Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarskrárbreytingar lagðar fyrir þingið í haust

09.02.2020 - 19:23
Mynd með færslu
 Mynd:
Forsætisráðherra stefnir á að tillögur að endurskoðun stjórnarskrárinnar verði lagðar fyrir þingið í haust, jafnvel þótt ekki náist um þær þverpólitísk samstaða. Stjórnarandstæðingar efast um að hægt verði að ljúka því sem stefnt var að á þessu kjörtímabili.

Kristján IX Danakonungur færði Íslendingum þeirra fyrstu stjórnarskrá 1874. Síðan fengum við nýja 1918 og aðra 1944, sem hefur að uppistöðu til gilt síðan.

Það hefur verið reynt að breyta stjórnarskránni í grundvallaratriðum nokkrum sinnum – síðast fyrir fjórum árum, en það hefur sannast sagna gengið mjög erfiðlega. En nú er aftur reynt – í stjórnarsáttmálanum er kveðið á um heildarendurskoðun á tveimur kjörtímabilum.

Mynd með færslu
 Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson - RÚV
Styttan af Kristjáni IX með stjórnarskrána, fyrir utan Stjórnarráðshúsið.

Mikilvægt að allir formennirnir vinni saman

Unnur Brá Konráðsdóttir, fyrrverandi þingforseti, er verkefnastjóri stjórnarskrárbreytinga hjá Forsætisráðuneytinu. Spurð af hverju þetta verkefni ætti að ganga betur núna en í fyrri tilraunum segir hún að aðferðafræðin – að láta formenn allra flokka á þingi vinna saman að verkinu – sé lykilatriði. Auk þess bendir hún á það hafi áður verið gerðar breytingar á stjórnarskránni frá 1944.

„Stærsta breytingin þegar mannréttindakafli stjórnarskrárinnar kom inn. Ég hef talað við þingmenn sem tóku þátt í þeirri vinnu – það var ekki einfalt að ná saman um niðurstöðu þar en það tókst og það sýnir okkur að það er hægt að breyta stjórnarskránni,“ segir Unnur.

Segir að mark verði tekið á skoðunum almennings

Ferlið er þannig að flokksformenn funda um hvern málaflokk. Ef ástæða þykir til breytinga smíða þeir frumvarpsdrög sem fara í samráðsgátt og þaðan aftur til formannanna áður en fullbúið frumvarp fer inn í þingið. Til hliðsjónar hafa formennirnir niðurstöður kannanna sem lagðar eru fyrir almenning, meðal annars svokallaðrar rökræðukönnunar, þar sem afstaða fólks var könnuð fyrir og eftir rökræður um málin.

„Þetta eru auðvitað ekki öll atriðin sem voru þarna inni vegna tímans. Það var ekki hægt að halda fólki á rökstólum í margar vikur, við þurftum að afmarka okkur við ákveðið mörg viðfangsefni en engu að síður þá skiptir þetta máli og það væri ekki verið að fara af stað í þessa miklu vinnu sem kostar líka fjármuni ef það væri ekki ætlunin að fara vel yfir það og nota það í þessari vinnu,“ segir Unnur.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Lengri útgáfa af viðtali við Unni Brá.

Sex til sjö atriði undir á kjörtímabilinu

Á fyrra kjörtímabilinu á að ráðast í skoðun á nokkrum ákvæðum:

  • Þau sem lengst eru komin fjalla um þjóðareign á auðlindum og náttúruvernd. Drög að frumvarpi um ný slík ákvæði hafa þegar verið í samráðsgátt og fengu samtals tæplega fjörutíu umsagnir. Þar sýnist sitt hverjum - náttúruverndarsamtökum og gömlum stjórnlagaráðsliðum þykir helst til of skammt gengið, en atvinnulífinu of langt. 
     
  • Næst á dagskrá eru ákvæði um forsetann og framkvæmdavald. Úr fundargerðum formannafundanna má lesa að Skúli Magnússon héraðsdómari sé þegar búinn að skrifa drög að slíkum ákvæðum. Þar undir verður líka fjallað um ákvæði um Landsdóm.
     
  • Það er töluvert búið að ræða ákvæði um framsal valdheimilda og alþjóðasamvinnu, og svo standa enn eftir ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og hvernig breyta skuli stjórnarskránni - og jafnvel nýtt ákvæði um íslenska tungu - sem öll eru skemmra á veg komin.

„Ég er bjartsýn manneskja“

Enn er óvíst hvort það verður kosið að vori eða hausti á næsta ári, en í öllu falli er ljóst að tíminn er naumur. Þá vaknar spurningin hvort raunhæft sé að ljúka þessu öllu á kjörtímabilinu.

„Ég er bjartsýn manneskja og ég held að á meðan allir eru á fullum krafti og fullum heilindum að taka þátt þá held ég að það sé alveg vel gerlegt að ná saman um hluti,“ segir Unnur Brá. „Hvort það verði allir hlutir, það verðurðu eiginlega að spyrja stjórnmálamennina um.“

Vonast eftir samstöðu

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segir liggja fyrir að afstaða formannanna til ákvæðanna sem undir eru sé mismunandi. „Og það á auðvitað eftir að koma á daginn hversu mikil samstaða skapast um þær breytingar sem verða lagðar til.“

En verða þær lagðar til sama hvernig það landslag er?
„Ég stefni að því að þessar tillögur verði lagðar fram á komandi hausti og auðvitað vona ég að það verði sem breiðust samstaða um þær.“

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Lengri útgáfa af viðtali við Katrínu.

Hlæja þegar spurt er um samstöðu

Helgi Hrafn Gunnarsson, sem situr formannafundina fyrir hönd Pírata, og Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, hlæja þegar spurt er hvort samstaða ríki á fundunum.

„Nei, ég held að við getum nú ekki kallað þetta samstöðu. En þetta eru nú alltaf meira og minna vinsamlegar umræður og tekist á um sömu hlutina aftur og aftur,“ segir Sigmundur. „En ég er ekki viss um að þetta hafi þokast eins mikið og maður mundi ætla miðað við nítján fundi.“

Hefur áhyggjur af valdaframsalsákvæðinu

„Ég er ekki viss um að hópurinn nái allur saman um tillögur í ljósi reynslunnar til þessa, þannig að fyrir vikið er erfitt fyrir mig að gera ráð fyrir að það náist þarna lending sem allir verða með á,“ segir hann.

Sérðu fyrir þér að það sé hægt að klára það sem átti að klára á þessu kjörtímabili?
„Ekki allt saman, en eitthvað er væntanlega hægt að klára, til að mynda auðlindaákvæðið, hefði ég haldið – það hefur verið þokkaleg samstaða um það. Svo er annað þarna sem ég hef miklar áhyggjur af og raunar það miklar að mér finnst að það geti sett framhald vinnunnar í uppnám,“ segir Sigmundur og vísar þar til ákvæðisins um framsal valds og finnst farið þar of geist með aðkomu utanaðkomandi sérfræðinga.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Lengri útgáfa af viðtalinu við Sigmund Davíð.

Vill nýja stjórnarskrá á grunni frumvarps stjórnlagaráðs

„Þetta er náttúrulega ekki leiðin sem við hefðum farið,“ segir Helgi Hrafn. „Það var haldin þjóðaratkvæðagreiðsla hérna 2012 um að þingið mundi setja nýja stjórnarskrá á grundvelli frumvarps stjórnlagaráðs. Frumvarp um það liggur fyrir núna, það lá fyrir á síðasta þingi líka og að okkar mati þá er ekkert eftir nema bara að klára það mál með þinglegu ferli,“ segir hann.

„Maður auðvitað á að vilja klára sem allra mest en ég meina, það segir sig sjálft að hraðinn á þessu eins og það er núna miðað við hvað það er lítið eftir af þessu kjörtímabili – það er kannski ekki alveg ástæða til bjartsýni,“ segir Helgi Hrafn.

Mynd: Vilhjálmur Þór Guðmundsson / RÚV
Lengri útgáfa viðtalsins við Helga Hrafn.

Fréttastofa falaðist eftir viðtali við Bjarna Benediktsson, formann Sjálfstæðisflokksins, um vinnuna, en fékk þau svör að hann vildi ekki tjá sig og vísaði á Katrínu.