Stjórnin fallin í Færeyjum

31.08.2019 - 22:38
Mynd með færslu
 Mynd: Kringvarpið
Fólkaflokkurinn er stærsti sigurvegari þingkosninganna í Færeyjum. Flokkurinn hlaut hátt í fjórðung atkvæða, og bætti við sig rúmum fjórum prósentustigum frá síðustu kosningum. Flokkurinn var sá eini hefðbundnu flokkunum sem bætti við sig fylgi.

Fólkaflokkurinn hlýtur 8 þingsæti af 33 á færeyska þinginu, bætir við sig tveimur sætum frá síðustu kosningum. Sambandsflokkurinn hlýtur einum fleiri þingmann miðað við síðustu kosningar og fær sjö þingsæti, eins og Jafnaðarflokkurinn, sem tapar einum manni frá því fyrir fjórum árum.  Þjóðveldisflokkurinn tapar einnig einum þingmanni, hlýtur sex þingsæti, Miðflokkurinn og Framsókn tvo, og loks hlýtur Sjálfstjórnarflokkurinn einn þingmann, í stað tveggja áður.

Stjórn Þjóðveldisflokksins og Jafnaðarflokksins er því fallin, en hún naut stuðnings Sjálfstjórnarflokksins og Framsóknar. Á vef Kringvarpsins segir að úrslitin bendi til þess að Fólkaflokkurinn og Sambandsflokkurinn reyni að mynda stjórn með stuðningi smærri flokkanna. Stóra spurningin sé hins vegar hvort Aksel Johannesen, núverandi forsætisráðherra og formaður Jafnaðarflokksins, vilji láta reyna að samstarf við Sambandsflokkinn og einhverja smærri flokka. Það þykir stjórnmálaskýrendum Kringvarpsins þó ólíklegt.

Færeyjaflokkurinn og Framtakið fyrir réttinum að neyta kannabis voru nýir flokkar á kjörseðli Færeyinga, en nutu ekki hylli nógu margra til að koma mönnum á þing.

Róbert Jóhannsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi