Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjórn Sorpu og fleiri sinntu ekki eftirlitshlutverki

Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson / RÚV
Stjórn Sorpu sinnti ekki eftirlitshlutverki sínu nógu vel og margir aðrir sem áttu að hafa eftirlit með gerð gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi voru lítt virkir. Þetta er meðal þess sem kemur fram í skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar fyrir stjórn Sorpu. 

1356 milljónir vantaði í fjárhagsáætlun

Skýrslan um stjórnarhætti og áætlanagerð Sorpu og gas- og jarðgerðarstöð fyrirtækisins í Álfsnesi er viðamikil. Í henni er reynt að greina hvað hafi valdið af því 1356 milljóna króna frávik voru á fjárhagsáætlun síðasta árs. Þar af var viðbótarkostnaður vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvarinnar 638 milljónir og inn í áætlunina vantaði 719 milljónir króna til að fjármagna tækjabúnað í móttökustöðina í Gufunesi. 

Ekki nóg að hafa gott skipulag

Innri endurskoðun telur að flókin framkvæmd eins og jarðgerðarstöðin, sem er stærsta fjárfesting Sorpu frá upphafi, hafi að mörgu leyti verið vel skipulögð. Hins vegar virkaði þetta skipulag ekki vel. Samkvæmt útreikningum í skýrslunni verða frávik frá grunnáætlunum um stöðina á ákvörðunarstigi meiri en 50% þegar stöðin verður tekin í notkun. Gert er ráð fyrir að hún kosti rúma fimm milljarða króna. 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Geir Ólafsson - RÚV
Skipurit varðandi gas- og jarðgerðarstöð. Úr skýrslu Innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar.

 

Fjöldi hópa hafði eftirlit á sinni könnu

Eigendavettvangur Sorpu og stýrihópur eigenda vegna stöðvarinnar, sem skammstöfuð er GAJA, er tengdur stjórn Sorpu. Það er líka sérstakur rýnihópur stjórnarinnar vegna GAJA. Framkvæmdastjóri Sorpu er svo tengiliður við stjórnina og eftirlit er á hendi verkfræðistofa og byggingafélags. 

Stýrihópur rækti ekki hlutverk sitt

Rýnihópi fjármálastjóra sveitarfélaganna gekk illa að fá upplýsingar frá Sorpu. Stýrihópur eigendahóps hélt bara þrjá fundi og ekki verður séð að hann hafi rækt hlutverk sitt, segir í skýrslunni.

Stjórnarformaður vissi ekki af rýnihópi stjórnar

Rýnihópur stjórnar Sorpu sinnti ekki faglegu og fjárhagslegu eftirliti. Stjórnarformaður Sorpu vissi ekki einu sinni að þessi rýnihópur væri til. Innri endurskoðun telur að framkvæmdastjóri Sorpu hefði átt að upplýsa stjórnina um hópinn, sér í lagi af því hann var hans hugmynd og hann sat í honum. 
Framvinduskýrslur framkvæmdastjóra til stjórnar vegna GAJA voru ómarkvissar, stundum með röngum upplýsingum og hefðu átt að vera reglubundnari. Þetta hafi verið sérlega óheppilegt því meirihluti stjórnar var nýr sumarið 2018, þeirra á meðal stjórnarformaðurinn. 

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Bragi Valgeirsson - RÚV
Björn Halldórsson framkvæmdastjóri Sorpu bs.

 

Stjórnarmenn verði óháðir eigendum

Varðandi stjórn Sorpu þá er lagt til í skýrslunni að stjórnin sitji í fjögur ár en ekki tvö, settar verði hæfisreglur um stjórnarmenn og athugað hvort stjórnarmenn skuli vera óháðir eigendunum þ.e.a.s. til dæmis ekki kjörnir sveitarstjórnarmenn. Innri endurskoðun telur að stjórnin hafi ekki sinnt eftirlitshlutverki sínu nógu vel og hefði átt að hafa frumkvæði að því að afla upplýsinga um kostnað. 

Meirihlutaeigandinn með 1 af 6 stjórnarmönnum

Reykjavíkurborg á meirihluta í Sorpu. Samt er borgin með einn fulltrúa eins og hin sveitarfélögin sem eiga í Sorpu. Innri endurskoðun telur réttmætt að borgin eigi fleiri fulltrúa í stjórn.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Vilhjálmlur Þór Guðmu - RÚV
Birkir Jón Jónsson stjórnarformaður Sorpu bs.