Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Stéttastríð í kvikmyndunum

Mynd: Parasite / Parasite

Stéttastríð í kvikmyndunum

16.02.2020 - 12:58

Höfundar

Um síðustu helgi hlaut suðurkóreska myndin Sníkjudýr, Parasite, Óskarsverðlaun sem besta kvikmyndin. Það er óvenjulegt að jafn óvæginni gagnrýni á misskiptingu kapítalísks samfélags sé hampað af kvikmyndaakademíunni.

Í nýlegri grein á vef BBC er spurt hvort kvikmyndirnar séu raunverulega komnar í stríð við þá ríku. Anna Björk Einarsdóttir bókmenntafræðingur segir að Parasite sé ekki eina kvikmyndin sem hefur dregið upp dökka mynd af síðkapítalísku samfélagi að undanförnu.

Anna Björk, sem er nýdoktor í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands og Kaliforníuháskóla í Santa Cruz í Bandaríkjunum, tekur undir það með Hugh Montgomery, menningarblaðamanni BBC, að stéttaátök hafi verið óvenju áberandi í kvikmyndum á síðasta ári.

„Það voru nokkrar myndir sem tókust á við og drógu upp svolítið dökka mynd af samtímanum,“ segir Anna og nefnir þar sérstaklega Joker eftir Todd Philips, Us eftir Jordan Peele, Midsommar eftir Ari Aster, og Óskarverðlaunamyndina Parasite.

Með kolsvartri komedíu teiknar Parasite upp harkalegar andstæður fátækra og ríkra í Suður-Kóreu. Á yfirborðinu eru það fátæklingarnir sem eru  sníkjudýrin, hin bláfátæka Kim-fjölskylda beitir lymskulegum blekkingum til að tryggja sér vinnu hjá Park-fjölskyldunni sem er moldrík. Í viðleitni sinni til að tryggja sér öll störfin á heimilinu lendir Kim fjölskyldan hins vegar í átökum við aðra öreigafjölskyldu, sem lifir eins og draugar í kjallaranum á glæsivillu Park-hjónanna.  Parasite átti upphaflega að vera táknsaga um suðurkóreskt samfélag en hins vegar virðist fólk alls staðar finna sig í sögunni. Leikstjórinn Bong Joon-Ho komst að því að í raun náði hún vel utan um tilveruna í síðkapítalísku samfélagi.

Anna Björk segir að myndin sýni mjög dökka mynd af samfélagi þar sem félagslegur hreyfanleiki er enginn. Hún bendir til að mynda á draum lágstéttarsonarins undir lok myndarinnar um að kaupa glæsivillu yfirstéttarfjölskyldunnar. „Þetta er hinn kapítalíski draumur um að þú getir unnið þig upp í stöðu efri stéttarinnar ef þú ert bara nógu duglegur. En myndin sýnir mjög skýrt að þetta er algjör fantasía,“ segir Anna.

Hún segir að líkt og myndirnar Us og Midsommar, fjalli Parasite um endurframleiðslu samfélagsgerðarinnar. Ólíkt Joker geri hún ekki einvíða skúrka úr ríka fólkinu heldur skoði sjálft kerfið sem liggur að baki óréttlætinu.  „Þannig að það skiptir kannski ekki öllu máli hver er í hvaða hlutverki, heldur er það kerfið sem býr til misskiptinguna.“

Hún tekur undir að myndirnir bjóði ekki upp á nein svör eða pólitískan leiðarvísi. „Það eru að minnsta kosti engin auðveld svör og engar auðveldar leiðir fyrir áhorfandann að upplifa að einstaklingarnir geti einir og sér risið upp. Það má síðan ræða hvort það vanti einhverja útópíska hugsun um samtakamátt verkalýðsins í þessar myndir. En ég myndi lesa það þannig að það sé gefið færi á því að þetta sé í rauninni það sem þarf að gerast.“

Tengdar fréttir

Kvikmyndir

Suðurkóreskur sigur og óvænt sneypuför stórmynda

Pistlar

Norræna froðuvélin: Tilbiðjum valdið sem treður á okkur

Kvikmyndir

Stéttamunur, kolefnisprump og kvikmyndahátíðir

Kvikmyndir

Spegli brugðið að blóðugri sköpunarsögu þjóðar