Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stjórnarandstaðan í Bretlandi ævareið

28.08.2019 - 15:54
Mynd:  / 
Gífurleg ólga er í breskum stjórnmálum eftir að Boris Johnson forsætisráðherra ákvað að senda þingið heim frá annarri viku september til 14. október. Stjórnarandstaðan telur að með þessu vilji Johnson hindra að þingmenn geti komið í veg fyrir að Bretar fari samningslausir úr Evrópusambandinu.

Gífuryrði notuð um Johnson

Það er ekki ofsagt að segja að stjórnarandstaðan í Bretlandi sé ævareið og ekki hefur skort gífuryrðin í dag. Jeremy Corbyn, leiðtogi Verkamannaflokksins, segir aðgerðir Johnsons svívirðingu og aðför að stjórnarskránni. 

Tilraun til að hundsa vilja þingins

Corbyn sagði enn fremur að þingfrestunin væri tilraun forsætisráðherra, sem hefði verið valinn af mjög þröngum hópi fólks í Íhaldsflokknum, til að hundsa vilja meirihluta þingmanna. Hann sagði að þegar þingið kemur saman í næstu viku hyggist hann reyna allt til að koma í veg fyrir að Boris Johnson kæmi fram vilja sínum. John Bercow, forseti þingsins, brást einnig hart við.

„Andlátsdagur lýðræðis í Bretlandi“

Nicola Sturgeon, fyrsti ráðherra skosku stjórnarinnar, tók jafnvel enn dýpra í árinni og sagði að Johnson hagaði sér eins og ómerkilegur einræðisherra og dagsins yrði minnst sem andlátsdags lýðræðis í Bretlandi. 

Breska þingið er í sumarleyfi en kemur saman í nokkra daga í næstu viku. Jeremy Corbyn boðar að þá verði lagt fram lagafrumvarp til að stöðva fyrirætlanir forsætisráðherra og vantraust á stjórn hans ef þurfa þykir. 

Johnson segir ástæðuna ný stefnumál stjórnarinnar

Boris Johnson segir ástæðu þess að þinginu verði frestað til 14. október sé að stjórn hans hyggist leggja fram mörg lagafrumvörp þar sem tekið sé á mörgum knýjandi málum. Hann harðneitar að ástæðan sé að koma í veg fyrir umræður um Brexit í þinginu og segir stjórnarandstaðan hafi nægan tíma.