Stilla ungri efasemdarkonu upp gegn Gretu

Mynd með færslu
 Mynd: Naomi Seibt - YouTube

Stilla ungri efasemdarkonu upp gegn Gretu

25.02.2020 - 16:32
Hinni þýsku Naomie Seibt hefur verið stillt upp sem eins konar „anti“ Gretu Thunberg af hugveitunni Hertland Institute sem setur spurningarmerki við þau vísindalegu álit sem sýna fram á að hlýnun jarðar sé af manna völdum.

Naomi Seibt er 19 ára stelpa frá Þýskalandi sem er orðin einhvers konar talsmaður þeirra sem telja loftslagsbreytingar ekki raunverulegar. Hún hefur nú verið ráðin af Heartland Institute, hugveitu (e. think tank) í Chicago sem talar fyrir „umhverfis raunsæi“ og vill vekja upp spurningar um það samhljóma vísindalega álit að hlýnun jarðar sé af manna völdum. 

Washington Post fjallar um málið og segir Heartland í raun vera með þessu að stilla Naomi beint gegn Gretu Thunberg. Hugveitan hefur til dæmis sent frá sér myndband sem ber nafnið „Naomi Seibt vs. Greta Thunberg: Hvorri ættum við að treysta?“ Greta hefur auðvitað vakið athygli á loftslagsbreytingum lengi með loftslagsverkföllum og föstudögum fyrir framtíðina og þannig tekist að ná fjöldanum öllum af ungu fólki með sér í baráttuna fyrir framtíð jarðarinnar.

Naomi hefur hins vegar sagt að hún sé ekki endilega að mótmæla því að gróðurhúsalofttegundir séu að hita plánetuna en áhrif þeirra séu ýkt af mörgum vísindamönnum og baráttufólki fyrir umhverfismálum. Hún segist heldur ekki vilja verða til þess að fólk hætti að trúa á loftslagsbreytingar af mannavöldum en það sé erfitt að trúa því að losun mannsins sé að hafa öll þau áhrif sem sýnt er fram á að hún hefur. 

Naomi var virk á YouTube áður en hún fór í samstarf við Heartland þar sem hún birti myndbönd sem fjölluðum um málefni á borð við fólksflutninga og femínisma, auk þess sem hún talaði talsvert um loftslagsbreytingar. 

 

Tengdar fréttir

Umhverfismál

Fjölgar í hópi þeirra sem afneita loftslagsvísindum

Umhverfismál

Heimurinn að bregðast börnum sínum

Umhverfismál

Greta Thunberg manneskja ársins hjá Time

Umhverfismál

Hver er Greta Thunberg?