Stjórnmál kakkalakkans

Mynd: RÚV / RÚV

Stjórnmál kakkalakkans

18.09.2019 - 20:48

Höfundar

Ian McEwan er einn fremsti rithöfundur okkar tíma, og margar skáldsögur hans, eins og Elíf ást (Enduring love) og Friðþæging (Atonement) hafa farið sigurför um heiminn. McEwan veitir viðtöku nýjum alþjóðlegum bókmenntaverðlaunum, kenndum við Halldór Laxness, á morgun.

McEwan fjallar gjarnan um dekkri hliðar mannlegrar tilveru og í nýjustu skáldsögu sinni, Vélar eins og ég (Machines like me) tekur hann fyrir siðferðislegar spurningar sem vakna þegar tölvur og gervigreind leika sífellt stærra hlutverk í lífi okkar. McEwan hefur barist og skrifað gegn útgöngu Breta úr Evrópusambandinu, og bókin fjallar að nokkru leyti um Brexit.

McEwan segir það mikinn heiður að hljóta Alþjóðleg bókmenntaverðlaun Halldórs Laxness, og ekki bara að verða fyrstur til að hljóta þau. Halldór njóti mikillar virðingar meðal rithöfunda víða um heim, og hann sé sammála aðdáendum Sjálfstæðs fólks.

„Jonathan Franzen telur hana eina bestu skáldsögu allra tíma,” segir hann. “Hún er ótrúlega víðfeðm.”

Hinn ósennilegi samtími

Halldór Laxness og Ian McEwan eiga það sammerkt að hafa skrifað um umdeild samfélagsmál og pólitík. Nýjasta skáldsaga McEwans gerist árið 1982, en það er annað 1982 en það sem við þekkjum. Bretar tapa Falklandseyjastríðinu og segja sig í kjölfarið úr Evrópusambandinu, og tækninni hefur miðað miklu meira fram en gerðist í raun, vegna þess að snillingurinn og faðir tölvutækninnar, Alan Turing, deyr ekki ungur heldur lifir og nær að þróa hugmyndir sínar betur. Því eru einkatölvur, tölvupóstur, og jafnvel gervimenni hluti af daglegu lífi 9. áratugarins í bókinni.

McEwan segir að nútíminn sé fremur ólíkleg niðurstaða fortíðarinnar, ótrúlegar raðir tilviljana hafi leitt til hans, og það sé áhugavert að velta því fyrir sér hvað hefði getað orðið í staðinn. Hann segir að Brexit hafi lætt sér inn í Vélar eins og ég, þótt það hafi ekki verið ætlunin. Hann hefur áhyggjur af stjórnmálaþróuninni á Vesturlöndum, og kveðst hafa þörf fyrir að skrifa um málefni líðandi stundar. Hann tekur loftslagsbreytingar sem dæmi.

„Popúlískir stjórnmálamenn eru ekki áhugasamir um að bregðast við loftslagsbreytingum,” segir hann. “Ég held að við sem tegund eigum miklar þjáningar í vændum vegna þessa.”

Nýjasta skáldverk McEwans kemur út í næstu viku. Það er nóvellann Kakkalakkinn, the Cockroach, sem er að nokkru leyti byggð á Hamskiptum Franz Kafka, en í stað þess að vakna sem risastórt skordýr vaknar aðalsöguhetjan við það að vera orðinn forsætisráðherra Bretlands.

„Já, sagan er um kakkalakka sem vaknar við það að vera orðinn forsætisráðherra,” segir McEwan. “Ég ætla ekki að gefa í skyn að stjórnmálamenn séu eins og kakkalakkar, en ég held að andi kakkalakkans hafi tekið sér bólfestu í stjórnmálum okkar. Ég spurði mig hvað ég gæti gert við því, og svarið var að skrifa pólitíska satíru.”

McEwan hefur verið einn harðasti gagnrýnandi Brexit og hefur lýst yfir efasemdum um þjóðaratkvæðagreiðslur almennt. Ein persóna Véla eins og ég hefur að orði að aðeins harðstjórnir eins og Þýskaland nasismans hafi notað þjóðaratkvæðagreiðslur til að taka mikilvægar ákvarðanir, og yfirleitt hafi niðurstaðan verið afleit.

„Þjóðaratkvæðagreiðslur er ágætar fyrir einfaldar já og nei spurningar,” segir McEwan. „En þegar spurningarnar eru eins mikilvægar og Evrópusambandið, eða eitthvað sem breytir stjórnarskránni, þá á að þurfa aukinn meirihluta til að breyta lögum. Annars klofnar þjóðin í tvennt, eins og hefur gerst hjá okkur.“

En þetta var lýðræðisleg niðurstaða almennra kosninga, er ekki sjálfsagt að fylgja henni?

„Fyrir skömmu var gerð almenn viðhorfskönnun í Bretlandi, þar sem í ljós kom að stór hluti vildi öflugan leiðtoga sem gæti tekið fram fyrir hendurnar á þinginu. Fyrir örfáum áratugum var meirihluti fylgjandi dauðarefsingu. Það er ákveðin tilhneiging til afturhalds sem maður vill ekki ýta undir hjá almenningi,“ segir McEwan.

Er það ekki elítismi?

„Það kann að vera, en þegar maður stígur um borð í flugvél vill maður að afburðaflugmaður stýri vélinni.”