Athugið þessi frétt er meira en 6 ára gömul.

Stjórnarskrárbreytingar enn fastar í nefnd

02.11.2015 - 22:13
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Fulltrúar stjórnmálaflokkanna í stjórnarskrárnefnd hafa enn ekki komið sér saman um tillögur að fjórum nýjum ákvæðum í stjórnarskrá. Stefnt hefur verið að því að samþykkja breytingarnar á Alþingi fyrir áramót og leggja þær í þjóðaratkvæði næsta sumar en alls óvíst er hvort það tekst.

Undanfarin misseri hafa fulltrúar allra stjórnmálaflokka á þingi unnið að frumvarpi sem bæta myndi fjórum nýjum ákvæðum í stjórnarskrána. Ákvæðum um þjóðaratkvæðagreiðslur á grundvelli undirskrifta, um framsal fullveldis vegna alþjóðasamvinnu, um auðlindir og um náttúruvernd.

Stefnt var að því að nefndin skilaði af sér frumvarpi sem færi til Alþingis í byrjun vetrar, þingið samþykkti það fyrir áramót og stjórnarskrárbreytingarnar yrðu svo lagðar í þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum í lok júní. Nú er komið fram í nóvember og enn hefur stjórnarskrárnefndin ekki lokið sinni vinnu.

„Maður var bjartsýnn í lok sumars að það væru einungis nokkrar vikur eftir í vinnunni, síðan hefur reynst tímafrekara en maður ætlaði að klára vinnuna. En á meðan það miðar áfram á hverjum fundi þá er maður bjartsýnn,“ segir Páll Þórhallsson, formaður stjórnarskrárnefndar.

Ljúki nefndin vinnu sinni á næstu vikum hefur Alþingi aðeins nokkrar vikur til að breyta stjórnarskránni fyrir áramót, gert er ráð fyrir að þingstörfum ljúki ellefta desember.

Páll segir að enn séu nokkur úrlausnarefni eftir. „Það gefur auga leið að ef að ætti að halda þjóðaratkvæðagreiðslu samhliða forsetakosningum þá styttist tíminn en ég ætla ekki að leggja mat á hvenær hann er orðinn of stuttur. Nú er forgangsmál hjá mér sem formanni að stuðla að því að nefndin nái að ljúka sínu verkefni, skila af sér tillögum. Síðan taka stjórnmálaforingjarnir við og meta stöðuna.“