú séu þeir fjórir og þar af aðeins tveir í meira en hálfu starfi. 

„Þörfin er gríðarlega mikil. Það er meiri en þriggja mánaða bið eftir að komast að hjá taugalækni á stofu.“

Það sé lengri tími en reglur evrópska efnahagssvæðisins kveði á um. 

„Þannig að já, ég tel að mínum sjúklingahópi sé mismunað.“

Anna á von á svari fyrir maílok. Fleiri læknar eru í sömu sporum og hún, og reyndar hafa átta þeirra höfðað mál fyrir héraðsdómi af sömu ástæðu, sem tekið verður fyrir í september. Sérfræðilæknar eru í Læknafélagi Reykjavíkur. Þórarinn Guðnason hjartalæknir er nýr formaður þess: 

„Við höfum mjög miklar áhyggjur af þessu, vegna þess að læknisfræði er þekkingariðnaðar og þar er mjög mikilvægt að þekkingin komi heim á ný. Þannig að það er alvarlegt þegar að nýliðun stöðvast, og við skorum á heilbrigðisráðherra að opna þennan samning og drífa nú í því.“

Dæmi eru um að sérfræðilæknar utan samnings hafi opnað stofu, og þá þurfa sjúklingar að borga fullt verð. Það geta ekki allir, segir Þórarinn. 

„Þessi stöðvun á nýliðun er mjög alvarleg, sérstaklega í greinum þar sem er skortur eins og í hjartalækningum, taugalækningum, gigt, en það má líka nefna dæmi eins og krabbameinslækningar og þar eru núna þrír sérfræðilæknar á stofu og meðalaldur þeirra er 71 ár.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Þór Ægisson / Karl New - RÚV
Þórarinn Guðnason formaður Læknafélags Reykjavíkur.