Athugið þessi frétt er meira en 5 ára gömul.

Stjórnmálamenn fordæma launahækkun

01.11.2016 - 10:31
Mynd með færslu
Birgitta Jónsdóttir hvetur þingmenn til að hafna launahækkuninni. Mynd: AP Images - RÚV
Nokkrir stjórnmálamenn hafa stigið fram og gagnrýnt þá ákvörðun kjararáðs að hækka laun kjörinna fulltrúa um hundruð þúsunda króna. Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist hafa sett sig í samband við skrifstofu Alþingis til að athuga hvort og þá hvernig hún geti afþakkað launahækkunina. Dagur B. Eggertsson borgarstjóri segir að hækkunin verði ekki látin ná til launa borgarfulltrúa, sem eru ákvörðuð sem hlutfall af þingfararkaupi.

Oddvitar tveggja stærstu flokkanna í borgarstjórn Reykjavíkur hafa gagnrýnt launahækkunina í færslum á Facebook. Þeir segja báðir að hækkunin gangi gegn þeirri stefnu sem mótuð hafi verið í vinnumarkaðsmálum.

Halldór Halldórsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins í Reykjavík, segir að niðurstöðu kjararáðs verði breytt og sé ekki heilbrigt innlegg í sátt á vinnumarkaði. Dagur B. Eggertsson, borgarstjóri og oddviti Samfylkingarinnar, í Reykjavík, segir að það gangi ekki að laun toppanna í samfélaginu hækki langt umfram þær línur sem sömu toppar hafi lagt varðandi kjaraþróun í landinu. Hann skorar á nýja ríkisstjórn og nýtt Alþingi að gera það að sínu fyrsta verki að grípa þarna inn í. Hann segir í athugasemdum við færslu sína á Facebook borgin taki sín hlaun einhliða niður ef Alþingi aðhefst ekki. Laun borgarfulltrúa eru ákveðið hlutfall af þingfararkaupi.

Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, gagnrýnir ákvörðunina og tekur fram að Píratar hafi ekkert með skipun ráðsins að gera. Hún segir það hafa komið sér jafnmikið á óvart og öðrum að launin væru hækkuð „svona fáránlega mikið korteri eftir kosningar“ og segist hafa sett sig í samband við Alþingi til að athuga hvort hún geti afsalað sér launahækkuninni. 

Flokksbróðir hennar Björn Leví Gunnarsson sagði í gær að þetta væri alltof mikil hækkun í einu skrefi. 

Þorsteinn Víglundsson, þingmaður Viðreisnar og fyrrverandi framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, sagði í Morgunútvarpinu á Rás 2 í morgun að bæta þyrfti gagnsæi í ákvörðunum kjararáðs. Hann gagnrýndi að hópar sem heyra undir kjararáð drægjust löngum aftur úr og væru síðan rifnir upp með miklum hækkunum á nokkurra ára fresti. Hann vildi fara yfir launahækkanirnar og bera saman við launaþróun síðustu ára.

Pawel Bartoszek, félagi Þorsteins í Viðreisn, segir á Facebook-síðu sinni í morgun að hækkun þingfarakaups sé of mikil og peningarnir til að borga þau teknir af öðru fólki með valdi. Hann segir algjört rugl að hann hækki í launum við að setjast á þing eftir að hafa verið verkefnastjóri hjá alþjóðlegu stórfyrirtæki.

Tveir þingmenn Sjálfstæðisflokksins í Suðurkjördæmi svara spurningum um kauphækkanir á Facebook. Vilhjálmur Árnason segir að hann viti ekki hvað honum eigi að finnast um kjararáð. Hann svarar ekki efnislega um kauphækkunina en segir að ein leiðin til að breyta þessu sé að leggja niður kjararáð og láta Alþingi ákvarða laun sín áður en hverju kjörtímabili lýkur. Ásmundur Friðriksson bendir á að kjararáð vinni samkvæmt lögum og hann hafi fyrst frétt af þessu í gærkvöld og hafi ekki séð rökstuðninginn. Hann segir að örugglega megi deila um allar niðurstöður ráðsins en telur mikilvægt að ráðið komi með sína úrskurði í framhaldi af launahækkunum á almennum markaði.

Brynjólfur Þór Guðmundsson
Fréttastofa RÚV