Stjarnan á toppinn með sigri á Tindastól

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Stjarnan á toppinn með sigri á Tindastól

17.01.2020 - 22:17
Stjarnan komst á toppinn í úrvalsdeild karla í körfubolta með sigri á Tindastól í Garðabænum í kvöld. Þór vann Þór Þorlákshöfn á Akureyri og Grindavík laut lægra haldi fyrir Haukum í Grindavík.

Stjarnan jók forskot sitt á Tindastól með sigri á stólunum í Garðabænum í kvöld 73-66. Tindastóll var fyrir leikinn í þriðja sæti deildarinnar með 18 stig en Stjarnan í öðru með 22 stig. Með sigrinum, sem er þeirra tíundi sigur í röð, fer Stjanan upp fyrir Keflavík og á toppinn með 24 stig. Stjörnumenn voru með yfirhöndina nánast allan leikinn og í hálfleik var staðan 43-30 í hálfleik. Munurinn fór þó í þrjú stig rétt undir lok leiksins en Stjörnumenn réttu úr kútnum og endaði leikurinn með 7 stiga mun. 

Stigahæstur Stjörnumanna í leiknum var Ægir Þór Steinarsson með 19 stig og fimm fráköst og í liði Tindastóls var það Gerel Simmons sem var stigahæstur með 18 stig og fimm fráköst.

Þór úr fallsæti með 83-73 sigri á Þór Þorlákshöfn

Þór Akureyri vann sinn þriðja leik í röð í kvöld í úrvalsdeild karla í körfubolta þegar liðið tók á móti Þór frá Þorlákshöfn. Með sigrinum er Akureyrarliðið með átta stig eftir þrettán leiki og fer úr fallsæti í það tíunda. Þór Þorlákshöfn er í áttunda sæti deildarinnar með tólf stig. Akureyringar eiga nú leik til góða á liðin fyrir neðan þá, Val og Fjölni.

Í leikhléi var staðan 49-40 fyrir Akureyringum og eftir þriðja leikhluta hafði munurinn aukist enn meira og Akureyringar með 69 stig og Þór Þorlákshöfn 56. Þór Þorlákshöfn tókst ekki að jafna leikinn í síðasta leikhluta og 83-73 sigur Akureyringa staðreynd. Terrence Motley var stigahæstur í liði Akureyringa með 20 stig og átta fráköst og hjá Þór Þorlákshöfn var Halldór Garðar Hermannsson stigahæstur með 18 stig og sjö stoðsendingar. 

Haukar lögðu Grindavík örugglega 

Grindavík tók á móti Haukum í Grindavík í leik sem endaði 73-88 fyrir Haukamenn. Haukar byrjuðu leikinn betur og voru ellefu stigum yfir í hálfleik 35-46. Þó að Grinvíkingum hafi tekist að minnka muninn í þriðja leikhluta sáu þeir ekki til sólar í þeim fjórða og fögnuðu Haukar sigri í Grindavík. Með sigrinum fara Haukar í sjötta sæti deildarinnar en Grindavík heldur níunda sætinu.

Stigahæstur í liði Hauka var Flenard Whitfield með 20 stig og 12 fráköst. Stigahæstur Grindvíkinga var Ingvi Þór Guðmundsson með 23 stig og sex fráköst.

Tengdar fréttir

Körfubolti

Keflavík vann grannaslaginn og fer á toppinn

Körfubolti

Haukar og Skallagrímur sækja að Keflavík