Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stjórar hlynntir en foreldrar með áhyggjur af styttingu

20.01.2020 - 22:15
Mynd:  / 
Leikskólastjóri í Reykjavík telur að allir leikskólastjórar í borginni séu hlynntir styttingu á opnunartíma leikskóla. Framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir styttinguna bera brátt að.  
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Guðrún Jóna Thorarensen.

Mikið hefur verið rætt um samþykkt meirihluta skóla- og frístundaráðs borgarinnar um að fara að tillögum stýrihóps um leikskólastarf og stytta opnun leikskóla úr níu og hálfri í níu klukkustundir. 

„Ég myndi segja að allir leikskólastjórar í borginni eru hlynntir þessari styttingu. Og það er vegna þess að þessi stýrihópur er að reyna að finna leið fyrir okkur starfsfólk leikskólans og barnahópinn líka að minnka álagið innan leikskólans,“ segir Guðrún Jóna Thorarensen leikskólastjóri í Sólborg við Vesturhlíð í Reykjavík. 

Hrefna Sigurjónsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis og skóla segir samtökin hafa ákveðnar áhyggjur af þessu: 

„Af því að þetta kemur svolítið snöggt upp á og er mikil breyting sem kemur fljótt til framkvæmda. Þannig að það eru auðvitað fjölskyldur sem munu lenda í vandræðum og hafa svona áhyggjur af því að þetta skapi aukna streitu að ná að láta daginn ganga upp.“

Hægt að sækja um undanþágu

Verði tillagan samþykkt kemur hún til framkvæmda 1. apríl. Foreldrar geta þó sótt um undanþágu til 1. ágúst. Aðeins 60 börn af 5200 í leikskólunum munu vera með níu og hálfs tíma dvöl. 

Hrefna segir lítið sem ekkert samráð hafa verið haft við foreldrana, sem nýta sér þjónustuna, og að betra hefði verið að bíða þar til búið væri að semja um styttingu vinnuvikunnar 

Mislangir opnunartímar eftir sveitarfélögum

Opnunartími leikskóla er mismunandi eftir sveitarfélögum. Reykjavík ætlar að hafa opið hálfátta til hálffim. Þessi tími hefur gilt í Kópavogi síðan í febrúar í fyrra. Í Reykjanesbæ er skólar opnir 7.45 til 16.15 nema einn. Á Akureyri er líka opið frá 7.45 til 16.15. Seltjarnarnes er að athuga 7.30 til 16.30 opnun en nú er opið þar 7.45 til 17. Í Hafnarfirði er opið 7.30 til 17 en skólar mega loka hálffimm og börn mega ekki vera lengur en í 8 og hálfa klukkustund. Lengst er opið í Garðabæ og Mosfellsbæ frá 7.30 til 17. 

Guðrún Jóna hefur reynslu af styttingu úr öðru sveitarfélagi og segir mörg sveitarfélög hafa stytt opnunartíma leikskólana fyri um tíu árum.  

„Það gekk mjög vel og það hefur enginn óskað eftir breytingu frá þessari aðgerð og ég held að þetta sé ekkert sem við þurfum að óttast.“

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon - RÚV
Hrefna Sigurjónsdóttir.