Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

SÞ: Aðstæður flóttafólks á Grikklandi skammarlegar

epa08150017 A refugee woman with her child walking next to a garbage at the refugee camp of Moria, on Lesvos island, Greece, 21 January 2020 (issued 22 January 2020). The entire island of Lesvos among with Chios and Samos are holding a 24-hour strike on 22 January to protest the migration situation as thousands of asylum seekers are stranded there in unbearable situation and low temperatures.  EPA-EFE/DIMITRIS TOSIDIS
Kona og barn ganga framhjá haug af ruslapokum í Moría-flóttamannabúðunum á Lesbos Mynd: epa
Framkvæmdastjóri Flóttamannastofnunar Sameinuðu þjóðanna kallar eftir skjótum aðgerðum til að bæta þær „hörmulegu og skammarlegu" aðstæður sem flóttafólk neyðist til að búa við í móttökumiðstöðvum á grískum eyjum. Framkvæmdastjórinn, Filippo Grandi, segir skjótra aðgerða þörf til að draga verulega úr óboðlegum þrengslum og bæta aðstæður flóttafólks í yfirfullum búðum á grísku eyjunum. Brýnast sé að auka aðgengi fólks að hreinu vatni, bæta hreinlætisaðstöðu og heilbrigðisþjónustu.

„Aðstæður á eyjunum eru hörmulegar og skammarlegar," segir Grandi í yfirlýsingu sem hann sendi frá sér í gær, og vetrarveðrið gerir illt enn verra. „Grikkland, með stuðningi Evrópu, verður að grípa til aðgerða nú þegar, til að bæta það óverjandi ástand sem nú ríkir, á meðan unnið er að langtímalausn á vandanum."

38.000 í búðum sem ætlaðar eru 6.200 manns

Yfir 38.000 manns eru í móttökustöðvum flóttafólks á grísku eyjunum Lesbos, Samos, Kíos, Leros og Kos, sem ætlaðar eru 6.200 manns. Gríska ríkisstjórnin, sem tók við völdum eftir kosningasigur hægri flokkanna í júlí í fyrra, hefur boðað lokun búðanna á Lesbos, Samos og Kíos á þessu ári, og hyggst reisa aðrar, minni en fleiri í staðinn, sem eiga að vera tilbúnar um mitt ár.

Þá freista stjórnvöld þess að hraða og auka flutning flóttafólks frá eyjunum yfir í stærri búðir á meginlandinu. Þau áform mæta víða andstöðu heimamanna, jafnt almennings sem sveitarstjórna.

Ógnirnar með þeim verstu sem þekkjast

Í yfirlýsingu sinni segir Grandi að stjórnin í Aþenu verði að bregðast við skiljanlegum áhyggjum samfélaganna sem ætlað er að hýsa flóttafólkið, til að draga úr núningi, ótta og illindum. Hins vegar megi ekki draga það lengur að flytja fólk yfir á meginlandið í stórum stíl, þar sem útbúa þurfi mannsæmandi aðstöðu svo fljótt sem auðið er.

„Fjöldi fólks er án rafmagns, jafnvel án vatns, þar sem það hefst við innan um skít og skarn og heilbrigðisþjónusta er lítil sem engin,“ segir í yfirlýsingu Grandis. „Ógnirnar sem steðja að viðkvæmasta fólkinu; þunguðum konum, nýorðnum mæðrum, eldra fólki og börnum, eru með þeim verstu sem fyrirfinnast meðal flóttafólks í heiminum.“

Kallar eftir þátttöku ESB og aðildarríkja þess

Og Grikkir geta ekki leyst þetta mikla og knýjandi vandamál einir og óstuddir, segir í yfirlýsingu framkvæmdastjóra Flóttamannahjálparinnar, sem kallar eftir aðgerðum Evrópusambandsins og aðildarríkja þess. Sérstök áhersla er lögð á að flytja fylgdarlaus börn í betri aðstæður annars staðar í álfunni og gera þeim kleift að sameinast fjölskyldu sinni á ný, þar sem slíkt er mögulegt.

Þá er það lykilatriði, segir í yfirlýsingunni, að „fjárfesta í langtímalausnum fyrir það fólk sem fær stöðu flóttafólks, sem miða að því að gefa þeim tækifæri til að standa á eigin fótum.“