Athugið þessi frétt er meira en 7 ára gömul.

Stjórnarformaðurinn keypti íbúð Illuga

26.04.2015 - 12:20
Mynd með færslu
 Mynd: Anton Brink - Ruv.is
Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra seldi íbúð sína á Ránargötu til stjórnarformanns Orku Energy vegna fjárhagserfiðleika og leigir hana af honum núna. Illugi segist vilja upplýsa um þetta þar sem hann vill að öll tengsl eigi að vera uppi á borðum.

Illugi Gunnarsson menntamálaráðherra segir að hann hafi selt íbúðina til stjórnarformanns Orku Energy eftir hrun vegna fjárhagserfiðleika. Hann hafi gert það til að bjarga íbúðinni. Hann fullyrðir að þetta hafi ekki haft áhrif á störf hans sem menntamálaráðherra.

Orka Energy fór með Illuga til Kína

Þátttaka Orka Energy í ferð Illuga Gunnarssonar menntamálaráðherra til Kína á dögunum hefur vakið umtal, ekki síst þar sem Illugi vann ráðgjafarstörf fyrir Orka Energy meðan hann var utan þings. Þetta hefur vakið umræðu um hagsmunatengsl ráðherrans. Illugi segir það fjarri lagi að þessi ferð hafi verið farin sérstaklega fyrir þetta fyrirtæki. Hann hafi heimsótt, ásamt þremur rektorum og forstjóra Rannís, háskóla og vísindastofnanir. Forsvarsmenn Orku Energy hafi verið þar líka á eigin vegum.

„Það var líka mjög eðlilegt,“ segir Illugi. „Til dæmis í tilfelli Orka Energy, sem er starfandi í miklum og stórum jarðhitaverkefnum í Kína sem snúa síðan að vísindasamstarfinu sem heyrir undir mig, þá hefði það verið mjög óeðlilegt ef þeir hefðu ekki komið að þeim þætti þessarar ferðar. Rétt eins og það fyrirtæki hefur verið með í för þegar Jóhanna Sigurðardóttir og Össur Skarphéðinsson voru í Kína.“ Hann segist ekki hafa gert meira fyrir þetta fyrirtæki en fyrri ráðherrar.

Vill upplýsa um önnur tengsl

En Illugi vill koma á framfæri öðrum tengslum. Hann hafi lent í fjárhagskröggum eftir hrun. Fyrirtæki tengdaföður hans varð gjaldþrota og ábyrgðir lentu á Illuga vegna þess, auk þess sem hann hafi að hluta verið tekjulaus þegar hann var utan þings. „Það gerði það bara að verkum að við stóðum frammi fyrir því, við hjónin, að við vorum að missa íbúðina okkar. VIð þurftum eiginlega að velja á milli þess að missa hana eða selja, og þetta er staða sem þúsundir og aftur þúsundir Íslendinga hafa staðið frammi fyrir á undanförnum árum. Það sem ég gerði var að ég seldi íbúðina mína, það er þinglýstur kaupasamningur um það. um það. Þetta er íbúð í Vesturbænum og hún var seld á 53 og hálfa milljón. Ég seldi hana til þessa manns sem ég hafði verið að vinna með í Orka Energy, þ.e. stjórnarformannsins þar, sem er þó ekki eini hluthafi fyrirtækisins og reyndar langt í frá. Mér fannst nauðsynlegt að þetta kæmi fram þó að mér bæri engin skylda til þess að segja frá þessu samkvæmt þeim reglum sem við búum við.“

Illugi segir ekki haft gert neitt annað en sér hafi borið í sínu embætti vegna tenginga þessa fyrirtækis í Kína. Þær séu mikilvægar fyrir Ísland. Fyrirtæki hafi keypt þjónustu fyrir íslenskum jarðvísindamönnum fyrir tíu milljarða undanfarin þrjú ár. Hins vegar sé honum hvorki ljúft né skilt að upplýsa um þetta. 

Nú geti fólk hins vegar metið hvort þessi staða hafi áhrif á embættisverk hans sem tengjast Orku Energy - sem hann telur sjálfur að sé ekki raunin. Hann bendir á að fyrirtækið hafi keypt þjónustu af íslenskum jarðvísindamönnum fyrir tíu milljarða síðustu þrjú árin. „Ef eitthvað er þá væru hægt að benda á það að ég hefði ekki gert eins mikið og mér hefði borið. En ég vildi gæta mín með það að það væri ekkert umfram það sem ég teldi rétt, að þeir fengju að vera með á fundum þar sem verið var að ræða jarðhitamál.“