Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarandstæðingar með félagsmiðla að vopni

14.09.2019 - 07:04
Mynd með færslu
 Mynd: Myndvinnsla/Bjarni Hinriksson - RÚV
Borgar- og sveitarstjórnarkosningar í Rússlandi rata alla jafna ekki í heimsfréttirnar. Öðru máli gegndi um kosningarnar síðustu helgi, og þá sérstaklega kosningar til borgarþings höfuðborgarinnar Moskvu. Róttækir flokkar fengu framboð sín ekki samþykkt og í sumar hefur fjöldi fólks mótmælt. Samfélagsmiðlar eru mikilvægir fyrir stjórnarandstöðuna enda er ekki mikil umfjöllun um óánægju gagnvart ríkjandi stjórnvöldum í fjölmiðlum sem fylgja meginstraumnum.

Stjórnarandstæðingar bættu við sig fylgi og fögnuðu góðu gengi í Moskvu. Fulltrúar Sameinaðs Rússlands, flokks Pútíns forseta, fögnuðu líka, enda hélt flokkurinn meirihluta sínum á borgarþinginu.

Það voru ekki aðeins niðurstöður kosninganna sem vöktu athygli. Í sumar kvað kjörstjórn Moskvuborgar upp þann úrskurð að framboð margra fulltrúa róttækra stjórnarandstöðuflokka væru ógild. Þeir þurfa að safna fjögur til fimm þúsund undirskriftum til að fá að bjóða sig fram en kjörstjórnin komst að þeirri niðurstöðu að yfir tíu prósent undirskriftanna hjá þeim væru ógildar og fengu þeir ekki að bjóða sig fram. Þessi niðurstaða lagðist illa í fólk og margir túlkuðu þetta sem kerfisbundnar aðgerðir til að koma í veg fyrir framboð þeirra sem gætu skákað Sameinuðu Rússlandi.

epa07755195 Russian riot police with a detained participant, of the liberal opposition protest event, in the center of Moscow, Russia, 03 August 2019. Reports statet that theLiberal opposition called their supporters to continue their protest actions against rejecting their candidates for Moscow City Duma elections on 03 August 2019, which are scheduled for 08 September. Most of candidates attended administrative arrest before and during last week protest action. Near 1300 participants of protests were detained police the week before.  EPA-EFE/MAXIM SHIPENKOV
Mótmæli í Moskvu 3. ágúst 2019.  Mynd: EPA

Meirihluti mótmælenda ungt fólk

Fólk safnaðist saman um helgar í miðborg Moskvu og mótmælti, tugir þúsunda mættu og létu óánægju sína í ljós. Lögreglan brást við af hörku, myndbönd hafa verið tekin af lögreglu berja fólk með kylfum og á annað þúsund manns voru handtekin.

Jón Ólafsson, prófessor við hugvísindasvið Háskóla Íslands, hefur búið í Rússlandi og er sérfróður um rússnesk málefni. Hann segir að mótmælin í sumar hafi komið á óvart og þá ekki síst hörð viðbrögð stjórnvalda. „Margir eiga von á nokkurra ára fangelsisdómum fyrir þátttöku í mótmælum eða fyrir einhver skrif á félagsmiðlum eða eitthvað slíkt og þessi harka er gjörsamlega út í hött, í rauninni, og ekki í neinu samræmi við það sem er í gangi, svona alla vega frá vestrænu sjónarmiði,“ segir Jón. 

Mynd með færslu
Jón Ólafsson, prófessor á heimspekisviði Háskóla Íslands. Mynd: RÚV/Silfrið

Mótmælendurnir eru fólk á öllum aldri en meirihlutinn er ungt fólk, háskólanemar og fólk sem hefur nýlega lokið námi. „Þetta er ekki fólk sem endilega stendur höllum fæti í samfélaginu. Þvert á móti er þetta fólk sem að í mörgum tilfellum er vel menntað og gæti komið sér ágætlega fyrir. En það er þessi vaxandi andúð, held ég að maður geti séð, meðal ungu kynslóðarinnar, hvað stjórnvöld eru stöðugt að þrengja að í sambandi við frjálsa umræðu, frjálsa tjáningu og annað slíkt.“

Meðal þeirra sem hafa verið handtekin er hljómsveitin Pussy Riot. Þær voru handteknar daginn fyrir kosningarnar, á göngu í búningum sem voru eftirlíking af lögreglubúningum, haldandi á regnbogafánum. Hljómsveitin hefur lengi gagnrýnt stjórnvöld.

Háskólanemi gæti átt yfir höfði sér dóm vegna mótmæla

Saga Égor Zhukov hefur vakið athygli víða um heim. Hann er 21 árs nemandi í stjórnmálafræði sem gæti átt yfir höfði sér allt að átta ára fangelsisdóm fyrir mótmæli. Hann hafði ætlað að bjóða sig fram til borgarþingsins í Moskvu en tókst ekki að safna tilskyldum fjölda undirskrifta.

epa07777446 A woman holds a placard reading 'Freedom to Egor Zhukov! Stop political terror!' during a single picket in the center of Moscow, Russia, 17 August 2019. Liberal opposition protest against decision of the Central Elections Commission not to register their candidates for Moscow City Duma elections, which scheduled on 08 September, and demand to release people arrested for participation in opposition rallies.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
Mótmælandi krefst þess að Zhukov verði sleppt úr haldi. Mynd: EPA

Stjórnvöld telja að með handahreyfingum sínum í mótmælum í Moskvu hafi hann verið að stjórna mannfjöldanum. Sjálfur kveðst hann hafa verið að beina fjöldanum af götu á gangstétt. Hann hefur gagnrýnt stjórnvöld harðlega og er með sína eigin YouTube-rás sem fjöldi fólks fylgist með.

Zhukov hefur fengið mikinn stuðning eftir handtökuna, meðal annars frá einum þekktasta rappara Rússlands, Oxxxymiron. Stjórnmálafræðineminn hefur einnig fengið stuðning frá kennurum við háskólann þar sem hann er við nám, skólafélögum og fleirum. Í síðustu viku voru fimm manns dæmdir til fangelsisvistar vegna mótmæla. Dómarnir voru tvo til fjögur ár.

Samfélagsmiðlar mikilvægir fyrir grasrótarhreyfingar

Samfélagsmiðlar hafa skipt sköpum fyrir mótmælendur til að koma boðskap sínum á framfæri og auglýsa mótmæli. Meirihluti rússneskra fjölmiðla fjallar ekki um grasrótarhreyfingar í stjórnmálum og þeirra baráttu, nema að mjög litlu leyti og því nýtir fólk aðrar leiðir til að vekja athygli.

Einn þekktasti andstæðingur Pútíns forseta er Alexey Navalny, rúmlega fertugur lögfræðingur, sem margoft hefur verið handtekinn fyrir mótmæli. Hann hugðist bjóða sig fram til forseta landsins í fyrra en var meinað það, þar sem hann hafði hlotið dóm fyrir fjársvik. Brot sem hann segir vera uppspuna stjórnvalda. Navalny heldur daglega ræðu á YouTube-rás sinni og fjallar um ýmis spillingarmál.

epa07745693 (FILE) - Russian Opposition activist Alexei Navalny attends a rally in support of opposition candidates in the Moscow City Duma elections in downtown of Moscow, Russia, 20 July 2019 (reissued 28 July 2019). Reports citing Alexei Navalny's spokeswoman Kira Yarmysh state 28 July 2019 Navalny has been taken to a hospital from his detention early 28 July while suffering from a serious allergy attack.  EPA-EFE/SERGEI ILNITSKY
Alexei Navalny. Mynd: EPA-EFE - EPA

„Hann er með stóran hóp af fólki sem vinnur með honum. Facebook, Twitter og miðill sem að í Rússlandi, sem að er ígildi Facebook og heitir Kontakia, sem að er mikið notaður líka og svo er rússneskur félagsmiðill sem að hefur orðið útbreiddari sem heitir Telegram, sem að stjórnvöld hafa mikið látið fara í taugarnar á sér og reynt að loka, sem að er alveg mjög lifandi rás fyrir aktivista þannig að við sjáum sko, það sem er að gerast í dag í grasrótinni væri alveg óhugsandi án félagsmiðla,“ segir Jón. 

Þrátt fyrir ýmsar takmarkanir hefur Navalny tekist að koma sér upp neti um allt landið. „Hann er í raun með hreyfingu sem að nær meira og minna um allt landið sem að er ótrúlegt afrek má segja miðað við þær takmarkanir sem fólk býr við og þann takmarkaða aðgang að í rauninni svona hinum opna umræðu vettvangi ef svo má að orði komast.“  

Flokkur Navalnys heitir Rússland framtíðarinnar. Flokkurinn átti ekki frambjóðendur í borgarstjórnarkosningunum en Navalny hvatti fólk til að kjósa eftir ákveðnu kerfi. Það virkar þannig að það kaus þann frambjóðanda sem líklegastur var til að skáka frambjóðanda Sameinaðs Rússlands. Allt kapp var lagt á að fækka þeirra fulltrúum á borgarþinginu og það tókst en Sameinað Rússland heldur samt sem áður meirihlutanum á borgarþinginu.

epa07827342 Russian President Vladimir Putin (R) arrives prior to casting his vote at a polling station during Moscow city Duma elections in Moscow, Russia, 08 September 2019. Russians go to polling stations to vote in various regional and municipal elections.  EPA-EFE/ALEXEY NIKOLSKY/ SPUTNIK / KREMLIN POOL
Pútín á kjörstað í Moskvu 8. september 2019.  Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL

Róttækir frambjóðendur fengu ekki að bjóða sig fram

Núna þegar kosningar eru búnar kemur í ljós að hvort sem það var vegna þessarar aðferðar Navalny eða einhvers annars þá fái frambjóðendur Sameinaðs Rússlands mun færri sæti en í síðustu kosningum. „Það er augljós breyting. Aftur á móti getur maður spurt, hverjir fengu þessi sæti? Það voru svo sem ekki neinir stórkostlega róttækir frambjóðendur. Því að það var búið að loka dyrum á þá, að mestu leyti. Það var búið að meina fólki að bjóða sig fram í stórum stíl,“ segir Jón.

Niðurstöður kosninganna voru þær að fulltrúar Sameinaðs Rússlands fengu 25 fulltrúa, Kommúnistaflokkurinn 13, Yabloko fjóra og Réttlátt Rússland þrjá. Jón segir að fæstir fulltrúarnir sem fengu sæti geti verið flokkaðir sem umbótasinnaðir. Til dæmis sé Réttlátt Rússland í raun ekki stjórnarandstöðuflokkur.

Stjórnarandstæðingar lýstu yfir sigri í Moskvu og róttækir fjölmiðlar töluðu um vatnaskil. Fjölmiðlar hliðhollir forsetanum minntust aftur á móti ekki á óánægju með stjórnvöld, heldur sögðu fréttir af því að Sameinað Rússland hafi enn einu sinni hlotið meirihluta.

Árangurinn táknrænn

Jón segir að árangur stjórnarandstæðinga sé táknrænn, fremur en að hann eigi eftir að breyta miklu innan borgarþingsins, sem hefur takmörkuð völd. „Þannig að það er full mikið sagt að það hafi unnist þarna stórsigur. En það náðist þarna árangur og þegar þetta er tekið saman við þessi miklu mótmæli sem voru í Moskvu í sumar þá er vissulega hægt að segja að þessi grasrótarstarfsemi sem hefur verið mjög veikburða síðustu ár, hún virðist vera að styrkjast dálítið mikið.“

Mynd með færslu
 Mynd: Shutterstock

Kommúnistaflokkur Rússlands bætti verulega við sig og fékk 13 sæti á borgarþinginu á sunnudag en var með fimm sæti áður. Flokkurinn þykir ekki hafa sterka tengingu við hinn gamla Kommúnistaflokk Sovétríkjanna sem var lagður niður við hrun Sovétríkjanna. Jón segir að vaxandi stuðningur við hann sé ekki til marks um að fólk vilji hverfa aftur til gamla skipulagsins sem var við lýði á tíma Sovétríkjanna. „Hann hefur ekki vakið þessa, alla vega ekki í mörg ár, þessi tengsl við endurreisn Sovétríkjanna, endurreisn gamla kerfisins, það er miklu frekar Pútín sem að symbóliserar það, heldur en Kommúnistaflokkurinn í dag. Það er erfitt kannski að flokka Kommúnistaflokkinn nákvæmlega svona ideologist. Hann er kannski dálítið sveitalegur flokkur, hann hefur áherslur sem að eru meira og minna í samræmi við það sem að Sameinað Rússland og Pútín setja en er ekki aggresívur eða herskár eða ideologiskur á nokkurn hátt, svo að maður geti séð.“

Ekki nýtt að stjórnvöld ákveði hverjir fái að fara í framboð

Það má því segja að þessi stefna rússneskra stjórnvalda síðan Sovétríkin hrundu, að vilja hafa það í hendi sér hver fær að bjóða sig fram, sé ekki svo ólík því sem tíðkaðist á þeim tíma er Kommúnistaflokkurinn var við völd í Sovétríkjunum frá 1922 til 1991. Það voru haldnar kosningar á tímum Kommúnistaflokks Sovétríkjanna en flokkurinn réð því hverjir fengu að bjóða sig fram. „Þetta er dálítið sterkt í stjórnvöldum í dag og maður sér það mjög greinilega hjá Pútín og Sameinuðu Rússlandi að vilja hafa fulla stjórn á því hvernig frambjóðendur eru valdir, geta stýrt því hverjir fá að fara í framboð,“ segir Jón.

Kosningarnar sjálfar síðasta sunnudag virðast hafa gengið vel og alþjóðlegar eftirlitsnefndir gerðu ekki alvarlegar athugasemdir við framkvæmdina á kjördag. Óréttlætið átti sér stað í aðdraganda kosninganna. „Núverandi stjórnvöld virðast vilja hafa þetta svona, geta haldið kosningar sem eru svolítil sýning en það krefst þess þá að menn komi í veg fyrir að stjórnarandstæðingar séu að troða sér inn í prósessinn og það sem að tókst núna þó að það hafi ekki tekist að koma frambjóðendum inn, vegna þess að þeim er hent út á einhverjum tæknilegum forsendum iðulega.“

Unga fólkið leitar frekar í bæjar- og borgarstjórnmálin

Það er erfitt og nær útilokað fyrir nýja, róttæka frambjóðendur að geta boðið sig fram í Rússlandi. Möguleikarnir hafa þó verið taldir meiri í borgar- og sveitarstjórnarkosningum en til dæmis í þingkosningum. Því hefur unga fólkið lagt áherslu á að geta boðið sig fram þar, líkt og í Moskvu nú um síðustu helgi.

„Vegna þess að stjórnmálin á landsvísu eru undir hælnum á Pútín og Sameinuðu Rússlandi og mjög litlir möguleikar fyrir fólk að hasla sér völl þar það er mjög erfitt þá hefur fólk horft dálítið á lokal pólitíkinna og þess vegna þá er margt ungt fólk, sem að í staðinn fyrir að horfa á landspólitíkina, þá horfir það meira á borgarpólitík og jafnvel hverfapólitík og annað slíkt og þetta er nokkuð sem hingað til hefur verið svið sem stjórnvöld hafa hingað til ekki verið að skipta sér of mikið af en eru nú kannski að sjá hættur þarna líka.“

Stjórnvöld horfi því fram á að margt kraumi undir og að erfitt verði að bæla niður baráttu fyrir lýðræði í landinu, bæði í landsmálunum og bæjar- og borgarpólitíkinni, að sögn Jóns. „Það er ansi hætt við því að svona frekari harka í viðbrögðum við mótmælum eigi eftir að valda bara enn þá meiri óróa í samfélaginu.“

Mynd með færslu
Mótmæli í Sankti Pétursborg 18. júlí 2013.  Mynd: Hey_Vlad

Mestu mótmæli í nær áratug

Mótmælin í Moskvu í sumar eru talin þau fjölmennustu síðan 2013. Þá hafði alda mótmæla risið þar sem fólk taldi að forsetakosningar árið 2012 hafi ekki farið fram með réttmætum hætti.

Árið 2012 tók Pútín við á ný sem forseti, eftir að hafa setið í embætti forsætisráðherra eitt kjörtímabil. Á þeim tíma voru lög um mótmæli hert og refsingar við mótmælum í leyfisleysi þyngdar. Pútín tók upphaflega við völdum árið 2000 af Boris Jeltsín og hafa skoðanakannanir sýnt stuðning við hann sem varla þekkist í vestrænum ríkjum, 65 til 85 prósent. Það hefur þó hallað undan fæti á síðustu misserum og stuðningurinn hefur mælst minni. Jón segir að það verði að hafa í huga að þátttaka í könnunum sé minni í Rússlandi er á Vesturlöndum, eða um 30 til 40 prósent. „Rússar eru upp til hópa tregari til að taka þátt í svona skoðanakönnunum, sér maður statistiskt. Þar að auki er viss tilhneiging sem hefur verið kölluð valdstjórnartilhneigingin, hjá þeim sem svara, að vera þá tilbúin til að lýsa yfir stuðningi við ríkjandi stjórnvöld. Þannig að margir halda því fram að vinsældatölur Pútíns og stjórnvalda séu töluvert ýktar og ekki í samræmi við hvernig landið liggur í samfélaginu og þess vegna má kannski búast við því að ýmislegt geti breyst mjög hratt.“

epa07837073 Russian President Vladimir Putin (L) speaks to local veterans of the 1999 counter-terrorist operation in the village of Botlikh, Dagestan, Russia, Russia, 12 September 2019.  EPA-EFE/ALEXEY NIKOLSKY/ SPUTNIK / KREMLIN POOL
Pútín spjallar við hermenn á eftirlaunum í Dagestan 12. september.  Mynd: EPA-EFE - SPUTNIK POOL

Pútín hefur verið við völd í tæp 20 ár og þegar þessu kjörtímabili lýkur verða þau orðin 24. Þessi langi valdatími skapar óvissu, að sögn Jóns. Taki andstæðingar Pútíns við af honum og hans samstarfsfólki á valdastólum gæti það þýtt að þau, sem fráfarandi valdhafar, gætu átt yfir höfði sér málsóknir, eignaupptöku og annað mótlæti. „Þannig að það er svona loft lævi blandið, getum við sagt, en það er voðalega erfitt að átta sig á því hvert hlutirnir eru að stefna. En ég held að það sé miklu meiri óvissa í rússneskum stjórnmálum í dag heldur en hefur verið mjög lengi.“

dagnyhe's picture
Dagný Hulda Erlendsdóttir