Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Stillir upp náttúru andspænis menningu

Mynd: RÚV / RÚV

Stillir upp náttúru andspænis menningu

08.05.2019 - 11:07

Höfundar

Á sýningunni Hluti í stað heildar í Listasafni Reykjavíkur sýnir myndlistarkonan Anna Guðjónsdóttir innsetningar þar sem hún leikur sér með arfleið landslagsmálverksins.

Safnið hefur undanfarin ár boðið listamönnum að taka yfir A-sal Hafnarhússins og í innsetningum Önnu er náttúru er stillt upp andspænis menningu. Í miðju rýminu eru síðan stálrammar sem mynda dýpt og fjarlægð milli þessara tveggja fyrirbæra. 

„Og fyrir mig fyrst þegar ég hugsaði hvernig næ ég þessu saman ef ég myndi bara hengja verk á veggina í kring. Þá er bara tómt í miðjunni það er kemur enginn kraftur inn í rýmið. Ég var lengi, ég teiknaði mig eiginlega í gegnum þetta, teiknaði og teiknaði og teiknaði fór eftir teikningu, mældi og allt þetta. Þá fór það smá að skríða saman og þá sá ég allt í einu fjarvíddina hérna inn.“

Mynd með færslu
 Mynd:
Innsetning Önnu Guðjónsdóttur í A-sal Listasafnsins í Reykjavík

Leikur með arfleifð landslagsmálverksins

Anna segir að hugmyndin hafi sprottið við gerð landslagsmálverka þegar hún fór að gera tilraunir með að þekja verkin með myndum af þrívíðum sýningarkössum sem skildu að landslagið og áhorfandann. 

„Að vissu leyti er ég að vinna með tvívídd og þrívídd af því málverkið er jú bara flatt og í raun ef maður er á smart símanum þá er þetta allt flatt að reyna að fá manneskjuna inn í hughrifin og að þér finnst þetta vera þessir járnrammar sem að virka eins og línur á teikningu. Þú getur horft á þetta flatt en þú getur líka horft á þetta eins og það sé endalaust farið dýpra og dýpra inn í.“

„Ég hef alltaf kannski ekki eins meðvitað og núna unnið með uppruna og einhverntíma greip ég til málverksins og þá fór maður í gegnum allskyns stíla og tækni og allt það. Einhverntíma spurði maður sig svo í lok náms: Hvað er það sem ég er að gera hérna? Hvað er þetta?“ 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Anna segir að eftir að hafa þurrkað bletta á einlita málverk hafi sprottið út úr því landslag sem Anna kannaðist við. „Og það er mjög oft Þingvellir og Almannagjá því ég var svo mikið sem barn þar. Svo gerðist ég þjóðgarðsvörður þarna eitt sumarið, þá fór ég að hugsa en hvað stjórnar þessari sýn okkar á landslagið? Og það er náttúrulega þekkingin og söfnin og skólinn og allt þetta.“

Lifandi listaverk

Gluggar salarins skipa líka stórt hlutverk í verkinu en þeir mynda hreyfanleg listaverk sem eiga í samtali við verkin í salnum. „Og þessir fjórir gluggar, ég ákvað að hafa tvo alveg bara opna og hina, ég setti ómálaða strekkta blindramma með ljósum striga í og það er í rauninni ljósið sem allan tímann, ljósið úti og skuggarnir og bílarnir sem eru alltaf að búa til það verk.“ 

Sýningin Hluti í stað heildar stendur yfir í Hafnarhúsinu til 19. maí.