Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Stjarna Björgvins sett í hafnfirskan stíl

Mynd með færslu
 Mynd:  - RÚV

Stjarna Björgvins sett í hafnfirskan stíl

06.12.2019 - 11:14

Höfundar

Ný stjarna til heiðurs Björgvini Halldórssyni verður sett í gangstéttina við Bæjarbíó eftir að sú sem sett var í gangstéttina í sumar var fjarlægð eftir athugasemd frá viðskiptaráði Hollywood. Björgvin segir að verið sé að breyta stjörnunni „á mjög skemmtilegan hátt og í stíl Hafnarfjarðar“ og kveðst fullviss um að fólki eigi eftir að líka breytingin. Páll Eyjólfsson, sem rekur bæjarbíó, segir að stjarnan hafi verið fjarlægð strax, af virðingu við þá sem vinna í höfundarrétti.

Páll segir í samtali við fréttastofu að hugmyndin hafi verið sú að heiðra íslenska tónlistarmenn með því að setja stjörnur í gangstéttina. Fyrsta stjarnan var til heiðurs Björgvini Halldórssyni.

Virðing við tónlistarmenn og aðra sem vinna í höfundarrétti

Páll segir að þegar bréfið barst frá viðskiptaráði Hollywood hafi strax verið brugðist við; kranabíll var sóttur og stjarnan fjarlægð. Páll vísar til þess að hann hefur lengi unnið með þekktum tónlistarmönnum, fólki sem starfar í höfundarréttarvörðu umhverfi. Viðbrögðin hafi því verið þau að fjarlægja stjörnuna strax. „Bæði af virðingu við þá sem vinna í höfundarrétti og þá sem hafa athugasemdir við þetta.“

Nú verður skoðað hvernig hægt sé að heiðra tónlistarmenn áfram við Bæjarbíó. Það á eftir að ráðast og skýrist í samvinnu og samtali. 

„Á endanum verður rétt alltaf að rétt,“ segir Páll sem heldur ótrauður áfram. „Góð hugmynd getur verið góð hugmynd þó að eitthvað þurfi að skoða á leiðinni.“

Íslenskum stjörnum prýdd

Björgvin Halldórsson skrifaði færslu á Facebook-síðu sína í morgun. Hann sagði að stjarnan hefði verið fjarlægð þar sem hún þótti of lík stjörnunni á frægðarbrautinni í Los Angeles. „Nú er verið að breyta stjörnunni á mjög skemmtilegan hátt og í stíl Hafnarfjarðar. Við erum viss um að fólk á eftir að líka við breytinguna. Strandgatan verður íslenskum stjörnum prýdd í framtíðinni.“

Fréttin var uppfærð og fyrirsögn breytt eftir að færsla Björgvins birtist á Facebook.

Tengdar fréttir

Hafnarfjarðarkaupstaður

Hollywood lét fjarlægja stjörnu Björgvins úr gangstétt